Bláfjallakvísl er langoftast fær göngufólki
29.7.2016 | 13:40
Bláfjallakvísl á hinum svokallaða Laugavegi er yfirleitt blátær. Hún er dragá og tekur til sín vatn víða að. Upptök hennar er að finna í Bláfjöllum við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Við sólbráð eykst vatn úr jöklinum og það skilar sér í ána.
Sjaldnast er hún til trafala. Vegur suður Emstrur er á traustu vaði sem sjaldnast breytist. Göngufólk kemst auðveldlega yfir, vatnið sjaldnast nema í hné á meðalmanni.
Örskammt fyrir norðan er Kaldaklofskvísl. Hún er öllu vatnsmeiri og stundum straumhörð. Hún var brúuð fyrir um tuttugu og fimm árum, raunar ítrekað vegna snjóþyngsla sem sliguðu brúna einu sinni eða tvisvar. Hér áður fyrr þótti frekar leiðinlegt að þurfa að vaða tvær kaldar ár með 400 m millibili.
Myndin sem hér fylgir var tekin fyrir mörgum árum. Göngufólk fær far með jeppa yfir Bláfjallakvísl og þakkar fyrir að þurfa ekki að vaða.
Laugavegurinn er með vinsælustu gönguleiðum landsins. Það er eðlilegt, landslag er víða fagurt og gönguleiðin fjölbreytt. Þó verður
að segjast eins og er að hann er frekar ofmetinn sé hann borinn saman við aðrar gönguleiðir. Sá sem þetta ritar hefur ótal sinnum farið Laugaveginn, gangandi, á skíðum, hlaupandi og á bíl eins og mögulegt er. Í dag heillar hann ekki eins og hann gerði. Of margir göngumenn eru þarna og það eyðileggur upplifunina að miklu leyti. Vilji fólk endilega ganga þessa leið þá er mælt með því að fara seinnipart ágúst eða í september. Gæta þá vel að veðurspá og vera vel búinn.
Mikið vatn í Bláfjallakvísl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.