Mælifell, fjarskafallegt fjall en erfitt uppgöngu
7.6.2017 | 21:09
Ég stóð í miðri fjallshlíðinni, hrikalega móður, hallaði mér fram, studdist við göngustafina. Í grjótinu brakaði og brast. Hljóðið var eins og í óðum hundi sem hefur ekki gert það upp við sig hvort hann ætlar í mann eða ekki. Og vissulega virtist fjallshlíðin vera með lífi, hún hreyfðist greinilega, ekki bara hluti hennar heldur öll andsk... hlíðin. Sko, þetta var ekkert venjulegt grjót heldur stóreflis flögur, þykkar og þungar hellur, eflaust góðar í arinn eða á baðherbergisgólf en í langri fjallshlíð virtust þær hreinlega stórhættulegt.
Um leið og ég lyfti vinstri fæti (þeim sem var ofar) rann grjótið á þann hægri og þá virtist undirstaðan fyrir vinstri fótinn strax verða ótraustari. Ég fór fetið. Aftur brast en þetta hélt nokkur augnablik, nægilega lengi til að ég gat lyft þeim vinstri og sett hann feti framar og ofar. Með því að beita göngustöfunum af meiri list en ég taldi mig vera færan um hélt ég jafnvægi. Stundum steig ég á hellugrjót sem reis við það nær upp á rönd, staðnæmdist þannig eitt augnablik og féll því næst nokkuð þétt að hægri fætinum. Þetta gerðist oft eins og marblettirnir bera vitni um.
Þetta var alveg óþolandi staða og hún gat ekki annað en versnað. Ég leit til baka en leist ekkert á að snúa við. Ég myndi ábyggilega koma af stað skriðu ef ég reyndi það. Ég valhoppaði því áfram og reyndi að hækka mig með furðulegri lipurð en þokkinn var ekki mikill. Sem betur fer fylgdist enginn með mér nema Bárður Snæfellsás úr fjarska.
Andsk..., tautaði ég, og það ekki í fyrsta sinn á þessum síðasta hálftíma. Þetta var ábyggilega leiðinlegasta uppáferð í lífi mínu og var ég þó á leið á eitt fegursta fjall landsins. Þessi málsgrein kallar á heimspekilegar vangaveltur sem ég sleppi hér.
Oft er grínast með að eitthvað sé fjarskafagurt, og þá er átt við að fjarlægðin hafi villt um fyrir manni því þegar nær er komið og nánar er að gáð er ekki allt sem sýnist. Þannig er um margt sem verður fyrir manni á lífsleiðinni.
Nóg um það. Ég vaknaði síðasta sunnudag er sólin skein inn um gluggann hjá mér og hvíslaði svo blíðlega að nú þyrfti ég að ganga á Mælifell.
Hvaða Mælifell? spurði ég, og varð hugsað til fjalls í Skagafirði, annars á Snæfellsnesi og það þriðja á sandauðnum norðan Mýrdalsjökuls.
Næst vissi ég af mér á leið á Snæfellsnes.
Mælifell vestan við Fróðárheiði er einstaklega fagurt fjall ... tilsýndar. Engu líkar er en að einhver yfirnáttúrulegur kraftur hafi sett það niður á heiðarbrúnina. Það er gráleitt eða gulleitt, veltur á dagsbirtunni og sólarljósinu. Gjörsamlega gróðurlaust og ástæðan er afar einföld, það átti ég eftir að finna út í miðri vesturhlíð fjallsins. Á fjallinu er enginn jarðvegur, bara grjót.
Svona er nú Mælifell. Ég get ómögulega ... mælt með því. Upp komst ég fyrir einskæra heppni og meðan á bröltinu stóð gat ég ekki varist þeirri hugsun að verra yrði að komast niður.
Jæja, uppi var hávaðarok, stormur. Varla stætt. Mér til mikillar undrunar sá ég að þarna var gígur og í miðju hans dökkur gúll. Það passar. Fjallið er myndað úr líparíti sem var svo seigfljótandi að kvikan hlóðst upp yfir gosopinu, þetta er dekkri gerðin. Um þá ljósari hafði ég gengið upp hlíðar fjallsins.
Einn góðan veðurdag að áliðinni síðustu ísöld fór að gjósa þarna rétt fyrir ofan hamrabeltið. Þetta hefur ábyggilega verið hið snyrtilegasta gos, ekkert sull fyrir utan vettvanginn nema hugsanlega einhver aska sem nú er auðvitað hvergi sjáanleg því allt leitar fyrr eða síðar í jafnvægi. Gosinu lauk og þarna er Mælifell eins og aðskotahlutur fyrir ofan hamranna, einstaklega fagur aðskotahlutur.
Og útsýnið ... maður lifandi. Þvílíkt útsýni er af Mælifelli. Aldeilis stórfallegt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Auðvitað borgar sig að príla upp á fjallið, ég á við ef maður kemst lífs af. Annars er betra heima setið, held ég. Vandinn er bara sá að maður veit ekki fyrirfram hvenær komið er að síðustu fjallgöngunni.
Ekki staldraði ég lengi við uppi. Þar var bæði kalt og hvasst. Ferðin til baka gekk áfallalaust. Ég ákvað að fara beint niður þar sem hlíðin var sem styst, hætti við að skera hana eins og ég hafði gert á uppleið. Það var skynsamleg hugsun, aldrei þessu vant.
Eftir ferðina er mér oft hugsað til lyktarinnar. Sérkennilegs þefs sem myndast þegar líparíthellur falla á hverja aðra. Hann er ekki ólíkur púðurreyk sem oftar en ekki finnst á gamlaárskvöld. Hins vegar hef ég ekki fundið þennan þef á öðrum líparítfjöllum sem ég hef gengið á.
Myndirnar:
- Efsta myndin er tekin í hlíðinni. Hélt að mín síðasta stund væri runnin upp þegar ég smellti af. Er nærri því viss um að hljóðið í myndavélinni hefði komið af stað skriðu.
- Myndin er tekin við Búðir. Mælifell nýtur sín þarna.
- Útsýni til austurs. Ógnandi hvítur skýjabakkinn er til merkis um hvassa norðanáttina.
- Gígurinn upp og dökki gúllinn.
- Útsýni til vesturs, Snæfellsjökull í fjarska og nær er Fróðárheiði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.6.2017 kl. 08:48 | Facebook
Athugasemdir
Ég var ekki að skilja þetta í fyrstu. Hélt að þú værir að tala um Mælifellshnúk í Skagafirði, en lýsingin á uppgöngunni stóðst ekki nema þú hefðir farið einhverjar kórvillur vegar En svo kom að þetta var allt annað fjall og það á Snæfellsnesi, sem ég þekki ekki. En líparít fjöll eru almennt mun erfiðari uppgöngu en blágrýtis eins og við þekkjum.
Ég mun aldrei freista á uppáferð á þetta Mælifell svo er þér fyrir að þakka enda lýsir þú því sem þinni verstu uppáferð bæði fyrr og síðar og er þá væntanlega langt til jafnað.
En takk fyrir lýsinguna.
Jón Magnússon, 7.6.2017 kl. 22:48
Tarna er skemmtileg lýsing á gönguferð. Ekki kemur mér á óvart að skriðurnar hafi reynst "ófótvænar"! En mig langar að benda á að fjallið er AUSTAN við Fróðárheiði, þ.e. innar á nesinu, en ekki vestan við heiðina. En þetta er bara nöldur frá heimamanni! Göngulýsingin er það sem skiptir máli!
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 8.6.2017 kl. 18:32
Rétt hjá þér, Þorkell. Slæm villa, hugsunarleysi. En mikið ansi er Mælifell mér minnisstætt, gróðurleysið, hellugrjótið og allt umhverfið. Hreint magnað, stórkostlegt fjall.
Jón Magnússon, þú missir af miklu að fara ekki þarna upp en við því er ekkert að gera, uppgangan er helv... torleiði. Ég mun aldrei ganga aftur á Mælifell ... held ég ... kannski ... að minnsta kosti ekki næstu daga.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.6.2017 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.