Styrkur ríkis og þjóðfélags með orðum forsetans

Fáni í Básum

Það er nefnilega þannig að styrkur ríkis og þjóðfélags er ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Og þótt við fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta eru þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu.

Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd. Í samanburði við mörg önnur ríki og okkar eigin fortíð megum við vel við una. En við getum ætíð gert enn betur.

Þetta sagði forseti lýðveldisins í fyrsta áramótaávarpi sínu þann 1. janúar 2017. Undir það geta flestir tekið hvar í flokki sem þeir standa. Vonandi verður þessi hugsjón rituð framarlega í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem Bjarni Benediktsson er að mynda með Viðreisn og Bjartri framtíð.

Myndin er tekin í Básum á Goðalandi og er horft yfir á Tindafjöll í Þórsmörk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband