Stjórnmálafræðingur sem malar og malar í beinni útsendingu
15.11.2016 | 17:28
Bein útsending Ríkissjónvarpsins frá Bessastöð var vægast sagt undarleg. Þarna var fullt af fjölmiðlamönnum biðu eftir formanni Sjálfstæðisflokksins og forsetanum. Fyrir algjöra tilviljun var stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann staddur þarna.
Fyrsta spurningin sem stjórnmálafræðingurinn fékk var þessi: Hvað er líklegast að gerist núna?
Hvað er eiginlega að Ríkissjónvarpinu? Hvers vegna í ósköpunum er verið að láta einhvern stjórnmálafræðing vera að mala og mala um allt og ekkert? Eiríkur Bergmann býr ekki yfir neinni spádómsgáfu og veit ekkert í smáatriðum hvað gerist umfram okkur hin.
Allir vita að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gengur inn til forsetans og að loknum fundi gengur hann út. Ekki þarf stjórnmálfræðing til að lýsa skrefum Bjarna. Ekki þarf heldur stjórnmálafræðing til að lýsa möguleikum á stjórnarmyndun, þetta liggur allt fyrir og er gömul tugga og hundleiðing.
Dómgreindarbrestur fréttastofu Sjónvarpsins er hrikalegur. Hún getur ekki boðið upp á beinar útsendingar sem hafa það eitt að markmiði að láta fréttamenn mala eða stjórnmálafræðinga vera að sýna sig. Henni dugar einfaldlega að taka upp fréttamannafund Bjarna og/eða Guðna að loknum fundi þeirra og sýna svo í fréttatímum.
Og spurningarnar, maður lifandi ... Þegar spurningum er varpað til viðmælenda þurfa fréttamenn að hafa nokkuð glögga mynd af því sem þeir vilja vita. Annars verður þetta bara tilgangslaust mal. Og þannig var beina útsending.
Eiríkur, Bjarni vill ekkert segja, kvartaði fréttamaðurinn, eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafði gengið inn á Bessastaði án þess að ræða fyrst við fréttamenn. Þvílíkt rugl. Auðvitað vissu allir að Bjarni myndi ekki halda blaðamannafund áður en hann talaði við forsetann. Jafnvel stjórnmálafræðingar vita þetta.
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, er orðinn jafn þreyttur sem álitsgjafi eins og annar stjórnmálafræðingur var hér áður fyrr alltaf í sjónvarpi og útvarpi, Svanur Kristjánsson. Ef ekki er hægt að finna aðra álitsgjafa er ástæða til að leit út fyrir raðir stjórnmálafræðinga. Það væri nú engin goðgá að gefa aumingja Eiríki frí í svona tvö ár.
Myndin er af stjórnarmyndunarumboðinu sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skilaði inn til forsetans. Skjalið er álíka trúverðugt og fréttastofa Ríkisútvarpsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.