Hættu að væla, Páll Magnússon, farðu að vinna

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er óhress með að formaður flokksins hafi ekki gert hann að ráðherra. Páll hefur margt til síns máls. Hann er í fyrsta sæti listans í Suðurkjördæmi og þar vann flokkurinn mikinn sigur. Fjórir menn náðu kjöri og skammt var í þann fimmta.

Frábær árangur flokksins skrifast þó ekki allur tekjumegin hjá Páli einum. Fleiri en hann unnu að þessum sigri, ekki aðeins þeir sem eru á lista Sjálfstæðisflokksins heldur lögðu margir aðrir lögðu sitt lóð á vogarskálarnar. Gleymum því ekki að sigur í kosningum byggist ekki á einhverjum einleik heldur á sameiginlegum krafti flokksmanna.

Skiljanlegt er að Páll tjái einu sinni eða tvisvar vonbrigði sín. Í þriðja og fjórða sinn virkar þetta tal eins og biluð plata. Þegar síbyljan tekur við gerist maður þreyttur á Páli, hann tapar öllum trúverðugleika. Hann er reiður, sár og lætur pirringinn í ljós við öll tækifæri. Þá er eiginlega nóg komið. Allt hefur sín takmörk.

Nú er brýnast fyrir Pál að hætta þessu væli, fara að vinna vinnuna sína á Alþingi, setja sig vel inn í öll mál sem hann kemst yfir og sýna það og sanna að hann er þess verður að vera í forystusæti í Suðurkjördæmi.

Svo er það hitt. Formaður flokks á að geta valið þá menn til að sinna ráðherrasstörfum sem honum sýnist. Sá sem situr í fyrsta sæti á lista flokks í kjördæmi er ekki alltaf sá besti til að sinna ráðherraembætti. Hann er ekki einu sinni kjörinn til að vera ráðherraefni. 

Fyrsta sætið í kjördæmi gefur ekki veð í ráðherrastól.

Ef formaður flokks getur ekki valið þá í ríkisstjórn sem hann telur henta best þá er illt í efni. Þetta er eins og þjálfarinn sem þarf að velja byrjunarliðið í fótboltaleik. Hann getur ekki valið ellefu sóknarmenn í liðið hvað þá ellefu markmenn. Sumum hentar einfaldlega að leika í ákveðnum stöðum.

Sama er með ráðherraembætti. Ekki hafa allir getu til að stjórna ráðuneyti.

Í mastersritgerð sinni skrifaði Ása Möller, fyrrverandi þingmaður, eitthvað á þessa leið: Þegar þingmaður gengur í fyrsta sinn inn í ráðuneyti sitt gerist annað af tvennu, hann tekur stjórnina og sinnir sínum pólitísku störfum eða ráðuneytið „gleypir“ hann og stýrir honum í þeirri pólitík sem ráðuneytið vill.

Fjöldi dæma eru um ráðherra sem einfaldlega hafa orðið dyggir fjölmiðlafulltrúar ráðuneytis síns. Ekkert annað.

Vissulega átti Suðurkjördæmi það skilið að fá ráðherra. Það gerðist hins vegar ekki. Málinu er því lokið.


mbl.is Páll segir Bjarna hafa gert mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Nei ég skil Pál, Sigurður.  Hann er hæfur og hann er svekktur.  Svo er ég ekki viss um að formaður flokks ætti endilega að hafa það vald að velja menn frekar en staða manna í listum í lýðræðislegum kosningum, eins og voru.

Elle_, 14.1.2017 kl. 17:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þarna vegast á tvö sjónarmið, Elle. Ég hallast að því að formaður stjórni enda verða ekki fleiri ráðherrarstöður en flokkurinn fær úthlutað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.1.2017 kl. 17:37

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

En til hvers í andskotanum er þá verið að teyma okkur til að kjósa ef ekkert á svo að gera með niðurstöðuna?

Hrólfur Þ Hraundal, 15.1.2017 kl. 10:17

4 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Kerlingavæðing Alþingis á ekki að eiga sér stað, það eru kjósendur sem eiga að ráða hverja þeir vilja, þar af leiðandi eiga oddvitar að fá ráðherrastóla en ekki einhver kerling í þriðja eða áttunda sæti listans.

Það eru margir sem að vilja persónukjör, það mundi aldrei ganga upp með hugsunahætti Sigurðar.

Prófkjör er það næsta sem að íslenskur kjósandi kemst að persónukjöri í dag, en þegar kerlingarnar fá ekki meira fylgi en raun er á, þa ættlar allt að verða vitlaust og kerlingarnar eru færðar upp á listanum og þar með er val kjósendans eyðilagt.

Það er eitthvað stórkostlegt að þessu kerfi, sem sjallarnir eru að gera, hreinlega svíkja kjósendur flokksins.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 15.1.2017 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband