Píratískt bull og tal út í bláinn
3.12.2016 | 23:09
Í dag höfum við aðallega bara verið að fara yfir verkferla og reyna að finna út hvernig væri best og ákjósanlegt að vinna áfram þá vinnu sem var komin af stað og komin langt á veg með, sagði Smári í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir að málefnalega sé ekki langt á milli flokkanna þó þeir séu vissulega ólíkir og með ólíkar áherslur.
En það er mikill vilji til þess að ná saman og ég vona að allir flokkarnir leggi sitt af mörkum við að miðla málum og komast að góðri niðurstöðu.
Afsakið orðbragði, en þetta er bara bull, tal út í bláinn, hjá talsmanni Pírata, Smára McCarthy. Svona orðalag er ekki þingmanni sæmandi. Annað hvort er hann að drepa málinu á dreif eða hann segir hreinlega ósatt. Þetta segir hann í viðtali við visir.is, sja hér.
Hvað þýðir eiginlega að fara yfir verkferla?
Svarið er einfaldlega: Ekkert. Verkferlar eru ekki til í þessu samhengi. Það sem skiptir máli er að menn tali saman um málefni. Það hefur verið margoft reynt. Aungvir verkferlar redda hér málum, skófla er nánast hið sama og reka.
Og blaðamaður visir.is gapir bara yfir orðalaginu og spyr einskis. Hvað hefur orðið um sjálfstæða og gagnrýna hugsun blaðamanna?
Píratinn spyr:
Viltu mynda með okkur fimm flokka ríkisstjórn.
Nei, takk, en bestu þakkir fyrir að spyrja.
Svo fer Píratinn afsíðis, hugsar málið og finnur upp betri verkferla. Þá spyr hann aftur:
Hvernig væri nú að við mynduðum saman þjóðhagslega hagkvæma ríkisstjórn sem hefði það að markmiði að duga þjóðinni afar vel, skattleggja almenning, ríka fólkið og sjávarútveginn svo duglega svo við hefðum efni á góðri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi? Ha, hvað segirðu um það?
Jú, auðvitað, fyrst að verkferillinn er svona skýrt orðaður þá erum við alveg tilbúnir.
Tekið skal fram að ofangreint svar fæst ekki frá Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum vegna þess að þeir eru holdsveikir að mati Pírata.
Svo á eftir að tækla þetta með ólíka flokka og ólíkar áherslur. Þeir bitar kunna að standa þversum í hálsi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fíflagangurinn ríður ekki við einteyming hjá þessu giftusnauða fólki. Það er búið að ræða saman dögum saman um stjórnarmyndun. Var þá notazt við handónýta verkferla ? Vandamálið við þetta fólk er, að það kann ekki að vinna. Þess vegna er alveg af og frá, að stjórnun geti farizt því vel úr hendi. Þjóðinni er boðið upp á skrípaleik, og hún er alls ekki í skapi fyrir skrípaleik með fjöregg sitt.
Bjarni Jónsson, 4.12.2016 kl. 11:04
"Holdsveikir" já sama og Panamaveikir. Flokkar sem ekki hafa tekið á eigin meinum
thin (IP-tala skráð) 4.12.2016 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.