Sómasamleg virðing

Maður nokkur er sterklega grunaður um að hafa orðið öðrum að bana og situr í fangelsi. Öll þjóðin hefur fylgst með rannsókn málsins og syrgir sárt unga stúlku sem átti framtíðina fyrir sér.

Skiljanlega hugsa margir hinum grunaða þegjandi þörfina en sem betur fer taka borgararnir ekki tekið lögin í sínar hendur og hefna sín á manninum. Hefndin er nefnilega ríkisins og hún byggist á ítarlegri rannsókn málavaxta og dómi samkvæmt lögum. Annað er auðvitað ótækt. 

Í fréttum hefur komið fram að fangar í einu af fangelsum landsins ætli hugsanlega að gera þeim grunaða mein þegar hann kemur þar hinn fyrir dyr. Aðrir hvetja til þess að honum sé sýnd virðing.

Virðing, hrópa þá margir í vandlætingu sinni. Myrti hann ekki unga stúlku með köldu blóði. Hann á ekki neina virðingu skilda.

Hér er um að ræða mikinn misskilning. Virðing er nefnilega skrýtið fyrirbrigði sem á alla rót sína í hverjum og einum, þetta er það sem stundum er nefnt sómi en margir hafa misst sjónar af honum í æðibunugangi hefndarhyggju sem gleggst má sjá í bíómyndum og langdregnum sjónvarpsmyndaflokkum. Í þykistulandinu er hefndin ljúf en í raunveruleikanum er hún sár enda segir í fornu orðtaki að aðeins skamma stund verður hönd höggi fegin.

Sá sem finnur hjá sér hvöt til að hrakyrða einhvern eða jafnvel meiða þá er það honum sjaldnast til mikils vegsauka, síður en svo. Má vera að slíkt tíðkist í skáldsögum og bíómyndum en auðvitað verður fólk að gera sér grein fyrir því hvenær skáldskapnum sleppir og raunveruleikinn tekur við.

Það fer ekki endilega saman að bera virðingu fyrir einhverjum og líka við þann hinn sama, kunna að meta hann. Ég viðurkenni hins vegar að stundum er erfitt að fara eftir þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband