Það má ekki pissa bakvið hurð ...
31.12.2016 | 17:38
Það má ekki pissa bakvið hurð
og ekki henda grjóti oní skurð
ekki fara í bæinn
og kaupa popp og tyggjó
og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó
Uppeldi okkar er svo ráðandi þáttur í skapgerð flestra að sumir geta hreinlega ekki hætti því að ala mann upp. Þar með verður svo margt til sem er bannað, rétt fram kemur í snjöllu ljóði eftir Sveinbjörn Baldvinsson Lagið um það sem er bannað. Flestir þekkja fyrsta erindið.
Svona löngun til að ala mann upp brýst einna helst fram í því að maður má helst ekki hafa aðra skoðun en þá sem uppeldisfræðingarnir telja viðtekna.
Ef til vill er það í tilefni áramótanna að mér flugu í hug það sem ekki má nefna. Viðurlögin við slíku eru oft harkaleg.
Sigmundur
Ekki er gott að sitja í potti og skjóta því inn í þrjátíu og fimm gráðu heitar umræðurnar að svo virtist sem að Sigmundur Davíð hafi lent í fyrirsát í Kastljósinu síðasta vetur. Augnabliksbroti kólnar niður fyrir frostmark í pottinum, tíu andlit snúast á hálsliðu, augu sem áður voru hálflukt verða galopin, hakan fellur með skvettu niður á bringu og kólnandi soðið af fólkinu tekur að sullast inn. Mér fannst þetta svona eins og í Zombie-mynd þegar óværurnar finna lykt af fersku blóði.
Hér skipta rök engu máli, það má ekki taka afstöðu sem túlka má sem stuðning við Sigmundi Davíð. Hér gildir ein og sönn ríkisskoðun, svo vitnað sé til Marteins Ladda Mosfells, og það er sú sem Ríkissjónvarpið hefur opinberað. Ég hrökklaðist virðulega upp úr pottinum og fór í annan fámennari.
Jamm og já ...
Ekki misskilja mig, ég hef mikið álit á björgunarsveitum landsins en ... hver segir að þær megi að einoka skoteldamarkaðinn. Ég er bara á móti einokun, hvaða nafni sem hún nefnist og hver svo sem tilgangurinn er. Í þokkabót finnst mér að þeir sem stuðla að mengun í landinu eiga að hugsa sinn gang. Svo er það álitamál hvort að skothríð um áramót sé ekki bara úreltur siður. Miklu gáfulegra væri að fólk fari bara út á svalir eða út í garð og tæki lagið, með eða án undirleiks.
Þetta lét ég út úr mér í strætó um daginn, var á leiðinni niður á Lækjartorg. Heldur lá mér hár rómur og heyrðu aðrir farþegar orð mín og bílstjórinn líka. Þetta var allt í lagi, ég komst gangandi niður á Torg á sjö mínútum.
Nema hvað ...?
Fyrir mörgum árum spurði einhver fjölmiðillinn þáverandi fjármálaráðherra að því hvers konar konum hann líkaði best við. Frekar undarlegt að leggja svona spurningu fyrir ráðherrann en hann svaraði því á þá leið að hann legði nú aldrei dóm á fólk fyrr en hann hefði náð að spjalla við það. Þetta þótti mér gáfulegt svar og hljóma sennilega.
Góður vinur minn sem ég þekki hvorki haus né sporð á hneykslaðist á svarinu og óumbeðinn sagðist honum líka best við konur með stór brjóst. Því miður heyrði konan hans þessi orð og var hún ekki eðlilega ekki sátt. Maðurinn fékk fulla sjón á vinstra auga eftir sex vikur og nokkru síðar skildu þau í kjölfarið.
Það er nú það ...
Eitt sinn var ég í ónefndu bæjarfélagi við austanverðan Miðfjörð og var á leið með öðrum manni niður stigagang. Á miðri leið mættum við konu nokkurri sem heilsar hressilega þeim sem með mér gekk. Hún spyr hann hvers konar djö... fífl þessi Davíð Oddsson væri en sá ágæti maður hafði verið skömmu áður í útvarpsfréttum. Hann svaraði nú frekar fáu, þekkti greinilega konuna, og vildi ekki gera henni það til geðs að ræða mikið um forsætisráðherrann. Þar með snéri hún sér að mér og spurði sömu spurningar. Oftast er ég frekar bóngóður, stundum ræðinn en ávallt heiðarlegur í tali. Þess vegna svara ég á þá leið að mér finnist Davíð Oddsson vera drengur góður, ég hafi lesið mikið eftir hann og hlustað á fundum og kann fátt illt um manninn að segja.
Þarna var ég næst því staddur að lenda í álíka stöðu sem Eyjólfur Þórðarson var í er Auður Vésteinsdóttir barði hann á nasirnar með fésjóðnum eins og segir í Gísla sögu Súrssonar. Það er að segja að ég hélt að konan ætlaði að berja mig fyrir að láta ekki eitthvurt ill orð hrjóta um Davíð Oddsson. Félagi minn varð mér til bjargar og dró mig niður tröppurnar en konan argaði óyrði um mig og Davíð og heyrðist í henni löngu eftir að ég ók burtu úr bænum.
Þarna hef ég líklega lent í mestri lífshættu á ævin minni. Hef þó hrapað í jökulsprungu, villst á Vatnajökli, lent í óviðri á Emstrum, vaðið Hvanná í leysingum og farið á fund hjá Steingrími J. Sigfússyni, svo einhverjar hrakningar séu nefndar.
Sigurður minn, sagði sá sem barg mér: Þú þarft ekki alltaf að svara með ræðu. Síðan hef ég passað mig.
Þetta var nú bara hamrað á lyklaborðið til að drepa tímann. Er að fara í matarboð til sonar míns og tengdadóttur þar sem fleira gott fólk bíður. Þar verður líklega horft á leik í enska boltanum sem hefst eftir nokkrar mínútur. Vonast til að Manchester City mali Liverpool, það árans montlið.
Enn og aftur óska ég lesanda mínum gleðilegst árs og að næsta ár verði miklu, miklu betra.
Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.
Það er nebbnilega það ...
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr spariskúffunni. Teknar á Vífilsfelli og nágrenni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2017 kl. 12:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.