Enn er ekkert nýtt undir sólinni ...

Fréttir eru ekki bara fréttir heldur eru þær fréttir. Svona „steypu“ má auðvitað túlka á margan máta. Þó er það pottþétta að sá sem einu sinni hefur verið blaðamaður verður það alla tíð. Þetta á ábyggilega við um mig.

Ekki veit ég hvort ég hafi verið góður blaðamaður en ég starfaði í nokkur ár sem slíkur og forframaðist svo mikið að loks varð ég ritstjóri (auðvitað á eigin blaði. Hvað annað?)

Fyrir nokkru var nokkuð rætt um grafíska hönnuði, þá sem einu sinni voru bara kallaði teiknarar. Einum slíkum varð það á að teikna bókarkápu sem líktist einhverju plakati úti í hinum stóra heimi. Mörgum mislíkaði.

Þá fór ég að hugsa (gerist ekki oft) og minntist þess að áður en tölvur og internetið kom til skrifaði ég grein í síðdegisblað sem ég vann á og hét það Vísir. Fyrirsögnin greinarinnar „Ekkert er nýtt undir sólinni“. Held að hún eigi enn erindi þó nú séu 38 ár síðan hún var skrifuð.

Hér er greinin og kjarni hennar er að við eigum að fara varlega með ásakanir:

Það er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni, sagan endurtaki sig alltaf. Fyrir nokkru var haldin sýning í Norræna húsinu og meðal sýnenda þar var Ernst Bachman teiknari. Hann sýndi gamlar tillögur sinar að merki fyrir Flugleiðir. Sú furðulega tilviljun blasir þá við að merki Ernst og það merki, sem Flugleiðir hafa ákveðið að gera að sínu eru svo til alveg eins. Hvernig má slíkt vera? Getur það verið að ameríska fyrirtækið sem hannaði Flugleiðamerkið hafi haft vitneskju um merki Ernst og apað eftir því? Án þess hafa neitt fyrir sér í þessu máli skál það þó dregið í efa.

Það er ekkert nýtt undir sólinni. Vísir birti fyrr á þessu ári mynd af merki fóðurvörufyrirtækis eins og Suður-Afríku, sem er svo til alveg eins og Flugleiðamerkið núverandi og mjög svipað merki Ernst Bachmans.

Það er mjög erfitt að hanna merki. Teiknarinn verður að hafa það í huga að merkið líkist ekki neinu öðru merki. Það verður að falla að starfsemi þeirri sem það á að standa fyrir og síðast en ekki síst verður það að vera grípandi, vekja athygli fólks.

Til þess að komast að því hvort merki líkist einhverju öðru getur teiknarinn flett upp í uppsláttarbók um merki. Þar getur hann fundið merki fyrir flestar atvinnugreinar og vörutegundir sem teiknuð hafa verið.

Teiknarinn getur líka með því að fletta upp í uppsláttarbók sparað sér mikla vinnu og vangaveltur. Hann velur bara eitt merkið og breytir því smávegis og hirðir síðan launin, en að teikna merki kostar fleiri hundruð þúsunda króna.

Nei, það getur varla verið að teiknarar beiti slíkum aðferðum. Það myndi fljótlega draga úr aðsókninni, spyrjist þetta út.

Blaðamaður fletti upp í nokkrum uppsláttarbókum og fann mörg merki sem líktust íslenskum merkjum.Það er þó langt frá því að verið sé að hala því fram að hugmyndirnar séu stolnar. Það er ekkert nýtt undir sólinni og sagan hefur fyrir löngu kennt okkur að hugsanir manna beinast inn á mjög svipaðar brautir hjá hverjum og einstökum.

Í þeirri von að íslenskir teiknarar misvirði það ekki, þá birtum við hér nokkur merki og tvíbura þeirra erlendis og á það að sýna, að þrátt fyrir að milljónir kílómetra skilji teiknara að og ekkert samband sé á milli, þá getaniðurstöður þeirra orðið svipaðar.

Þetta var heilsíðu umfjöllun og hér er mynd af síðunni. Hægt er að stækka hana með músarsmelli.

Merki

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband