Hvað verður um Móskarðshnúka, Þaralátursfjörð, Búrfell ...?
25.5.2017 | 17:22
Forráðamenn Flugfélag Íslands hafa slegist í lið með þeim sem vilja ekki kannast við menningu sína, sögu og uppruna. Hægt og bítandi er grafið undan öllu því sem gerir okkur að Íslendingum og sjálfstæðri þjóð.
Þetta segir Óli Björn Kárason, alþingismaður, á Facebook. Ég er ákaflega sammála honum. Með þessari endemis nafnabreytingu frá Flugfélag Íslands yfir í Air Iceland Connect finnst mér eiginlega nóg komið. Einhvern veginn virðist sem að fjölmargir í rekstri hér á landi telji íslenska tungu óhepplega í viðskiptum eða þá að þeir telji sig ekki ná góðum árangri nema heiti fyrirtækisins sé á ensku.
Skoðum þetta aðeins nánar.
- Nafnið Laugarvatn er dregið af heitu vatni sem þar kemur upp. Þar heitir Vígðalaug og er þekkt langt aftur í aldir. Skammt frá eru Líkasteinar er talið að lík Jóns biskups Arasonar og sona hans hafi verið lögð á og þvegin eftir aftöku þeirra í Skálholti árið 1550. Þetta kom ekki í veg fyrir að stofnað heilsulindar skammt frá Vígðulaug og fékk hún nafnið Fontana. Þjóðlegt.
- Veitingavagn var til skamms tíma í Skaftafelli þar sem náttúrufegurð Íslands er hvað stórkostlegust. Eigendum datt ekkert annað í hug en að reka hann undir nafninu Glacier Goodies ... Svona nafngift flokkast undir náttúruskemmdir.
- Í Vestmannaeyjum fengu tveir vinir þá snilldar hugmynd að byrja að brugga bjór. Fór þá af stað undirbúningur og lestur bóka um það hvernig besti væri að brugga góðan bjór. Og þeir fengu bræður sína með í verkefnið og saman datt þeim ekkert annað í hug en að kalla fyrirtækið The Brothers Brewery. Þetta er auðvitað tær snilld og svo ofboðslega fyndið eða hvað?
Á hinum reykvíska Laugavegi rembast verslunar- og veitingamenn við að vera sem frumlegastir til að ganga í augun á útlendum ferðamönnum. Þar kennir margra grasa ... Hér eru örfá leiðindi. Hefði ekki verið hægt að kalla þessi fyrirtæki íslenskum nöfnum?
- Public house, Gastropub
- Matwerk
- Quest -Hair, Beed & Wisky Saloon
- Extreem Logo Merkingar
- Le Bistro
- Dillon Whiskey bar
- Ravens (gjafavöruverslun)
- Myconceptstore
- Freebird (verslun)
- Zebra Cosmetique snyrtivöruverslun
- Rossopomodoro veitingstaður
Svo eru það stóru fyrirtækin vilja helst af öllu líkjast miklu stærri fyrirtækjum í útlöndum. Á ensku eru þau kölluð wannebe ..., sárlangarar. Enn hefur Eimskip ekki breytt um nafn né heldur Norðurál hvað þá Marel, Flugleiðir eða Flugfélagið. Úbbs ...
- Icelandair Group hf.
- Arion banki hf.
- Icelandic Group ehf.
- Primerea Travel Group hf.
- Isavia ohf.
- Iceland Seafood ehf.
- Wow air ehf.
- Veritas Capital ehf.
- Distia hf.
- Icelandic Palagic ehf.
- Invent Invest ehf.
- Advania ehf.
- Actavis ehf.
- Valitor Holding hf.
- Coca-Cola Eur.Partn. Ísland ehf.
- Paralogis ehf.
- Fisk-Seafood ehf.
- Iceland Travel ehf.
- Icepharma hf
- Vistor hf.
- Foodco hf.
- Creditinfo Group hf.
- Extreem Iceland ehf.
- Cintamani ehf.
- Ice-group ehf.
Ég hef víða farið. Tek eftir því að á Spáni eru þarlendir ekkert endilega að velta því fyrir sér hvort enskumælandi ferðafólk átti sig á tungunni þeirra. Ekki heldur í Grikklandi, Ítalíu, Þýskalandi og sannarlega ekki í Frakklandi. Og sem ferðamanni finnst mér það ekkert tiltökumál þó allt sé veitingahús, hótel og verslanir heiti á framandlegum málum.
Held það sé þannig hér á landi að ferðafólk reki upp stór augu þegar það sér allar þessar ensku nafngiftir á hótelum, veitingahúsum og verslunum. Þeim finnst þetta ábyggilega frekar broslegt, hjákátlegt, en hjálplegt.
Nú bíð bara eftir því að framtaksamt lið taki upp á því að þýða íslensk örnefni á ensku til að auðvelda sölu á íslenskri náttúru. hver veit nema einn góðan veðurdag skíði maður upp og niður Snowmountainglacier, veiði í Salmonriver in Mainvalley, sigli út í Flatisland, aki göngin undir Whalebay ...
Verst væri þó ef öllu yrði snúið á haus, engin góð þýðing verði til á ensku. Hvað yrði þá um Esju, Búrfell, Móskarðshnúka, Sauðárkrók, Botnsúlur, Helgafell, Faxaflóa og Þaralátursfjörð? Jú, góðmennin munu ábyggilega skipta bara um nafn.
Madam erlier known as Esja, Five Peaks erlier known as Botnsúlur, VolcanoGlacier, used to be known as Eyjafjallajökull ... Have a nice day and welcome back!
Um leið og við gefum eftir og látum sem engu skipti þó fyrirtæki heiti erlendum nöfnum er þess skammt að bíða að virðingin fyrir tungumálinu dvíni enn frekar. Lítum bara um tuttugu eða þrjátíu ár til baka. Á síðustu áratugum hafa orðið kynslóðaskipti í íslenskum fyrirtækjum og alþjóðavæðingin er orðin slík að hún er gjörsamlega misskilin og það bitnar á íslenskri tungu. Okkur á eftir að hefnast fyrir kæruleysið. You just wait and see ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sting upp á að alkunnugt lögsagnarumdæmi á suðurlandi fái nafnið: Wrong River County.
Jóhann Zoega (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 17:34
Góður, ég hló upphátt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2017 kl. 18:07
Svo sannarlega er þetta hallærislegt, ì raun sorglegt. Gòđur pistill
gudlaug hestnes (IP-tala skráð) 27.5.2017 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.