Jarðskjálftar af mannavöldum
20.9.2016 | 13:58
Niðurdæling vatns frá Hellisheiðarvirkjun veldur jarðskjálftum, meira en 200 skjálftar hafa mælst á fjórum dögum. Yfirleitt hafa þeir verið smáir en á þriðja tug skjálfta mælst yfir 2 stig og fjórir yfir 3. Þetta veldur áhyggjum.
Þegar sambærileg hrina er á Reykjanesi, Kópaskeri eða í Bárðarbungu rjúka fjölmiðlar til og spyrja jarðfræðinga spjörunum úr. Nú láta þeir hins vegar nægja yfirlýsingu frá Orkuveitufyrirtæki sem nefnist Orka náttúrunnar og hún er birt orðrétt og athugasemdalaus. Ekki er leitað til Jarðfræðistofnunar Háskóla Íslands eða sjálfstætt starfandi jarðfræðinga. Þetta veldur líka áhyggjum.
Staðreyndin er einföld. Þegar inngrip manna í gang náttúrunnar veldur umtalsverðum jarðskjálftum er ástæða til að hinkra við og spyrja sig hvort verið sé að búa til vandamál. Geta hér orðið til náttúruhamfarir af mannavöldum?
Jarðfræðingar og margir leikmenn þekkja svokallaða bókahillutektóník. Jarðskjálftum er líkt við bækur í bókahillu. Þegar ein þeirra hallast til hliðar lendir hún á annarri sem líka skekkist og svo koll af kolli. Þannig getur jarðskjálftahrina á einum stað valdið jarðskjálftum langt í burtu.
Skjálftar á Suðurlandi færst frá austri til vesturs og því er ólíklegt að skjálftar við Húsmúla valdi hreyfingum fyrir austan fjall. Hins vegar eru þekktar misgengissprungur í nágrenni Húsmúla, á Hellisheiði og við Geitafell. Á síðarnefnda staðnum hafa skjálftar sýnt fram á virkt misgengi með stefnu vestan við Geitafell og norður yfir Bláfjöll. Á þessu svæði urðu til dæmis upptök stórra skjálfta árið 1968 sem fundust á öllu höfuðborgarsvæðinu og víðar. Getur niðurdælingin við Húsmúla valdið hreyfingu á misgenginu norðan við Geitafell?
Er þetta ekki áhyggjuefni?
Tilgangurinn með þessum skrifum er að vekja athygli á skjálftahrinunni við Húsmúla og hversu lítið er í raun vitað um afleiðingar niðurdælingar vatns. Jarðfræðingar viðurkenna að vatnið geti virkað sem smurning í sprungum og misgengjum og þegar losnar um spennu verða einfaldlega til skjálftar. Enginn getur komið í veg fyrir skjálfta, ekki einu sinni þeir sem stjórna niðurdælingunni. Jú annars, ef henni er hætt verða framvegis aungvir skjálftar af mannavöldum.
Skjálftar tengjast niðurdælingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Má ekki bara einfalda málið með því að heppilegast sé að leiða heita vatnið til húshitunar og framleiða rafmagnið með fallvötnunum?
Hvað myndi annars gerast í olíuríkjunum ef þau tækju upp á því að dæla aftur niður "umfram" olíunni til þess að geyma og selja seinna?
Kolbrún Hilmars, 20.9.2016 kl. 15:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.