Slæmt ef þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setja reglur

Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: Annars vegar tæknilegt mat og hins vegar huglægt mat.

Fyrri kosturinn hefur á sér yfirbragð faglegrar úttektar og jafnvel hlutlægni, en gallinn er sá að þessi aðferð dugar skammt til að meta atriði sem eru ekki síður mikilvæg svo sem t.d. það sem hestamenn myndu kalla „geðslag og vilja“.

Góðir verkmenn geta m.ö.o. vænst þess að raðast mun neðar á slíkum kvarða en þeir sem hafa skarað fram úr í kennilegri lögfræði. Síðari valkosturinn, þ.e. hinn huglægi, hefur þann ókost að bjóða heim hættu á pólitískum geðþótta og spillingu.

Hvar millivegurinn liggur er erfitt að meta. Ég treysti mér þó til að fullyrða að lausnin er ekki í því fólgin að þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji „skýrari reglur“ eins og það var orðað í þinginu um daginn, né heldur að slíkar reglur yrðu samdar með það fyrir augum að „þvinga ráðherra“ til að fylgja „eðlilegri málsmeðferð“.

Hér er vel skrifað og yfirvegað. Höfundurinn er Arnar Þór Jónsson, hrl og lektor við Háskólann í Reykjavík (greinaskil eru mín). Tek það fram að ég þekki manninn ekkert. Hins vegar hef ég tekið eftir að hann skrifar stundum greinar í fjölmiðla og er afar málefnalegur og málflutningurinn hófsamur en rökfastur. Slíkt kann ég vel að meta.

Arnar Þór er að ræða um skipun dómara í Landsrétt. Hann varar við upphlaupi og vanstillingu og kemst vel að orði að ekki sé gott að „þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji „skýrar reglur““. Hér vísar hann án efa til hins geðþekka þingmanns Jóns Þórs Ólafssonar, Pírata, sem fékk ákúrur frá forseta fyrir munnsöfnuð og hávaða í ræðustól Alþingis.

Sá fræðilegi og verkmaðurinn

Mér finnst áhugavert að Arnar Þór gerir greinarmun á kennilegri lögfræði og verklegri. Hér er ábyggilega átt við það sem oft er nefnt fræðileg nálgun og svo hins vegar „praktísk“, hugsanlega hagnýt nálgun. Orðalagið rímar ágætlega við það sem fjallað er um í öðrum fræðigreinum.

Í fréttum síðustu daga hefur verið fjallað um útlending sem synjað var um íslenskan vegna þess að hann hefur verið sektaður fyrir of hraðan aksturríkisborgararétt. Þó hafði hann verið búsettur hér í ellefu ár, giftur hérlendri og á með hennibörn. Líklega myndum við segja að hann verði fyrir barðinu á fræðilegri lögfræði. Verkmaðurinn myndi hins vegar greina málið og þá kæmi í ljós að sektirnar fyrir of hraðan akstur eru ekki allar hans, þó hann eigi bílinn. En hvað koma hraðasektir málinu við ... er það ekki fræðileg nálgun?

Lög sem þvingunartæki?

Arnar Þór segir ennfremur (feitletrun og greinaskil eru mín því höfundurinn er óþarflega spar á þau):

Sem lögfræðingur vil ég vara við því að rætt sé um lög með þessum hætti. Lög geta ekki mælt fyrir um alla hluti. Lög eiga ekki heldur að freista þess. Slík viðleitni er til þess fallin að njörva veruleika okkar niður með of stífum viðmiðum og vega þannig ekki aðeins að frelsi okkar heldur einnig að persónulegri ábyrgð, sem er hin hliðin á frelsinu.

Ef við freistum þess að takmarka frelsið er einnig vegið að ábyrgðinni. Hvort tveggja er þó undirstaða daglegra ákvarðana, stjórnmála, löggjafar og dómstarfa.

Í þessu ljósi ættu þingmenn að fara varlega í að daðra við alræðishyggju þar sem löggjafinn ætlar sér um of og freistar þess að setja reglur um allt, bæði stórt og smátt.

Við skulum hafa hugfast að slík nálgun horfir fram hjá grundvallarstaðreynd um okkur mennina, þ.e. hversu alvarlega við getum misreiknað okkur og klúðrað málum. Lögin eru mannanna verk og þ.a.l. líkleg til að vera jafnmisheppnuð og höfundar þeirra. Með hliðsjón af öllu framangreindu tel ég mjög varhugavert að umgangast lögin með því hugarfari að þau séu þvingunartæki.

Þetta er vel orðað og skynsamlega að mínu mati. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki hægt að setja lög eða reglur yfir alla mannlega hegðan. Freistingin yrði kannski sú að láta tölvu dæma í málum því hún hefur ekki mannlegar tilfinningar og færi algjörlega eftir bókstafnum.

Traust

Í niðurlagi greinarinnar segir Arnar Þór og er ástæða til að lesa vandlega það sem hann segir enda fjallar hann hér um samfélagið í hnotskurn:

Frammi fyrir þessu er ekki að undra þótt meginviðfangsefni laga nú á tímum sé frelsið.

Hlutverk laganna er að setja frelsinu skorður þannig að menn misnoti það ekki öðrum til skaða. Rétturinn þarf að leita jafnvægis milli einstaklinga innbyrðis, milli launþega og vinnuveitenda, milli borgara og ríkisvalds.

Búa þarf svo um hnúta að menn virði hver annan og njóti virðingar, að lögin sem verja réttindi manna séu skýr og skiljanleg og að menn eigi aðgang að dómstólum.

Í stuttu máli er viðfangsefnið að skapa skilyrði til þess að fólk geti búið í frjálsu samfélagi. Í því felst ekki síst að menn svari sjálfir til ábyrgðar fyrir gerðir sínar.

Til að þetta megi takast verður löggjafinn að treysta almenningi og valdhöfum til að velja og hafna og forgangsraða.

Lögin eru þannig í reynd forsenda frelsis, því þau veita okkur vernd og fyrirsjáanleika, sem í daglegu tali eru oft nefnt réttaröryggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband