Gamalt viðtal við Kristján Eldjárn forseta Íslands
30.6.2016 | 00:22
Heimildarmynd um Kristján Eldjárn (1916-1982) var sýnd í Ríkissjónvarpinu að kvöldi 29. júní 2016. Hún var byggð upp af gömlum fréttaskotum og þáttum Sjónvarpsins. Í heild reglulega fróðleg og skemmtileg.
Heimildarmyndin minnti mig á viðtal sem ég tók við Kristján þegar ég var blaðamaður á Frjálsri verslun. Ég átti fund með honum í desember 1979 og viðtalið birtist í janúarblaði tímaritsins.
Með því að leita á netinu fann ég viðtalið. Í fórum mínum átti ég svo mynd af mér og honum sem tekin af þessu tilefni. Þó ég hafi nú tekið viðtöl við fjölda fólks bæði áður en þetta gerðist og svo oft síðar þá er þetta eina viðtalið sem ég hef átt við forseta Íslands. Raunar aldrei talað við neinn forseta síðan. Jú, ég hef einu sinni eða tvisvar skipst á orðum við Ólaf Ragnar Grímsson, mér til mikillar ánægju.
Fundur okkar Kristjáns Eldjárns kom til vegna þess að okkur á ritstjórn Frjálsrar verslunar langaði til að fá grein um orðuveitingar. Markús Örn Antonsson, ritstjóri, fól mér að afla upplýsinga um þetta mál og ég setti mig í samband við Birgi Thorlacius, forsetaritara og formann orðunefndar. Hann var ekkert hrifinn af því að ég ónáðaði forsetann en ég gaf mig ekki. Loks fékk ég vilyrði fyrir korters spjalli við Kristján á skrifstofu hans í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg.
Þangað mætti ég á tilsettum tíma og ég sver það að ég ætlaði svo sannarlega að spyrja forsetann um orðurnar. Þegar á hólminn var komið fann ég hversu almennilegur og alþýðlegur Kristján var og samstundis spannst viðtalið dálítið lengri og ég hóf að spyrja hann um forsetatíð hans.
Það örlaði á því að Kristjáni fannst ég fara út fyrir efnið. Ef til vill hefur honum gramist það en hann lét ekki á neinu bera við mig. Í stað þess að fundurinn stæði í fimmtán mínútur teygðist úr honum í eina og hálfa klukkustund og að honum loknum kvaddi Kristján mig afar kurteislega og hefur ábyggilega verið orðinn alltof seinn á næsta fund. Sáumst við aldrei síðan, eins og segir í fornum bókum.
En mikið ansi var Markús Örn kátur með þetta viðtal mitt, næstum því skúbb.Það var Loftur Ásgeirsson, minn gamli vinur, sem tók myndirnar.
Nú eru nýafstaðnar forsetakosningar og eftir rúman mánuð tekur nýr forseti við embætti. Er þá ekki ágætt að rifja upp þetta gamla viðtal?
Sjaldnast er ég ánægður með gömul skrif eða viðtöl eftir sjálfan mig. Viðtalið er samt bara nokkuð gott, merkilega vel skrifað jafnvel þó tekið sé tillit til þess að þegar þarna var komið sögu hafði ég aðeins verið blaðamaður í rúm tvö ár. Ekki síst er gaman að sjá að þrátt fyrir engan undirbúning var ég með flestar staðreyndir nokkuð klárar. Velti því fyrir mér hvort að ég gæti tekið svona óundirbúið viðtal í dag.
Hér er svo viðtalið við Kristján Eldjárn sem var forseti frá 1968 til 1980.
Ekki svo auðvelt að beita mikilli gamansemi í þessu embætti
- segir dr. Kristján Eldjárn, sem lætur af embætti forseta Íslands síðar á árinu.
Truman Bandaríkjaforseti var, held ég, einu sinni spurður að því hvort honum fyndist það ekki niðurlægjandi, þegar þar að kæmi, að hverfa úr forsetastól og fara að vinna einhver venjuleg störf eins og hver annar venjulegur borgari. Það væri öðru nær, svaraði Truman, það væri hinn mesti heiður fyrir sig. Sama segi ég. Fyrrverandi forseti á að geta gengið að hverju heiðarlegu starfi sem er, en auðvitað er trúlegt að þetta yrði býsna takmarkað í reyndinni.
Hvað mér viðvíkur, þá geri ég ráð fyrir að starfa eitthvað að fræðistörfum." Þetta eru orð dr. Kristjáns Eldjárns, forseta Íslands.
Frjáls verzlun hitti hann að máli fyrir skömmu og ræddi við hann vítt og breitt um forsetaferil hans og minnisverða atburði frá þeim tíma. Eins og alþjóð er nú kunnugt hefur Kristján ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til þessa embættis, en hann hefur nú setið í forsetastóli í tæp tólf ár.
Það hefur verið haft á orði, að af öllum mönnum öðrum ólöstuðum hefði þjóðin varla getað fengið betri mann í forsetastólinn. Margt kemur þar til, hann er hlutlaus í stjórnmálum, hann er alþýðlegur í embætti, enda vafamál hvort að það þyldi mjög formfastan mann, og síðast en ekki síst þá er Kristján góður viðkynningar og hefur til að bera ágætt skopskyn.
Erfitt að koma við húmor í starfanum.
Mönnum hefur oft virst nokkuð skorta á að embættismenn líti léttum augum á tilveruna, sem virðist vera fyrir þá frekar óskýr bak við rykfallin skjöl, stirt embættismannamál og þungar venjur.
Kristján er góður húmoristi, en samt ber embættið þess ekki mikil merki eftir 12 ár. ,,Það er ekki svo auðvelt að beita mikilli gamansemi í þessu embætti," segir Kristján.
Það er til dæmis varla hægt að blanda neinskonar léttleika inn í nýársræðu, ef það er það sem þú átt við. Það á hreinlega ekki við og mundi bara eyðileggja stílinn, og þess vegna hef ég valið nýársræðunum það form sem ég hef gert.
Aftur á móti getur maður notið sín sem húmoristi í viðkynningu við annað fólk. Á Bessastaði kemur mikið af fólki árlega, það skiptir þúsundum, og ég vona að þá hafi ég verið örlítið léttari."
Þessi hlið þín kemur þó ekki fyrir allra sjónir. Það sem flestir þekkja er myndin frá afhendingu trúnaðarskjals sendiherra þar sem þú og utanríkisráðherra standið sitt hvorum megin við sendiherrann og alltaf er myndin tekin á sama stað í húsinu.
Já, þetta er alveg satt, en það er ekki svo þægilegt að bregða upp einhverjum húmorískum svip og væri sennilega lítt viðeigandi við þessi tækifæri.
Það koma þó alltaf nýir siðir með nýjum mönnum, og þegar nýr maður tekur við verður hann að sigla milli skers og báru þegar um þetta og fleira er að ræða, meðal annars geta brugðið upp bæði alvarlegum svip og glettum eftir því sem við á."
Margt svipað og ég bjóst við"
Hvernig var það fyrir þig, forstöðumann Þjóðminjasafns Íslands að setjast í forsetastól? Olli reynsluleysi þitt á þessum sviðum þér ekki erfiðleikum?
Það var nú margt svipað og ég bjóst við og hafði gert ráð fyrir. Ég hef hvorki orðið fyrir neinum vonbrigðum í því efni né get ég sagt, að eitthvað hafi skarað fram úr mínum vonum.
Það er rétt sem þú segir, ég hafði aldrei komið nálægt þeim störfum sem þarna biðu mín. Hins vegar hafði ég stjórnað stórri stofnun og var vanur að umgangast fólk, jafnt erlent sem innlent.
Auðvitað breytti forsetaembættið miklu fyrir mig. Lífsvenjur mínar breyttust og ég þurfti óhjákvæmilega að umgangast aðrar manngerðir, fólk sem hafði önnur áhugamál, og aðrar venjur en ég. Nú og svo þurfti ég að skipta um aðsetur."
Urðu einhverjar breytingar á þínum vinahóp við kjörið? Vinir eru yfirleitt jafningjar, en getur forseti verið jafningi?
Það urðu ekki miklar breytingar á vinahópnum. Ég hef reynt að halda sambandinu við mína vini og kunningja. Hins vegar vil ég geta þess að ég hef eignast ágæta vini og kunningja í gegnum starf mitt sem forseti, og einnig í hópi nágranna minna hér á Álftanesi."
Bessastaðir of einangraðir?
Finnur þú fyrir einhverri einangrun á Bessastöðum? Er forsetaembættið einangrað og veldur búsetan þar einhverju um?
Búsetan einangrar forsetann að vissu leyti, en ekki vil ég gera mikið úr þessu atriði. Það hefur mikla kosti að búa á Bessastöðum og ég held að þar verði forsetasetrið áfram.
Það eru nú fleiri embætti þjóðarinnar sem eru of einangruð ef ekki einangraðri og margir búa úti í sveit þótt þeir vinni inni í bæ.
Annars er það skilyrði að forsetinn og fjölskylda hans hafi yfir einkabílum að ráða, bæði ég og kona mín ökum mjög mikið enda er vegurinn miklu betri en hann var. Nú þarf einangrun Bessastaða ekki að vera svo mikil, byggðin hefur vaxið mjög mikið þarna hin síðustu ár og þéttist."
Forsetaembættið
Þær raddir hafa heyrst hér, að forsetinn væri of valdalítill og geti því ekki beitt sér sem skyldi. Hver skyldi vera skoðun forsetans á þessum málum?
Jú, það hefur verið mikið rætt um þetta", segir Kristján. ,,Sumir vilja að völd forsetans séu meiri, en ég held að ég geti nú ekki úttalað mig um þessi mál að sinni, nema hvað ég held, að í bráð verði ekki reynt að gera embættið valdameira."
Er forsetatignin nokkuð annað en eftirlíking af konungstign?
Að sumu leyti er hún það, en samt er mikill munur á s.s. varðandi umgengnisvenjurnar, og svo er forsetinn valinn úr fjöldanum en konungstignin erfist."
Kosningasigurinn 1968.
Kjör þitt til forseta 1968 var sérstaklega glæsilegt. Hafði kjör þitt nokkur eftirköst í samskiptum þínum við þá sem hlut áttu að máli í þeirri baráttu?
Nei, það er mjög fjarri því. Samkomulag mitt við alla þá sem þar áttu hlut að máli í þeirri baráttu hefur síðan verið einstaklega gott og vingjarnlegt."
Fyrsta stjórnarmyndunin
Árið 1971 tapaði viðreisnarstjórnin meirihluta sínum og í kjölfar þess kom fyrst til kasta Kristjáns Eldjárns, sem forseta lýðveldisins, að eiga hlut að myndun ríkisstjórnar.
Hvernig gekk þessi frumraun þín?
Stjórnarmyndunin gekk fljótt miðað við þann tíma, sem stjórnarmyndanir hafa tekið upp á síðkastið. Þetta var merkileg reynsla fyrir mig og nýju ráðherrana líka held ég. Þeir voru að vísu flestir reyndir stjórnmálamenn, en aðeins tveir höfðu verið ráðherrar áður.
Árið 1974 er aftur kosið, en þá tóku stjórnarmyndunarviðræðurnar lengri tíma. Telur þú að þjóðhátíðin hafi skipt máli í því sambandi?
Hugsanlega hefur þjóðhátíðin skipt einhverju máli í því sambandi. Hún var stórfyrirtæki, miklu meira fyrirtæki, en menn höfðu ráð fyrr gert. Þjóðhátíðin hefur þó ekki skipt neinu meginmáli. Ég held að það hafi bara verið að koma á daginn, að það tekur yfirleitt býsna langan tíma, t.d. ekki minna en tvo mánuði, að mynda ríkisstjórn á Íslandi."
Hefur möguleikinn á utanþingsstjórn nokkurn tíma hvarflað að þér?
Fólk fer yfirleitt að tala um utanþingstjórnir þegar stjórnarmyndanir fara að dragast á langinn, en ég held að það sé varla í alvöru meint.
Vel má vera að síðast liðið haust hafi litlu munað að mynduð yrði utanþingsstjórn, en hún hefði aðeins setið í stuttan tíma."
Komu stjórnarslitin í haust þér eitthvað á óvart?
Já, ekki get ég neitað því."
Verður forseti persónulega var við ágreining innan ríkisstjórnar, t.d. eins og var í vinstri stjórninni sem sálaðist s.l. haust?
Nei. Á ríkisráðsfundum er ekki venja að nein veruleg orðaskipti eigi sér stað. Ráðherrarnir bera upp sín mál til undirritunar og þar kemur enginn ágreiningur fram."
Þjóðhöfðingjarnir, sem svo eru nefndir."
Hvernig hafa opinberu heimsóknirnar til útlanda lagst í þig?
Vel bara, enda þótt þær séu alltaf nokkuð stífar. Við hjónin höfum heimsótt öll Norðurlöndin og Belgíu á okkar ferli, auk hálf- eða óopinberra heimsókna til Kanada, Manar, og ýmissa erlendra háskóla. Háskólaheimsóknirnar bera nokkurn keim af opin berum heimsóknum og þegar maður er einn af þjóðhöfðingjunum sem svo eru nefndir, getur maður ekki víða farið án verndar frá yfirvöldunum.
Á Norðurlöndunum getur maður þó víðast farið frjáls ferða sinna, en annars staðar verður maður að ferðast á svolítið annan hátt en gengur og gerist. Ég segi þó ekki að maður sé höfuðsetinn, en í Kanada til dæmis, þegar við heimsóttum íslendingabyggðirnar á aldarafmæli landnámsins, þá fylgdu okkur kanadískir lögreglumenn og viku ekki frá okkur þann tíma sem við vorum í landinu. Sennilega hafa þeir verið vel vopnaðir innan klæða. Þetta vandist þó og þessir menn urðu ágætir kunningjar okkar."
Forsetinn til sýnis
Forsetastarfanum fylgja ýmsar kvaðir, móttaka sendiherra, ferðalög, opnun sýninga, veislur, o.þ.h. Er starfinn nokkuð annað en alhliða diplomatí?
Það er alveg rétt að forsetanum er boðið að verða viðstaddur við opnun ýmiskonar athafna, t.d. sýninga. Þá vill fólk oft hafa forsetann með, bæði vill það gleðja hann og veita öðrum þá ánægju að sjá forsetann. Um þetta er ekki nema gott að segja. Ég kemst þó ekki nema á hluta þeirra athafna sem mér er boðið á."
Er þetta þó ekki sú hliðin sem að almenningi snýr?
Jú það er rétt, en við höfum einnig móttöku á Bessastöðum og þangað koma þúsundir manna á ári hverju og það er ekki síst hin opinbera hlið. Þarna kynnist maður alls kyns fólki og kemst í snertingu við ólíka hagsmunahópa. Þarna getur maður reynt að blanda geði við fólk og kannski er maður þarna óformlegri og léttari en við aðrar athafnir.
Það má heldur ekki gleyma opinberu heimsóknunum út á land. Á minni tíð hef ég ferðast um talsverðan hluta landsins, Vesturland, Norðurland og Austurland. Annars verð ég að segja það, að ég gafst upp á þessum ferðum, aðallega vegna þess hversu ég dró þær mikið. Helst verður forseti að heimsækja allar byggðir landsins í upphafi setu sinnar á forsetastóli, ætli hann á annað borð að fara um allt landið."
Aldrei sumarfrí
Er forsetaembættið ekki frekar opið starf? Menn geta hitt þig hvenær sem þeim þóknast og fyrir stuttu birtust myndir í einu blaðanna af Steingrími Hermannssyni, þegar hann kemur að Bessastöðum til að taka við umboði til stjórnarmyndunar, og kona þín opnaði fyrir honum, þegar hann hringdi.
Þetta voru nú einhver mistök. Dyrnar voru læstar, sem þær áttu ekki að vera, svo að Steingrímur þurfti að hringja bjöllunni til þess að komast inn. Eitthvert blaðið gerði svo grín að þessu og sagði að Steingrímur hefði komið að læstum dyrum á Bessastöðum!"
Er forsetastarfið tímafrekt starf?
Stundum er mjög mikið að gera, en það er þó mismunandi. Ég hef t.d. aldrei tekið mér sumarfrí á meðan ég hef gegnt þessu embætti. Meðan ég var þjóðminjavörður tók ég mér ekki heldur frí síðustu árin, þannig að við vitum varla hvað sumarfrí er.
Nú, það koma fyrir rólegri tímar í starfinu og þá er yfirleitt nóg fyrir mig að gera í mínu fagi. Oftast er þó eitthvað um að vera, þó það sé ekki annað en undirbúningur undir móttökur, ferðir eða þá, að maður er að skrifa ræður fyrir ýmis tækifæri."
Flytur að Staðarstað
Hvað á forseti að sitja lengi á forsetastól? í nýársræðu þinni sagðir þú að tólf ár væri hæfilegur tími.
Víst sagði ég það, vegna þess að mér þykir heldur ólíklegt að forseti verði yfirleitt lengur en 12 ár í embættinu, en ég er ekki á þeirri skoðun að þetta ætti að vera föst regla. Menn geta verið skemur, jafnvel lengur. Einn forseti í Ísrael var prófessor í eðlisfræði. Hann sat einungis eitt kjörtímabil á þingi og hvarf þá aftur til háskóla síns og tók upp kennslu og rannsóknir á ný."
Munt þú flytja á Sóleyjargötuna?
Já, ég geri ráð fyrir því. Við keyptum þar húsið Staðarstað þar sem börn okkar búa núna."
Vinir sem ráðgjafar.
Þegar þú tókst við þessu embætti, þá varst þú mjög ókunnur þeim siðum og störfum sem fylgdu því. Hvert leitaðir þú í smiðju um ráðgjöf?
Það voru nú aðallega góðir vinir mínir úr embættismannastétt sem hafa aðstoðað mig, þegar mér hefur fundist ég þurfa að ráðgast við einhvern. Þessum mönnum treysti ég til að ráða mér heilt. Einnig hafa stjórnmálamenn verið mér innan handar."
Eftirminnilegir atburðir
Að lokum Kristján. Hvaða atburðir eru þér nú eftirminnilegastir frá þinni forsetatíð?
Það er nú af mörgu að taka. Stjórnarmyndanirnar hafa alltaf verið nokkuð sérstakar. Það er eftirminnilegt að sitja á tveimur ríkisráðsfundum sama daginn. Fyrst er það kveðjufundur með gömlu ráðherrunum og síðan fyrsti fundurinn með nýju ráðuneyti.
Utanlandsferðirnar eru nokkuð eftirminnilegar, ekki síst þær fyrstu. Nú það var ákaflega eftirminnilegt þegar Pompidou og Nixon komu hingað til lands á fund. Sá atburður var ævintýri líkastur, nokkurs konar uppákoma, hann varð með svo litlum fyrirvara.
Tveir sorglegir atburðir koma hér upp í huga minn. Tvisvar hef ég verið vakinn snemma morguns og mér tjáðar sorgarfréttir. í fyrra skiptið var mér tjáð að Bjarni Benediktsson, kona hans og dóttursonur hefðu látist í eldsvoða á Þingvöllum. Nokkrum árum síðar varð eldgosið á Heimaey.
Gleðistundir hafa sem betur fer verið margar. Ég held ég gleymi seint morgninum hinn 28. júlí 1974, þjóðhátíðardaginn. Ég held ég hafi aldrei fengið betra veður á Þingvöllum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:27 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir góða upprifjun á stórgóðu viðtali, sem sennilega er flestum gleymt. Kristján Eldjárn var dásamlegur forseti. Alþýðlegur og laus við alla yfirborðsmennsku. Talsverður munur að heyra spurningar fréttamanna til hans, fyrir kjör hans og undir lok ferils hans. Þéringarnar horfnar t.a.m. og allt yfirbragð samtala gerbreytt, frá því sem áður var. Embættið í þróun, eins og reyndar samfélagið allt, á þessum tíma, líkt og í dag. Forsetaembættið er sameiningartákn. Þjóðin skiptir sér ávallt í ólíkar fylkingar, þegar álitaefni koma upp. Sú persóna sem gegnir embætti Forseta Íslands hverju sinni, á að reyna að feta meðalveginn, en það er ekki alltaf auðvelt. Kristján Eldjárn stóð sína vakt með miklum sóma. Það gerði Vigdís Finnbogadóttir einnig, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni. Megi allar góðar vættir vaka yfir nýkjörnum forseta og fjölskyldu hans, á sinni vegferð, í embætti.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 30.6.2016 kl. 01:19
Þakka innlitið. Rétt hjá þér, á þessum árum voru þéringarnar þegar horfnar. Ráðamenn voru alþýðlegri og maður bar virðingu fyrir þeim eins og öðrum. Margt hefur hins vegar gjörbreyst og sumt til betri vegar. Tek undir með þér um forsetana.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.6.2016 kl. 01:22
Gott og mikið viðtal.Fróðlegt líka.
Valdimar Samúelsson, 30.6.2016 kl. 06:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.