Nakinn maður með froðukjaft

TrúðurStaðreyndin er sú að ég hef engan húmor fyrir sjálfum mér. Hlæ aldrei með þegar verið er að grínast í mér, fitja bara upp á trýnið og legg ævilanga fæð á þá sem slíkt gera. Hins vegar er eftirfarandi örsaga svo bráðfyndin að gamalt, lítið notað bros rifnar upp hjá mér. Það hjálpar vissulega að langt er síðan sagan gerðist. Örugglega tveir sólarhringar.

Stundum liggur á. Þá er hlaupið og hamast þangað til öllu er lokið og hægt að slaka á. Meðan á því gengur er samt sem áður vissara að hafa augun opin, taka eftir umhverfinu og gæta sín á að gera ekki neitt sem hefur óafturkræfar afleiðingar, alvarlegar eða skoplegar.

Laugardagur til leiðinda

Þannig var að á seinni part laugardags var ég að sinna fjölskyldumálum, skutla fólki bæjarleið og svo annað álíka eins og að versla í kvöldmatinn. Eins og berserkur hamaðist ég við að klára allt þetta svo ég kæmist nú í sund fyrir kvöldið.

sturtaOg mér tókst það. Svínbeygði inn í götuna við sundlaug Vesturbæjar, lagði hart á stýrið til að komast í bílastæðið (ók við það næstum því á virðulegan mann sem raunar var á hlaupum), rauk út úr bílnum, læsti honum með fjarstýringunni, hljóp að innganginum, tróð mér á milli fólks sem þar stóð eins og kjánar og kjaftaði og reykti, staðnæmdist við afgreiðsluna, leit á afgreiðslukonuna sem gaf mér engan gaum, skellti kortinu á lesarann, hoppaði ofan í kjallarann, rann til á blaut gólfinu, reif mig úr fötunum, tróð þeim í skápinn og renndi mér fótskriðu inn í sturtuna, skrúfaði frá og naut þess að finna heitt vatnið ylja mér um kroppinn.

Þá góndi ég upp í loftið í sælu og afslappelsi.

Slökkviliðsmaðurinn

dýfa„Hvað í fjandanum ertu að gera hér.“ Reiðileg rödd bergmálaði um tómar sturturnar. Hann var alklæddur með slöngu í höndunum eins og slökkviliðsmaður sem var að leita að eldinum.

„Ha ég ...“ Hváði ég aldeilis undrandi yfir bergmálinu og litaðist um í kringum mig en sá engan. Ekki nokkurn mann nema hrópandann.

„Já, þú,“ hrópaði meintur slökkviliðsmaður.

„Tja ..., hvað heldurðu?“ Ég hugsaði mig um eitt andartak til að finna eitthvað fáránlega út í hött til að rugla í manninum en fann ekkert svo ég sagði bara vera í sturtu eins og allir gera sem leggja leið sína inn í þessi húsakynni sundlaugarinnar.

„Hvernig komstu hingað inn, spurði náunginn. „Við erum fyrir löngum búin að loka.“

Úbbs ...

Og þarna stóð ég eins og drottinn hafði skapað mig með ekkert annað en sápufroðu mér til afsökunar og hún dugði skammt. Ég stamaði ...

„Við erum búin að loka, þú átt ekkert að vera hérna,“ fullyrti maðurinn. „Hvernig komstu inn?“

Þó ég sé fljótfær og stundum vitlaus er ég oft fljótur að ná tökum á aðstæðum. Og nú var ég búinn að ná mér og átti auðvelt með að svara í sömu tónhæð og maðurinn. Auðvitað átti ég ekki að svara, heldur skammast mín og hrökklast út sömu leið og ég hafði komið inn. En þar sem ég var bókstaflega með allt á hælum mér, og rúmlega það, fannst mér illt að viðurkenna sök mína svo ég þráaðist við með hávaða og tuði.

Slökkvi„Ég gekk bara inn eins og ég er vanur. Heldurðu að ég hafi kannski komið inn um glugga, ha? ... já heldurðu það kannski, ha ...?“ hrópaði ég og froðan sem lak niður andlit mitt frussaðist í áttina að manninum.

Sástu ekkert?

„Sástu ekki að það var lokað, sástu ekki skiltið, sástu ekki að gólfið bar blautt, sástu ekki að það er ekki nokkur maður hérna niðri,“ hrópaði maðurinn en náði ekki í hálfkvisti við hávaðann í mér.

„Nei, ég var ekkert að pæla í neinu. Ég er aldrei að velta öðrum fyrir mér,“ sagði ég aðeins lægra og mundi þá eftir að hafa séð að lyklar voru í hverjum skáp og gólfið rennblautt. Ósjálfrátt sljákkaði aðeins í mér við þetta endurlit og ég fann svo glöggt að staða mín batnaði ekki hætis hót þó ég hrópaði.

„Hva, sérðu ekki neitt maður, ertu algjörlega blindur?“

„Skiptir einhverju máli hvernig ég kom inn eða hvað ég hafi séð eða ekki séð. Hér er ég hvort sem þér líkar það betur eða verr. Og það er ykkur að kenna að maður geti komist hingað niður eftir lokun.“ Þetta fundust mér alveg prýðileg rök og þau höfðu smávægileg áhrif.

„Já, helvítis hliðið lokast ekki sjálfkrafa,“ viðurkenndi maðurinn, aðeins lágværari en áður.

„Ég get ekkert að því gert,“ sagði ég. „Komst hingað niður án þess að neinn stoppaði mig og afsakaðu það,“ sagði ég. Mér fannst hálfur sigur unninn, staðan allt í einu 14:2 fyrir hrópandann.

NakinnNakinn maður með kjaft

„Ekkert mál,“ sagði maðurinn, sem mér fannst vera slökkviliðsmaður en var líklega starfsmaður laugarinnar, kannski sturtuvörður. Svo hvarf hann inn um einhverjar dyr.

Sá óþægilegi grunur læddist þarna að mér að þrátt fyrir hrópin hafi hann verið að því kominn að springa úr hlátri. Það er skiljanlegt, því hvað er hlægilegra en nakinn maður með kjaftbrúk. Auðvitað á maður að þegja og koma sér hljóðlega í burtu.

Og það gerði ég á mettíma. Tók á rás um leið og maðurinn hvarf, skolaði af mér sápuna, þurrkaði mér, hentist í fötin og hljóp upp. Í afgreiðslunni var fjöldi fólks, sem betur fer ekki allir farnir og því tók enginn eftir mér þegar ég laumaðist út. Ekki einu sinni afgreiðslukonan bak við glerið. Tæplega 35 sekúndur liðu frá því að sturtuvörðurinn hvarf og þar til ég var kominn út í bíl.

Ég komst þó alla vega í sturtu, hugsaði ég, og reyndi að finna eitthvað jákvætt við atburðinn. Innst inni vissi ég þó að ég hefði verið bölvaður asni að gefa ekki gaum að öllu því sem gaf til kynna að laugin væri lokuð.

Held að best sé nú að halda sig víðs fjarri vesturbæjarlauginni næstu vikurnar eða þangað til sturtuverðinum hefur tekist að gleyma mér. Jæja, kannski þarf hann eitt eða tvö ár eða að hann gerir það, kannski aldrei. Nú er þó fyllilega ástæða að biðja hann hér með afsökunar á kjaftbrúki mínu. Það var ekki viðeigandi (en gerir þó söguna aðeins skemmtilegri í endursögninni).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er stundum gott að flýta sér hægt. Heppinn var froðukjafturinn, að þetta atvik gerðist ekki fjörtíu og fimm árum fyrr, þegar Stjáni Sturta gekk um sturtuklefana, með "arnarklóna" og ýmist skrúfaði frá eða fyrir hjá karlgestum Vesturbæjarlaugarinnar, eftir því hvernig honum þóttu þrifin ganga;-)

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.11.2016 kl. 04:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband