Fréttir um engar fréttir eru fréttir ef álitsgjafinn segir svo ...
8.11.2016 | 14:55
Ef stjórnarmyndun lendir í einhverjum ógöngum og það stefnir í kreppu þá er það nú bara þannig að menn munu væntanlega skoða stöðuna í öðru ljósi. Ég held að þetta geti ekki komið á borðið í fyrstu atrennu. Ég held að það myndi valda úlfúð, sérstaklega í VG, ef þeir myndu ekki allavega reyna eitthvað annað fyrst áður en þeir færu í beinar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekkert útilokað í pólitík.
Þetta er togað út úr Grétari Þór Eyþórssyni, stjórnmálafræðingi og prófessor, í mbl.is. Í raun og veru hefur hann ekkert að segja nema það sem allir vita og skilja sem á annað borð fylgjast með pólitík.
Helstu álitsgjafar í fjölmiðlum eru án efa hinir vænstu menn en þeir vilja ekki bregðast eru því nauðbeygðir til að segja eitthvað, bara eitthvað, eins og að það sé ekkert útilokað í pólitík eða það gæti dregið til tíðinda á næstu dögum
Í fjölmiðlum hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt hver staðan er í stjórnarmyndunarviðræðum hans. Ekki þarf að leita til stjórnmálafræðings til að fá staðfestingu á því að annað hvort myndar Bjarni ríkisstjórn eða ekki.
Fjölmiðlarnir eru orðnir ærið undarlegir. Fréttir um engar fréttir eru orðnar svo afar mikilvægar fréttir af því að sennilegur álitsgjafi segir löngu máli að ekkert sé að frétta.
Skyldi enn rigna? Hef ekki heyrt í veðurfræðingi í langan tíma. Eitthvað blautt fellur samt af gráum himni ofan.
Gæti dregið til tíðinda á næstu dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í frétt RUV
http://ruv.is/frett/formlegar-vidraedur-gaetu-hafist-i-thessari-viku
segir meðal annars:
Bjarni hitti Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson, formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, á fundi í gær og er talið að þar hafi þeir rætt fyrirhugað stjórnarsamstarf.
Semsagt, eftir djúpar pælingar fréttamanna með aðstoð stjórnmálafræðinga hafa þeir komist að því að þeir hafi líkast til ekki hist til að horfa saman á fótbolta.
ls (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 15:08
Þeir voru samt í gær á fundi í einn og hálfan tíma, minnir mig. Allt bendir til að þeir hafi verið að horfa á leik Swansea og Man United. Líklega þarf þó íþróttafræðing til að fá það á hreint.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.