Fjórir hafa fallið af Grímsfjalli og í Grímsvötn
27.1.2017 | 17:00
Nú bætist við í þann hóp sem fallið hafa fram af Svíahnúk hinum eystri og ofan í Grímsvötn. Þeir eru nú orðnir fjórir.
Fyrstur gekk þar fram af Leifur Jónsson, læknir og kunningi minn úr Útivist. Þeir voru fjórir á ferð á gönguskíðum norður Vatnajökul og áðu í skálanum á Grímsfjalli.
Daginn sem þeir lögðu af stað var blindbylur á fjallinu en engu að síður héldu þeir áfram, vitandi að bylurinn væri bara á fjallinu, neðar væri bjart. Einhvern veginn atvikaðist það svo að Leifur og Magnús Hallgrímsson, félagi hans beygja lítilsháttar til vinstri í upphafi, þrátt fyrir að hafa áttavitastefnu austur af fjallinu.
Skyndilega missti Leifur jarðtengingu og féll, heillengi, að því að hann sagði síðar. Lenti einu sinni á bakinu og þá bjargaði bakpokinn honum og síðan í snjó undir hömrunum. Magnús var nærri því farinn á eftir honum og stóð heillengi á brúninni án þess að sjá hvað orðið hefði af Leifi. Eftir nokkurn tíma áttaði hann sig á því hvar hann var og þá tók við mikill barningur að finna Leif og koma honum upp. Leifur var nær óskaddaður og hefur stundum sagt frá þessu ævintýri í góðra vina hópi. Fallið var um sjötíu metrar ef ekki meira.
Þetta var þó ekkert miðað við raunir jarðfræðingsins Bryndísar Brandsdóttur sem ók í svipuðu veðri sömu leið fram af fjallinu, féll 200 metra, og hafði það af án þess að slasast mikið. Kraftaverk bjargaði henni og ferðafélaga hennar.
Í þriðja sinn hefur maður fallið fram af Grímsfjalli og vonandi er hann óslasaður.
Grímsvötn eru heillandi staður þegar gott er veður. Í fyrsta sinn er ég kom þangað var bjart og fallegt. Náði að ganga með félögum mínum vestur eftir endilöngu fjallinu og niður á vötnin, undir því og aftur upp austast. Þetta var gríðarlega löng leið en virtist í upphafi vera svo ósköp lítil og stutt.
Allt í Grímsvötnum vekur ógn. Stærðin, auðnin, víðáttan og saga eldgosa. Samt er óskaplega gaman að koma þangað en eins og oft er sagt, mjög gott að komast í burtu. Ekki er á það bætandi að ég er gríðarlega hræddur við jökulsprungur, sem er ekki gott fyrir fjallamann sem fer víða um á gönguskíðum.
Efri myndin er tekin vestarlega á Grímsfjalli, Grímsvötn hægra megin.
Neðri myndin er tekin á Grímsvötnum, ísilögðum eða öllu heldur snævi þöktum. Horft er upp í hamrastálið nokkuð vestan við þann stað sem líklegt er að ferðamaðurinn hafi fallið.
Gekk fram af og féll 150 metra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þegar ég frétti af fyrirætlunum þessa Ítala að ganga yfir Vatnajökul þá var ég eiginlega alveg viss um að hann ætti eftir að koma sér vandræði sem þyrfti að bjarga honum úr. Fannst hann vera svo þess legur. Mér datt þó ekki í hug að það gerðist með þessum hætti. En gott að hann slapp lifandi sem og aðrir sem hafa húrrað þarna niður. Spurning hvernig þessum Ítala á síðan eftir að reyða af í hylki á ísjaka mánuðum saman, eins og hann hefur stefnt á að gera.
Emil Hannes Valgeirsson, 27.1.2017 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.