Stórkostleg mynd af hrikalegu landi

Norðan VatnajökulsHér er ein hrikalegasta mynd sem ég hef séð. Auðvitað er hún af einu afskekktasta svæði landsins, norðan Vatnajökuls og sunnan Öskju.

Tók myndina leyfislaust af Facbook-síðu Eldfjalla- og jarðvárhóps Háskóla Íslands. Vonandi er mér fyrirgefið. Bætti inn á hana helstu örnefnum.

Takið eftir þessum hrikalegu „götum“ í landslaginu, Trölladyngju og gígnum á Urðarhálsi. Sannarlega tröllslegt og ógnandi. Sólin að segjast í norðvestri og varpar löngum skuggum á landslagið. 

Eitt sinn var vorum við þrjú á ferð þarna með yngri syni mínum, þá fjögurra ár. Kvöldsett var og við þau fullorðnu vorum eðlilega að tala um eldgos, hraun og óáran sem fylgir. Tók ég þá allt í einu eftir því að litli drengurinn minn var kominn úr aftursætinu og niður á gólf í bílnum þar sem hann lá í hnipri. Hann hafði einfaldlega skelfst við þetta tal okkar og hélt að á öllu væri von.

Auðvitað stoppaði ég bílinn, tók hann í fangið og útskýrði fyrir honum það sem um hafði verið að ræða. Hann sagðist bara hafa viljað lenda í neinu eldgosi og taldi sig öruggari á gólfinu en í sætinu ...

Núna um tuttugu og einu ári síðar sýnist mér að hann hafi ekki borið varanlega skaða af þessu atviki. Held að hann muni ekki einu sinni eftir því. Þori varla að spyrja.

Til gaman má geta þess að við ókum ekki lengra þetta kvöld og sváfum í pallhúsinu um nóttina. Nítján árum síðar rann Holuhraun yfir þennan stað. Dálítið sérstakt miðað við söguna hér á undan.

Myndin kallast í daglegu tali loftmynd. Það minnir mig á að einn vinur minn sem rak verslun með ljós og rafvörur mátti ekki auglýsa „loftljós“ (ljós sem hanga í lofti húsa) í Ríkisútvarpinu eina og sanna. Gáfumenn þar héldu því fram að slík ljós væru einfaldlega ekki til. Nokkuð til í því. Held samt að þetta sé loftmynd nema því aðeins og hún sé ekki til ... Þá myndi nú sannarlega kvikna á perunni hjá mér.wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, það er mikið af allskonar á þessari mynd. Þannig er landið okkar. Sumt er myndað undir jökli, annað ekki. Sumt er enn undir jökli.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.4.2017 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband