Bjarni, geturðu opnað fyrir ræstingarfólkinu?

Ný ríkisstjórn hefur tekið við ... já, völdum á Íslandi. Um leið er sagt í fjölmiðlum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi fengið „lyklavöld“ í sínum ráðuneytum. Þetta orð er svo endurtekið í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum, líklega vegna þess að fráfarandi ráðherra afhendir þeim nýja lykil að húsinu.

Orðið „lyklavald“ er svo sem ágætis orð. Einnig má tala um „húsbóndavald“ nema auðvitað í því tilfelli að kona sé ráðherra. Þá er þetta orðið dálítið spaugilegt að kona sé ráðherra og fari með húsbóndavald. Þannig er nú svo margt karlkennt í málinu.

„Lyklavald“ í eintölu eða fleirtölu er samt skrýtið orð og varla lýsandi yfir starf ráðherra. Eðli máls samkvæmt eru fleiri en ráðherrar með lykil að húsnæði ráðuneytis og sannarlega eru það völd í sjálfu sér að geta opnað læstar dyr og skellt í lás á eftir sér.

Hins vegar kann það að vera að enginn annar en húsvörður hafi lyklavöldin í ráðuneyti og opni það að morgni og loki þegar dagur er að kvöldin kominn. Ég sé nú ekki alveg fyrir mér að ráðherrann sé kallaður til þessara verka í upphafi og lok vinnudags eða á öðrum tímum þar fyrir utan.

„Sæll Bjarni, þetta er Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri. Ræstingafólkið er komið. Gætir þú opnað fyrir því og læst svo á eftir þeim þegar það er búið að þrífa? Þú ert nú með lyklavöldin.“

Nei, „lyklavöldunum“ fylgja auðvitað engin völd. Lyklarnir eru bara lyklar, ekki slíkir sem maður sér í bíómyndunum sem forsetar eða hershöfðingjar fá í hendur til að ræsa gjöreyðingarvígtól. Það kallast nú alvöru lyklavöld.

Hér heima eru þetta bara lyklar. Þeim fylgja engin völd umfram það sem við hin höfum með okkar lyklum, að opna og loka húsakynnum okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband