Starfsstjórnin liðin og minnihlutastjórn er tekin við

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar tók við völdum í maí 2013. Í síðustu kosningum fjölgaði þingmönnum sjálfstæðisflokksins um tvo en Framsókn tapaði ellefu þingmönnum og er nú aðeins með átta. Þar af leiðir að ríkisstjórnin féll, vantar þrjá þingmenn til að ná meirihluta.

Frá kjördegi og fram að þingsetningu, þann 6. desember, var hin fallna ríkisstjórn við völd og nefndist að forminu til starfsstjórn. Engin lög gilda um slíka stjórn en samkvæmt hefðinni leyfist henni ekki að vinna að stórpólitískum málum nema hafa til þess meirihlutastuðning, að minnsta kosti loforð þingmanna fyrir honum. Þetta er þó ekki óumdeilt. Sumir segja að starfsstjórn geti gert allt það sem hún vill svo fremi sem þingið samþykki. Aðrir segja að eina verkefni starfsstjórnar sé daglegur rekstur og fjárlög.

Nú hefur þingið komið saman og við það hefur ýmislegt breyst. Engin ríkisstjórn hefur verið mynduð eins og venjan er að gert sé frá kosningum og fram að þingsetningu. Þar með hefur tími starfsstjórnar liðið og nú situr minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.

Minnihlutastjórn getur gert það sem hún vill, en ... verður, að sjálfsögðu, að hafa meirihlutastuðning löggjafarþingsins fyrir lögum og öðrum verkum sem byggjast á lögum.

Víkur nú sögunni að forseta Íslands. Hann ætti að vera þess meðvitaður að nú situr minnihlutastjórn sem að vísu hefur ekki beinlínis meirihlutastuðning á þingi en að minnsta kosti hefur þingið ekki lagst gegn henni, hvorki málefnum hennar né tilvist hennar að öðru leyti.

Þar með hlýtur forsetinn að draga úr þrýstingi sínum á þingið um að mynduð verði meirihlutastjórn þar sem minnihlutastjórn stendur við stýrið á þjóðarskútunni.

Á sama hátt geta formenn stjórnmálaflokkanna og þingmenn tekið hlutunum rólega, einbeitt sér að fjárlagafrumvarpinu, afgreitt það fyrir jól og farið svo í jólafrí eins og venjan er. Þing kemur síðan væntanlega saman um upp úr miðjum janúar. Í millitíðinni, ef forustumenn í pólitík nenna, geta þeir reynt að spjalla saman yfir hátíðarnar.

Hins vegar er nú starfandi minnihlutastjórn með hendur á öllum þeim pólitísku stjórntækjum sem hún þarf á að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband