Er almenningi ekki treystandi?
21.10.2016 | 11:56
Í verslunum hér á landi má einnig finna klaka sem fluttir eru inn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Innflutti klakinn er ódýrari en sá sem er framleiddur hér og getur munað um 40%.
Ofangreint er úr tilfinningaþrunginni frétt á Ríkisútvarpinu þar sem agnúast út í innflutning á ís. Fréttin var langt í frá hlutlaus, framsetninginn og tónninn var að hneykslast og maður fékk það á tilfinninguna að þetta væri aldeilis ómögulegt. Svona er nú oft innrætining.
Hins vegar er eitt að flytja inn klaka til Íslands og bjóða til sölu, annað er að geta selt þennan klaka.
Víkur nú sögunni annað.
Sama er nú í ráði hér samkvæmt ráðagerð Sjálfstæðisflokksins sem er líkari flokki Pútíns , Rússneskri Einingu, en allir aðrir stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum. Í nafni dreifðrar eignaraðildar, frelsis og lýðræðis ætla þessir menn að gefa öllum hlutabréf í bönkunum, þannig að auðvelt verður fyrir íslenska oligarka að ná meirihlutavaldi í íslenskum bönkum fyrir slikk. Þannig er komið aftan að kjósendum, það er kölluð almannavæðing sem er í raun einkavæðing aftan frá.
Þetta segir Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, í pistli á vefnum kjarninn.is. Kveður þarna við sama tón og í fyrri fréttinni. Hvað svo sem hagfræðingurinn segir þá er margt brogað við gagnrýni hans.
Staðreyndin er nefnilega sú að svo óskaplega margir þykjast bera hag almennings fyrir brjósti en þegar upp er staðið er almenningi ekki treyst.
Klakinn í frétt Ríkisútvarpsins myndi ekki seljast nema vegna þess að hann er ódýrari en innlend framleiðsla. Og hverjir kaupa útlenda klakann? Jú, almenningur, þar á meðal ég, vegna þess að klakinn er ódýrari.
Svo segir einhver hagfræðingur að það sé vitlaust að gefa almenningi landsins hlutabréf í íslenskum bönkum af því að almenningur kann ekkert með hlutabréf eða peninga að fara. Að minnsta kosti liggur það í orðum hans.
Allt ber þetta nú að sama brunni. Þrátt fyrir allt er almenningi ekki treystandi og þess vegna þarf eflaust að banna innflutning á klaka. Svo er það ómögulegt að gefa almenningi hlut í bönkum sem eru í eigu ríkisins. Að öðru leyti á fiskurinn í sjónum að vera almenningseign, landið, jöklarnir, arfurinn og tungumálið. Vandamálið er bara að almenningi er ekki treystandi ... að sumra mati
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.