Konum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins gæti auðveldlega fjölgað
13.9.2016 | 11:12
Enn er rökrætt um árangur kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Hann þykir ekki upp á marga fiska og ekki þarf að rökstyðja það.
Í þingflokki sjálfstæðismanna eru nú nítján þingmenn, þar af sjö konur.
Í skoðanakönnunum virðist sem flokkurinn fái sautján þingmenn í næstu þingkosningum, sem er nú ekki beysinn árangur. Fái flokkurinn fleiri þingmenn eru nær 80% líkur á því að það verði kona.
Á töflunni hér fyrir ofan er gerð tilraun til að skipta þessum þingmönnum á milli kjördæma. Samkvæmt því verða aðeins fjórar konur í þingflokknum á næsta kjörtímabili sem er auðvitað langt frá því að vera ásættanlegt.
Sumir vilja breyta niðurstöðunum í prófkjörunum til að rétta hlut kvenna. Ég hef haldið því fram að það sé ótækt. Allt fikt í niðurstöðum lýðræðislegra kosninga er ótækt og raunar óvirðing við lýðræðislegar hefðir og raunar eðli lýðræðisins. Í gamalli auglýsingu segir þú tryggir ekki eftir á. Það er hárrétt því þegar skaðinn er skeður fást engar bætur enda of seint að tryggja.
Sama má segja með prófkjör. Ekki er hægt að setja reglur eftir á eða breyta. Allir gera ráð fyrir því að úrslit standi, frambjóðendur ekki síður en kjósendur. Til hvers er verið að kjósa ef einhverjir eru ósáttir við niðurstöðuna og krefjast breytinga?
Raunar hef ég þá staðföstu skoðun að vilji kjósenda sé mikilvægari en einhver skipting sem er á milli þeirra sem ná kjöri, þar með talið kyn, aldur, þyngd, hæð eða annað sem er auðveldlega mælanlegt.
Fyrir prófkjör hefði hugsanlega verið hægt að breyta reglum og gera kjósendum skylt að velja fólk að jöfnu af báðum kynjum. Sé kona valin í fyrsta sæti ber að velja karl í annað og svo framvegis. Með góðum rökum má segja að slíkt fyrirkomulag sé gott og jákvætt fyrir stjórnmálaflokk. Varla þarf að hafa fleiri orð um það.
Á móti má auðveldlega færa rök fyrir því að reglur sem stýra kjósandanum að ákveðni niðurstöðu séu ólýðræðislegar. Kjósandi á að vera frjáls í kjörklefanum. Hann er það ekki ef gerðar eru kröfur til hans umfram þann fjölda sem hann má kjósa eða krot á kjörseðil.
Ég er langt frá því sáttur við kynjaskiptingu í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins en fullyrði að lýðræðislegar reglur beinlínis banni allt fikt í niðurstöðunum. Vonandi eru kjörnefndir sammála þessu.
Það er svo allt annað mál hvernig kynning á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins fer fram. Sem dæmi má nefna að nái flokkurinn fleiri þingmönnum í öllum kjördæmum nema einu bætist kona við þingflokkinn.
Fjórar konur á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins eru næstar inn sem myndi þýða tuttugu og einn þingmann og átta konur í þingflokkinum, einni fleiri en nú er. Er það ekki ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum í komandi kosningabaráttu vegna þingkosninganna 29. október?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.