Lúpínan, gleðigjafi fyrir menn og mófugla
18.11.2016 | 11:04
Þeir fuglar eru nefndir mófuglar sem verpa í móum og mýrum. Nefna má lóu, spóa, stelk, sendling, kjóa, rjúpu, hrossaguk og fleiri tegundir.
Auðvitað kunna fuglar ekki að tjá sig en með rannsóknum hefur verið hægt að finna út hvaða kröfur þessir fuglar gera til umhverfisins. Til dæmis hefur komið fram að þeir kjósa frekar að gera hreiður sín í lúpínubreiðum en víðast hvar annars staðar.
Í grein í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences er grein sem nefnist Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson er að finna forvitnilega rannsókn um mófugla.
Á vef Skógrætarinnar segir um rannsóknina:
Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman:
- Óuppgrædd svæði,
- Endurheimt mólendi og
- Land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu.
Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.
Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.
Ég hef lengi dáðst að lúpínu og þá sérstaklega hversu hratt hún breiðist út, jafnvel á örfoka landi. Hún er algjör gleðigjafi fyrir augð þegar hún blómstrar. Þetta er nú samt einungis það sé sjá má með berum augum. Gagnsemi lúpínunnar er ekki síður fólgin í því að hún vinnur köfnunarefni úr andrúmsloftinu og skilar því í jarðveginn, öðrum jurtum til gagns.
Köfnunarefni (nitur) skortir stórlega í íslenskum jarðvegi en fáist það verður gjörbreyting á. Skógrækt er tilvalin í svæðum þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Það hefur til dæmis gerst á stórkostlegan hátt í Bæjarstaðaskógi við Mórsárdal og víðar.
Sumir sjá ofsjónum yfir framgangi lúpínunnar, meðal annars fyrrum umhverfisráðherra Vinstri grænna sem fyrirskipaði upprætingu hennar með öllum tiltækum ráðum meðal annarshvatti hann til að eitrað væri fyrir henni.
Sem betur fer er herferðin gegn lúpínu löngu töpuð. Við útbreiðsluna verður ekki ráðið á annan hátt en að rækta skóg. Staðreyndin er nefnilega sú að þessi fallega blágræna jurt þrífst ekki í skugga. Meðan stjórnendur margra sveitarfélaga geta ekki á sér heilum tekið vegna útbreiðslu lúpínunnar, moka henni í burtu eða eitra, taka aðrir henni fagnandi og stunda skógrækt. Síðarnefnda aðferðin er margfallt ódýrari en eiturhernaðurinn.
Víst er að mófuglarnir hafa talað og sagt hvar þeim líður best. Gróðurinn er foldarskart eins og Jónas Hallgrímsson orti forðum. Því miður þekkti hann ekki lúpínuna annars hefði hann ort henni ódauðleg ljóð.
Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2016 kl. 23:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.