Vit og vitleysa um kirkjujarðir og afstöðu Pírata
4.10.2016 | 09:31
Flutningsmenn tillögunnar [þingflokkur Pírata] telja ljóst að ríkið sé löngu búið að greiða fyrir þær kirkjujarðir sem það fékk afhentar með samkomulaginu um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá árinu 1997 en eins og réttilega hefur verið bent á liggur enginn ákveðinn listi fyrir yfir þær eignir. Ríkið hefur nú þegar greitt yfir 30 milljarða til þjóðkirkjunnar vegna samningsins, eða um það bil 1,5 milljarða á ári.
Þetta segir í þingsályktunartillögu Pírata um að ríkisstjórnin hefji undirbúning að uppsögn samkomulags frá 1997 við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta. Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdótir, alþingismaður.
Séra Geir Wage, prestur í Reykholti, teflir staðreyndum fram gegn þessari þingsályktunartillögu Pírata. Hann segir í snjallri grein í Morgunblaði dagsins (feitletrun er mín):
Þessi fullyrðing er villandi og beinlínis ósönn, því skýrslu kirkjueignanefndar fylgdi í tveimur bindum yfirlit yfir þessar eignir frá 1550 til útgáfuárs þeirra 1992 eftir Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð, sem nefndin rjeði til verksins. Þar eru ljósrit kaupbrjefa og annarra gjörninga er þær varða og nákvæm skrá yfir sögu eignarhalds þeirra þau 442 ár, sem skráningin tekur til. Hafi kirkjumálaráðuneytinu láðst að halda skrár yfir meðferð sína og annarra stofnana stjórnarráðsins á þeim eignum, sem það hafði í fjárhaldi og til ráðstafanar um 90 ára skeið, væri það tilefni til sjálfstæðrar rannsóknar, en varla gild ástæða til þess að svipta kirkjuna á Íslandi lögvörðum rjettindum.
Fullyrðingar sem Píratar byggja þingsályktunartillögu sína eru því að hluta til fallnar um sjálft sig enda má ljóst vera hvaða eignir standa undir samkomulagi ríkis og kirkju frá því 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Geir segir svo í lok greinar sinnar og skýtur hann bæði á Pírata og fjármálaráðuneytið og virðist hafa talsvert til síns máls í báðum miðum:
Enginn vafi ljek því á því, hvaða verðmæti það voru, sem afhent voru með kirkjujarðasamkomulaginu í lögum 78/1997, eins og haft er eftir fjármálaráðuneytinu í greinargerðinni. Virðist sú fluga frá ráðuneytinu komin og er Pírötum á þingi því nokkur vorkunn, að vita ekki betur. Vekur þetta samhengi til umhugsunar um það vald sem embættismönnum er fengið með því að alþingismenn og alþýða öll hefur til skamms tíma treyst upplýsingum ráðuneyta og verið óvarin fyrir þeirri túlkun upplýsinga sem þaðan rennur í mörgu samhengi og, að því er virðist, rangfærslum þar sem einnig má bæta í með þögninni, eins og hjer vaknar grunur um.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já en Sigurður. Mannkynssagan hófst á Internetinu. Það var Veraldarvefurinn sem sparkaði henni í gang. Þetta hlýtur þú að vita. Kva, ertu ekki niðurhalaður maður? Mikið ertu gamaldags, þekkirðu ekki Íslandssöguna? Ókeypis niðurhal => Next => Install => Next => Alþingi => Next => Sovétríkið v2.0.1
Öskurlýðshreyfing pírata
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 4.10.2016 kl. 11:43
Þetta meikar auðvitað sens þegar þú segir'etta svona. En mikið óskaplega finnur maður vanmáttinn og vanþekkinguna hríslast upp (eða niður) eftir mjóhryggnum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.10.2016 kl. 12:46
Ég hélt að þjóðin ætti kirkjujarðirnar en ekki einhverjir guðfræðingar sem eru á ofuratvinnuleysisbótum hjá ríkinu.
Steindór Sigurðsson, 4.10.2016 kl. 13:39
Þjóðin á kirkjujarðir samkvæmt samningi kirkjunnar við ríkið. Um það er ekki deilt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.10.2016 kl. 13:40
Kirkjuna á bara að leggja niður. Við höfum nóg af óþarfa stofnunum samt. Ég er mjög trúaður maður en mín trú snýst ekki um veraldarauðinn. Og ég vorkenni þeim guðsvoluðu vesalingum sem hafa ekki aðra trú en á dauða hluti og að hanga á einhverjum veraldlegum hlutum eins og hundar á roði. Mér persónulega er alveg sama um kirkjur og kirkjujarðir.
Steindór Sigurðsson, 4.10.2016 kl. 14:06
Leiðrétting: eigur kirkjunnar eru í vörslu hjá ríkinu. Þjóðnýtta vörslureikninga þekkja sumir í þjóðnýttum bankakerfum. Þar eru eigur borgaranna gerðar upptækar. Þannig ríki eru venjulega Sovétríki.
Enginn leggur Kirkjuna niður. Hún er eilíf. Það var reynt í Sovétríkjunum og sú tilraun varð að stærstu Kommúnista-guðspjallamessuðu fjöldamorðum mannkynssögunnar. Því miður var sú morðmessa í fullri eigu þjóðarinnar, samkvæmt stjórnarskrá, lögum og dómskerfi þeirra.
Persónan Steindór munu leggjast niður, en áfram mun kirkjan lifa að eilífu, sem betur fer. Við höfum séð allt þetta áður.
Ég er í Þjóðkirkjunni og ég er samt ekki í eigu þjóðarinnar og mun aldrei kæra mig um að verða það.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 4.10.2016 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.