Lýðræðislegar endurbætur á ólýðræðislegu lýðræði
24.9.2016 | 13:37
Margir hafa áhyggjur af lýðræðinu, það standi einfaldlega ekki undir þeim kröfum sem gert er til þess, sé beinlínis ólýðræðislegt. Að þessu sögðu, það er að lýðræðið sé ekki nógu lýðræðislegt, er ágætt að skoða hvað til hvaða ráða Sjálfstæðiflokkurinn getur gripið til að verjast ólýðræðislega lýðræðinu í lýðræðislegum kosningum.
Konur eru vissulega óhressar með stöðu sína eftir prófkjör í tveimur kjördæmum. Það er miður enda eiga bæði kynin að velja frambjóðendur óháð kyni þeirra. Það gerist hins vegar ekki alltaf og yfirleitt hallast á konur, þær fá oftast færri atkvæði en karlar.
Besta lausnin er ábyggilega sú að setja einfaldlega ákvæði í prófkjörsreglur þess efnis að kjósandi sem velur karl í fyrsta sæti þurfi að velja konu í annað sæti og svo koll af kolli. Annars verður atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanleg útfærsla á þessu má vera þannig að þetta gildi aðeins um fyrstu fjögur sætin.
Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Já, ábyggilega eins og sú regla að kjósa þurfi í Reykjavíkurkjördæmunum að lágmarki sex frambjóðendur en ekki fleiri en átta.
Nú eru þá allir sáttir nema ungir sjálfstæðismenn. Þeir munu áreiðanlega gera þá sanngjörnu kröfu að sambærileg regla verði sett um ungt fólk, það verði skilyrði að í fyrstu fjórum sætunum verði einn frambjóðandi sem er yngri en þrjátíu ára. Sé ekki svo verði atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanlega útfærsla á þessu gæti verið sú að kjörnefnd lagfæri hreinlega þannig atkvæðaseðla svo hinn sanni vilji kjósandans komi í ljós.
Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, ábyggilega eins og reglan um kynjaskiptinguna.
Næst gera hommar og lesbíur sambærilega kröfu, að ekki megi ganga framhjá þeim. Jú, þetta er álíka sambærilegt og þetta með aldurstengt kjör.
Við hárfatlaðir (þeir sem hafa lítið eða ekkert hár á höfði) gerum auðvitað kröfu til að sjónarhorn okkar heyrist á þingi. Því verði samþykkt sú regla að kjósandi verði að velja í eitt af átta efstu sætunum einn karl (eða konu) sem hafi af náttúrulegum völdum lítið sem ekkert hár efst á höfði.
Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um homma og lesbíur.
Nú hafa margir áhyggjur af því að of margir lögfræðingar séu of margir á framboðslistum og mætti því setja þá einföldu reglu að ekki megi kjósa fleiri en tvo úr hverri starfstétt.
Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um sköllóttan ég meina hárfatlaðan frambjóðanda.
Þetta er bara lýðræðislegar reglur og hjálpa til við að gera hið ólýðræðislega lýðræði miklu lýðræðislegra.
Ástæðan er einfaldlega sú að í Sjálfstæðisflokknum höfum við alltof lengi búið við afar ófullkomið lýðræði. Aðrir stjórnmálaflokkar eru komnir miklu lengra.
Vinstri grænir, Samfylkingin og stjórnmálaflokkurinn Píratar hafa gert mjög athyglisverðar lagfæringar á lýðræðinu þar sem gott og vandað fólk hefur tekið að sér að lagfæra prófkjörslista samkvæmt þeim vilja sem kjósendur hafa án nokkurs efa hugsað sér en ekki tekist að tjá með einu krossmarki á atkvæðaseðil sinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Facebook
Athugasemdir
Sæll nafni.
Meinfyndin greining lýðræðishugsjónum.
Með kveðju.
Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 24.9.2016 kl. 17:09
Afsakið. Vantar forsetninguna "á".
Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 24.9.2016 kl. 17:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.