Tónlistarmaðurinn sem ákærir aðra vegna tengsla

Þetta er með ólíkindum ef maður skoðar hver er eginkona þessa ágæta mans og hverjum hún tengist óháð hvar í pólitík fólk stendur sorglegt dæmi.

Þetta skrifar tónlistamaður sem er afar virkur í athugasemdadálkum óvandaðra vefmiðla. Hann er að tjá sig um frétt á visir.is um trúnaðarbrot starfsmanns Seðlabankans í upphafi hrunsins 2008.

Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þó fólk tjái sig heimskulega um atburði sem það þekkir ekki eða hefur ekki tæmandi vitneskju um. Fjöldi slíkra gerir sig daglega að kjána og öllum er sama. 

Svona náungar eins og tónlistamaðurinn og aðrir sem eru verr haldnir af þekkingarleysi og jafnvel heimsku tala ómælt um spillingu. Tónlistarmaðurinn tengir aðra við sökudólginn, jafnvel þá sem ekkert hafa gert af sér nema þekkja og umgangast hann. Á ensku hefur þetta verið kallað „guilt by association“. Slíkt er eiginlega gleggsta dæmið glataða röksemdafærslu þess sem ekki kann að nota heilasellurnar, hafi hann á annað borð einhverjar.

Ég fór að velta þess fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að vera einstakt „nóboddí“ og langt frá öllum virðingarstöðum í þjóðfélaginu, þá gæti ég verið í hættu staddur vegna ofbeldismanna í „stétt“ kjaftaska, orðháka og rógbera.

Staða mín er markast hugsanlega af eftirfarandi staðreyndum:

  1. Dóttir næst yngstu systur minnar er gift háttsettum dómara
  2. Sonur minn stjórnar fyrirtæki sem byggir hús til endursölu
  3. Ég þekki Gústaf Níelsson sem sagður er vera rasisti
  4. Kærasta yngri sonar míns er rússnesk og kann vel við Pútín
  5. Ég er Sjálfstæðimaður
  6. Tengdadóttir mín starfar hjá Borgun
  7. Góður vinur minn sat lengi í stjórn útgerðarfélags
  8. Ég hef nokkrum sinnum spjallað við Davíð Oddsson og kann vel við hann
  9. Fyrir tveimur árum gleymdi ég að greiða fyrir kexpakka í verslun, hann er enn ógreiddur
  10. Góður vinur minn færir bókhald

Jæja ... hmmm.

Sjáið nú hvernig hægt er að tvinna saman ávirðingar, gera lítið úr því sem ég er, hef sagt og gert, aðeins með því að skoða þá sem ég tengist.

Tónlistarmanninum sem ég gat um hér í upphafi, verður ekki skotaskuld úr því að gera mig að sorglegu dæmi um spillingu vegna tengingar við hina og þessa. Hann gæti eflaust sagt:

Sjáið hann Sigurð. Sonur hans er braskari, tengdadóttir hans starfar hjá Borgun, hann á kvótagreifa sem vin, annar vinur hans er rasisti, enn annar er bókari og kann prósentureikning sem er reikningsaðferð og jafnan notuð er til að hlunnfara alþýðuna. Svo er hann tengdur dómara og þekkir þrjótinn Davíð Oddsson. Hann stal kexpakka og lögfræðingurinn vinur hans og dómarinn bjarga honum frá fangelsi. 

Þetta er nú ljóti maðurinn, hann Sigurður.

Hið síðasta er svo sem alveg rétt, svona útlitslega séð.

Gáum nú hins vegar að því hversu auðvelt er að tengja okkur hingað og þangað, draga af því skelfilega andstyggilega ályktun sem gerir út af við hvert það manngrey sem vekur athygli í fjölmiðlum.

Hvað þá með fólk sem tengist einhverjum sem er eiturlyfjaneytandi, alkóhólisti, hefur setið í fangelsi, hefur lent í umferðaslysi þar sem aðrir hafa meitt sig illa eða jafnvel dáið. Á það fólk að tapa ærunni og hvað þarf það að gera til að fá mannorð sitt hreinsað.

Einhvern tímann í gamla daga var varað við því að sá sem hefði eitthvað á samviskunni gerðist dómari yfir öðrum. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum ... var sagt. Væri mark tekið á svona varúðarorðum myndi tilveran vera um margt bærilegri og mörgum léttbærari.

Þetta hefur ekki haldið aftur af því einstaka sómafólki sem skrifar í athugasemdadálka sumra fjölmiðla. Jafnvel ekki þeim sem þremur árum fyrir hrun seldu útrásarvíkingum sálu sína.

Hver skyldi annars hafa ort þetta ágæta ljóð sem á svo vel við umræðuefnið hér?

Þú deyrð á hverjum degi, sérð nafnið þitt þurrkað út.
Það eina sem varð eftir af þér var fingrafar sem slapp við klút.
Þú glímir við drauga hvern einasta dag, hverja dimma nótt
þú verst með bókinni góðu, úr hverju horni er að þér er sótt.
Inn í þér brennur ofsafenginn eldur, þig langar að skaða þann
sem hvílir sæl við hlið hennar, óttinn í þér óx og brann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband