Þjóðaratkvæðagreiðsla um gjörbreytingu á mannanafnalögum
17.6.2016 | 14:24
Ég er þeirrar skoðunar það sé æskilegt og mikilvægt að viðhalda íslenskri nafnahefð þannig að fólk kenni sig til föður eða móður. Hins vegar er ekki hægt að viðhalda þeirri hefð með lögum.
Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, í viðtali í Morgunblaði dagsins. Má vera að það sé rétt hjá honum. Guðrún Kvaran, formaður íslenskrar málnefndar, er hins vegar á öndverðu meiði. Hún segir:
Ég held að það sé alltaf mikið tap þegar við missum einhvern ákveðinn þátt úr tungumálinu því ég lít á bæði eiginnöfn og nafnakerfi sem hluta tungumálsins. Ef þessi venja, að kenna sig til föður eða móður leggst af, eða verður mjög lítil, þá tel ég þetta mikinn skaða fyrir þjóðfélagið.
Halda má að hér vegist á tvö sjónarmið; algjört frelsi og takmörkun á frelsi. Þó ber á það að líta hvað um er rætt. Þetta er tungumál þjóðarinnar, notkun þess, hefðin og framtíðin. Eru þessir þættir best varðveittir í lögum? Á mót kemur að tungumálið er notað af þjóðinni. spurningin er ekki hvort að þjóðinni sé treystandi heldur hvernig á að viðhalda málinu.
Ef til vill er samanburður við einfaldar reglur í stærðfræði ekki réttlátur. Þar er engu að síðar 2+2=4. Enginn afsláttur ef gefinn af því. Íslenskan er erfið, ungu fólki þykir hún leiðinleg og það fylgir mörgu langt fram á fullorðinsár. Málfræðin byggist hins vegar á ákveðnum reglum. Hvaða afleiðingar kann það að hafa verði reglurnar að hluta til afnumdar?
Þjóðin þarf að svara þessari spurningu sem og hvort hún vilji leyfa algjört frjálsræði með mannanöfn. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að í fyrrasumar hafi 60% svarenda í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar viljað að reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar.
Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt væri nú afar viðeigandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu innanríkisráðuneytisins um breytingar á mannanafnalögum. Þessa atkvæðagreiðslu má alveg halda með alþingiskosningum í haust.
Auðvitað er fátt eins vel fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu en það sem snertir á þennan hátt menningu og arfleið þjóðarinnar.
Svo er það allt annað mál að rýmkun á lögum um mannanöfn er allt annað en gjörbreyting á þeim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Lög um mannanöfn voru fyrst samþykkt á Alþingi árið 1914. Fram að því voru engin lög um mannanöfn. Íslenska þjóðin þraukaði í heil 1040 ár án tilsagnar ríkisvaldsins um hvað fólk mætti heita. Lög um mannanöfn eru óþörf. Það er engin ástæða að ríkisvaldið stjórni því hvað fólk heitir.
Hilmar Bjarnason (IP-tala skráð) 17.6.2016 kl. 20:12
Án þess að hafa fyrir því hreinar sannanir, held ég að á undanförnum árum og misserum, hafa foreldrar í auknum mæli látið skíra börn sín nöfnum sem auðveldara er fyrir útlendinga að bera fram.Sama gildir um fyrirtæki af öllum toga.Kannski hverfa íslensku mannanöfnin sem eru með séríslensku stafina áður en langt um líður.Væri ekki betra að nöfnin væri með skandinavískri stafsetningu en að þau hyrfu úr málinu ? Styð hugmynd um þjóðaratkvæði um breytingu á mannanafnalögum Sigurdur.
Sigurður Ingólfsson, 17.6.2016 kl. 20:42
Kjarni málsins er að stjórnvöld eiga ekki að hafa afskipti af nafnagiftum. Þetta er einkamál fólks. Ríkisvaldið hefur nóg afskipti nú þegar af málum einstaklinga. Auk þess má velta fyrir sér hvers vegna að hafa mannanafnanefnd sem leyfir nöfn eins og Ugluspegill, Grankell, Kópur, Gytta, Ísmey, Skuld og Skefill?
Hilmar Bjarnason (IP-tala skráð) 18.6.2016 kl. 11:25
Þessi lög eru algerlega óþörf og það er tímasóun að láta greiða þjóðaratkvæði um afnám þeirra. Fólk skýrir ekki börn sín fáránlegum nöfnum þótt lögin verði afnumin. Þeir sem hafa slíkt í hyggju gera það nú þegar, með stuðningi nefndarinnar, eins og Hilmar bendir á.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.6.2016 kl. 12:39
Sennilega er það helst tvítekningin í föður/móðurnöfnum sem má breyta; afleggja viðhengið -sonur og -dóttir þegar eignarfallið eitt dugir.
Sjálf nota ég einfaldari útgáfuna af nafni mínu hér á blog.is :)
Kolbrún Hilmars, 18.6.2016 kl. 14:23
Að auki bendi ég á málfræðivilluna "Sigurðar-son" sem hefur fengið að viðgangast. Auðvitað ætti föðurnafn þitt, Sigurður, að vera "Sigurðar-sonur"!
Kolbrún Hilmars, 18.6.2016 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.