Uppnám innan ESB og enn vilja flokkar þangað inn

Það eru haldlaus svikabrigsl að veitast að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrir að vinna ekki að framhaldi ESB-aðildarviðræðna að loknum kosningum vorið 2013. Flokkarnir gengu þá til kosninga með þá meginstefnu að hætta ESB-viðræðunum. ESB-flokkarnir töpuðu illilega í kosningunum. Að gera kröfu um að sigurvegarar með umboð gegn ESB-aðild spyrji þjóðina hvort hún vilji halda áfram misheppnuðum aðildarviðræðum ber vott um skert veruleikaskyn.

Þetta segir Björn Bjarnason fyrrum alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaði dagsins. Hann hefur rétt fyrir sér. 

Nú er stundum rætt um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi svikið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Hvernig getur það verið að stjórnmálaflokkur vilji beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem enginn hefur áhuga á? Stór meirihluti þjóðarinnar vill ekki í ESB samkvæmt skoðanakönnunum, Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki inn, ekki Framsóknarflokkurinn og margir þingmenn úr VG.

Samfylkingin og VG vildu að Ísland gengi í ESB. Þeir reyndu að hundsa þjóðina, lofuðu samningi, hægt væri að „kíkja í pakkann“ og skrökvuðu um leið um eðli viðræðna við ESB. Þær voru  aðlögunarviðræður, ekki samningaviðræður.

Niðurstaðan hefði aldrei orðið hefðbundinn samningur heldur aðgangur að ESB vegna þess að aðlögunarviðræðurnar voru aðlögun íslenskra laga og reglna að Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrá ESB. Ekki samningur um kaup og kjör.

Eða með orðum Björns:

Uppnámið er algjört innan ESB. Það hefur snarversnað síðan vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. kvaddi ESB-aðildarferlið í janúar 2013. Þá hafði aðeins 11 af 33 samningsköflum verið lokað frá 2009. Ferlinu lauk með ágreiningi um kaflana um sjávarútveg og landbúnað þegar rann upp fyrir íslensku stjórnarherrunum að ESB krafðist aðlögunar í ferlinu og í bókum Brusselmanna væri ekkert til sem heitir könnunarviðæður.

Að kynna sem kosningaloforð í september 2016 að borið skuli undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hvort halda eigi þessu misheppnaða ferli áfram staðfestir enn blekkingariðju og óraunsæi aðildarsinna.

Nú hefur verið stofnaður stjórnmálaflokkur sem hefur það eitt að markmiði að koma Íslandi inn í ESB. Allir helstu forvígismenn flokksins eru þessarar skoðunar og skiptir litlu þá stefnan sé falin í orðaflaumi og fagurgala. Viðreisn er ESB flokkur.

Lokaorð Björns í greininni eru þessi og undir þau er hér tekið:

Í raun er forkastanlegt að láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en Íslendingar fái áheyrn í Brussel til að taka upp viðræðuþráð sem ríkisstjórn Íslands sleit. Nú skuli áfram kannað hvort Íslendingar fái sérkjör. Það er þetta sem ESB-aðildarsinnar gera að kosningamáli fyrir þingkosningarnar 29. október 2016. Þetta vilja þeir að þjóðin ákveði í atkvæðagreiðslu en ekki hvort sótt skuli um að nýju.

Málatilbúnaður ESB-aðildarsinna hefur verið ótrúverðugur frá ársbyrjun 2009. Þeir ýttu staðreyndum og eigin loforðum til hliðar við upphaf ESB-leiðangursins, sundruðu flokkum til hægri og vinstri og standa nú á rústum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Að leiða ESB-aðildina inn á vettvang íslenskra stjórnmála var upphaf svartasta kafla í sögu utanríkismála lýðveldisins. Vörumst það svarthol.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband