Stjórnmálfræðingar og annað fólk með skyggnigáfu
1.11.2016 | 09:32
Hefði Kjaradómur ekki stolið senunni í gær með undarlegum úrskurði sínum værum við neytendur fjölmiðla enn að fylgjast með tíðindalausum stjórnarmyndunarviðræðunum.
Allt er orðið frétt, ráðist er að formanni stjórnmálaflokks á hlaði Bessastaða og hann þýfgaður um ekki neitt. Við fáum að kynnast með fatasmekk formanns Bjartrar framtíðar og fréttum af svokölluðu umboði til stjórnarmyndunar.
Samt fáum við ekki fréttir frá miðlum eða spámönnum því í þeirra stað eru komnir stjórnmálafræðingar sem tjá sig um fortíð og framtíð.
Þeir eru spurðir um áhrif veðurs á kjörsókn, hvaða ríkisstjórn geti verið mynduð, hver muni verða forsætisráðherra, hvaða flokkar muni skipa næstu ríkisstjórn og hvernig henni muni reiða af fram til jóla og jafnvel vors.
Öllu þessu svara stjórnmálamenn líkt og draumaráðningarmenn eða þeir sem rýna í spil. Loðnir í svörum, langorðir og alvara lífsins lekur af þeim.
Samt sá enginn þeirra fyrir afsögn formanns Samfylkingarinnar, ekki stjórnmálafræðingar, ekki þeir sem ráða drauma, spá í spil eða kaffibolla né heldur þeir sem búa yfir skyggnigáfu.
Hva ... er ekkert að marka þetta lið?
- Enginn stjórnmálafræðingur sá fram á útreið Samfylkingarinnar í kosningunum. Hún kom ekki heldur fram í kaffibollum eða spilum.
- Enginn stjórnmálafræðingur fattaði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi auka fylgi sitt í kosningunum.
Niðurstaðan er einföld. Ekkert er að marka þá sem spá fram í tímann. Ekki stjórnmálafræðinga, draumaráðningarfólk, þá sem spá í spil, kaffibolla, innyfli dýra eða stjörnur á himinhvelinu. Þetta fólk sér ekki fram í tímann, veit ekkert hvað gerist umfram okkur hin sem fylgjumst með fréttum. Trúgirni margra fjölmiðlunga er hins vegar ótrúleg, ef þannig má að orði komast.
Annars eru hér stórmerkilegar fréttir sem enginn stjórnmálafræðingur né liðið sem spáir í spil hefur nokkra hugmynd um:
- Formaður Bjartrar framtíðar muni kaupa nýjan jakka, einn eða fleiri áður en yfir lýkur.
- Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einhvern næstu daga skrifa eitthvað á blað og hringja nokkur símtöl.
- Formaður Vinstri grænna mun brosa út í bæði, jafnvel þó hún fái alvarlega spurningu.
- Formaður Viðreisnar mun setjast á fund með þingflokknum.
- Samfylkingin mun sameinast Bjartri framtíð og nefnast eftir það Björt samtíð.
- Framsóknarflokkurinn mun ekki klofna
Allt þetta og meira til eru staðreyndir. Ég veit þetta, þekki stjórnmálafræðing ... meina draumspakan mann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.