Sumir sóuðu æsku sinni í nám ...

Tómas Guðmundsson (1901-1983), Reykjavíkurskáld, er eins og margir gömlu skáldanna farinn að gleymast. Í það minnsta er honum ekki eins mikið hampað eins og áður. Ljóðin hans eru þó afskaplega falleg, sum skemmtileg og önnur beinlínis fyndin. 

Síðustu daga var ég að rifja upp verk nokkurra ljóðskálda vegna lítilsháttar verkefnis og staðnæmdist við Tómas.

Skólabræður nefnist eitt makalaust ljóð og er eflaust ort í tilefni stúdentsafmælis skáldsins:

Hér safnaði Guð okkur saman
einn sólskinsmorgun, og héðan
lokkaði lífið okkur
með langvinnu prófin sín.
Og sumir sóuðu æsku
sinni í nám, á meðan
aðrir vörðu' henni í vín.

[...]

Nei, minnumst þess heldur, bræður,
að bernskunnar lindir þrjóta
og bráðum leggjast þau niður,
vor hjartkæru æskubrek.
Við verðum gráir og gamlir 
og nennum einskis að njóta
og nefnum það viljaþrek.

En eins og Salómon sagði
í fornöld og löngu frægt er:
Forðast skaltu að geyma
þín afrek til næsta dags.
Og lát þá ei heldur dragast
að drekka þau vín, sem hægt er
að drekka strax.

Takið eftir hinu launsanna skopi skáldsins sem frekar varði æsku sinni í að drekka góð vín strax, meðan aðrir sóuðu henni í nám. Og þegar við hættum að njóta æskubreka og víns þá er afsökunin sú að við stöndumst freistinguna með viljaþreki. Nei, þegar svo þar er komið sögu í lífi manns er letin og jafnvel aldurinn orðinn of mikill þröskuldur.

„Bréf til látins manns“ nefnist annað ljóð. Geysilega flott upp sett en skopið er sótsvart inni á milli gáfulegra orða.

En dánum fannst okkur sjálfsagt að þakka þér
og þyrptumst hljóðir um kistuna fagurbúna.
Og margir báru þig héðan á höndum sér,
sem höfðu í öðru að snúast þangað til núna.
En þetta er afrek, sem einungis látnum vinnst
í allra þökk að gerast virðingamestur.
Því útför er samkoma, þar sem oss flestum finnst
í fyrsta sinn rétt, að annar sé heiðursgestur.

[...]

Þú ættir, vinur, að vita hvað konan þín grét,
hún var í mánuð næstum því óhuggandi.
Þó gefur að skilja, að loksins hún huggast lét
og lifir nú aftur í farsælu hjónabandi.
Og gat hún heimtað af hjartanu í brjósti sér
að halda áfram að berjast fyrir þig einan?
Nú þakkar hún hrærð þá hugulsemi af þér
að hafa dáið áður en það var um seinan.

[...]

Mér dylst að vísu þín veröld á bak við hel,
En vænti þess samt, og fer þar að prestsins orðum,
að þú megir yfirleitt una hlut þín vel,
því okkar megin gengur nú flest úr skorðum.
Og hér eru margir horfnir frá þeirri trú,
að heimurinn megi framar skaplegur gerast,
og sé honum stjórnað þaðan, sem þú ert nú,
mér þætti rétt að þú létir þau tíðindi berast.

Þvílíkur kveðskapur sem þetta er og húmorinn, maður lifandi. Sjóðandi ádeila sem gerir lesandanum svo gott að lesa að við liggur að maður verður betri maður fyrir vikið.

Tómas má ekki gleymast frekar en önnur stórskáld 20. aldarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Tómasi Guðmundssyni eru eignaðar þessar vísur um Jakob Smára:

Læknarnir gera margt af mikilli list

og mörg ein sál er þessvegna álitin töpuð

en aldrei hefði heimurinn eignast Krist

hefði jónfrú María verið skröpuð.

En fólkið sá það náði ekki nokkruui átt

og nú er frelsarinn bráðum 2000 ára

en ýmsum finnst að hefði hinsvegar mátt

hrófla ögn við móður hans Jakobs Smára.

Sigurður I B Guðmundsson, 7.7.2016 kl. 21:47

2 identicon

Það er rétt hjá þér. Tómas er meðal fremstu þjóðskálda Íslendinga. Tómas og alþýðuskáldið Steinn Steinarr eru mín uppáhaldsskáld.

Þótt Tómas hafi ort létt ljóð við falleg sönglög, þá gat hann líka ort þyngri flóknari ljóð, t.d. Heimsókn. Í einu erindinu þar segir:

"Því lífið kemur sjálft í þetta sinn

að sækja þig, en ekki skáldskap þinn.

Það hefur öðrum erindum að gegna.

Og það er skáld, sem yrkir öll sín ljóð

frá eigin brjósti, misjafnlega góð,

og hreyfir aldrei hending rímsins vegna".

.

Lífið skáldar en breytir engri hendingu rímsins vegna, þ.e. kemur aldrei með leiðréttingar, en hið sama má einnig segja um Tómas sjálfan. Hann gat alltaf ort frábær ljóð með eðlilegu orðalagi, samt komu rímorðin og stuðlarnir sjálfkrafa og fyrirhafnarlaust, að því er virðist.

Pétur D. (IP-tala skráð) 7.7.2016 kl. 22:07

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll nafni. Les það úr ljóðinu um Jakob Smára að höfundurinn hafi ekki verið neinn sérlegur vinur hans nema hann hafi verið að atast í honum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.7.2016 kl. 00:35

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Pétur, þetta ljóð ber einkenni Tómasar. Athyglisvert.

Sammála þér um Tómas og Stein Steinarr.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.7.2016 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband