Ríkisstjórn um það sem er mikilvægast

Óli Björn KárasonSvo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Svona orðar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoðun sína sem raunar er stefna flokksins, og er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég og tugþúsundir annarra kjósum hann. Þetta er að finna í grein Óla Björns í Morgunblaði dagsins, hófsöm, fallega orðuð og einlæg.

Þó er skammt er í varnaðarorðin:

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Þetta er eiginlega það sem maður fær stundum á tilfinninguna, að hinn pólitíski tilgangur sé ekki sá að vinna landi og þjóð sem best heldur að sundra og jafnvel að bylta því sem áunnist hefur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef verkefni nýrrar ríkisstjórnar hverju sinni sé að umbylta öllu, draga til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert og svo framvegis, leggja ofurskatta á einstaklinga og fyrirtæki svo dæmi sé tekið. 

Óli Björn er ekki sammála þessu. Hann hvetur til þess að stjórnmálaflokkarnir leiti að málum sem sameina, skipta þjóðina mestu.

Hann leggst gegn skattahækkunum, telur að það skerði samkeppnisaðstöðu þjóðarinnar ef skattar séu hærri hér en í nágrannalöndunum, það muni einfaldlega valda því að okkur muni ganga erfiðlega að fá vel menntað fólk heim aftur ef það fær miklu hærri laun í öðrum löndum.

Í niðurlagi greinarinnar bendir hann á mikilvægt atriði:

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í meginatriðum hljóta allir að vera sammála því sem Óli Björn Kárason segir í greininni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband