Sjálfsögðu hlutirnir og álitsgjafaspekin
10.11.2016 | 11:12
76% kíkja á veðurspána daglega. Eru þá hin 24% yfirleitt illa klædd? Hegðun almennings þarf ekki að koma á óvart frekar en veðrið.
Þetta segir í auglýsingu Gallup sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðs dagsins. Hún er snjöll að mörgu leyti. Hlutfallstalan vekur athygli og lesandinn er eiginlega nauðbeyður til að lesa áfram, og hefur án efa gaman af. Þá er tilgangi auglýsingarinnar náð.
Hins vegar er rökleiðslan ekkert sérstök þó hún sé í sjálfu sér dálítið sniðug en hún vakti upp dálitlar pælingar hjá mér.
Undanfarið hef ég verið að hnýta dálítið í fjölmiðla og álitsgjafa þeirra, sérstaklega stjórnmálafræðinga.
Ástæðan er sú að fjölmiðlar geta varla birt fréttir um staðreyndir án þess að hafa heimildir fyrir þeim, svokallaða álitsgjafa sem segja eiginlega ekkert annað en það sem þokkalega vel gefið fólk hefur þegar áttað sig á. Álitsgjafarnir eru margir einstaklega klárir í innihaldslausu tali.
- Þegar skoðanakannanir fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sýna að lítill munur sé á fylgi tveggja frambjóðanda er hringt í stjórnmálafræðinginn og hann segir að staðan sé tvísýn.
- Þegar margir bílar eru á samtímis á götum borgarinnar eða þjóðvegum er lögreglumaðurinn kallaður til og hann segir kallar ástandið mikla umferð.
- Eitthvað blaut fellur af himni ofan og lendir á öllum án tillits til efnahags, trúarbragða eða synda og þá er veðurfræðingurinn kallaður til og sá segir eftir dálitla umhugsuna að nú rignir.
- Þegar hamarshögg berast frá húsi er byggingafræðingurinn kallaður til að hann veit hvað er að gerast, verið er að byggja hús.
- Grasið vex og byggakrarnir bylgjast í sumargolunni. Bóndinn svarar fjölmiðlinum og segir að sprettan sé góð.
Sko, þetta eru hinir sjálfsögðu hlutir sem allir vita og átta sig á. Ég þarf ekki veðurfræðing til að segja mér að úti rigni. Ég hef djúpan skilning á því að hvað umferð er og margir bíla eða margt fólk á ferð kallast í daglegu tali mikil umferð. Það fer ekki framhjá neinum þegar verið er að byggja hús og allur gróður vex að sumri til og oft er vöxturinn hraður og góður.
Vandinn vex þó þegar fjölmiðlarnir vilja fá stjórnmálafræðinginn eða aðra álíka álitsgjafa til að spá fram í tímann rétt eins og menntun þeirra og meintar gáfur gefi þeim meiri og víðtækari sýn en okkur hinum.
Hvað gerist núna, getur Bjarni myndað ríkisstjó?n. Og fræðingurinn gerir sig greindarlegan og svarar án umhugsunar: Tja, annað hvort myndar hann stjórn eða ekki ... Ég geri mér í hugarlund að þá brjótist út fögnuður á ritstjórninni yfir þessu einstaka og framsýna svari.
Hér á landi hefur notkun regnhlífa ekki tíðkast eins og í lygnari löndum. Í skóla í Noregi deildum við stundum um hvort sá væri svartsýnismaður sem að morgni dags færi með regnhlíf í vinnuna jafnvel þó á þeirri stundu væri sól í heiði og ekki ský á himni. Hvað mætti þá kalla þann sem ekki tekur regnhlíf með sér í þrátt fyrir skýjaðan himinn? Bjartsýnann ...?
Ég fer daglega inn á vef Veðurstofunnar og lít á veðurspána. Hins vegar vel ég aldrei fatnað eftir henni. Mér dugar nefnilega að líta út um gluggann og eins og flestir veit ég nokkurn veginn hvernig veðrið verður þann daginn.
Líklega er ég einn af þeim sem er alltaf að safna upplýsingum og en kann ekki að nota þær í réttu samhengi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.