Fiskveiðikvótinn er aukinn og 8% þjóðarinnar fer á EM

Tvær fréttir í Morgunblaði dagsins vöktu athygli mína. Önnur fjallar um EM í fótbolta og hin um fiskveiðar. Ástæða er til að setja þær í samhengi.

Sagt er frá því að hrygningarstærð þorsks hafi ekki verið stærri í fjörutíu ár og þar af leiðandi er kvótinn aukinn um fimm þúsund tonn. Í fréttinni segir:

Er ráðgjöfin lá fyrir í gær áætlaði SFS að tekjuaukning af auknum veiðiheimildum umfram samdrátt gæti numið tæpum milljarði króna. Mestu munar um aukningu í þorski, sem gæti skilað um tveimur milljörðum, en einnig er aukning í ráðgjöf fyrir karfa og grálúðu.

Þetta er þó sýnd veið en ekki gefin, bókstaflega sagt. Enn er eftir er að veiða fiskinn, gera að honum, vinna hann, pakka, selja og flytja út. Loks þegr greiðslan kemur fara peningarnir í hringrás í þjóðfélaginu. Greidd eru laun, rafmagn, sími, fatnaður, umbúðir, olía og fleira og fleira. Og arður er greiddur.

Á sama tíma leggjast Íslendingar í ferðalög. Á forsíðu Morgunblaðsins kemur fram að um 8% þjóðarinnar sé á leið til Frakklands að fylgjast með landsliðinu í leikjum sínum. Í fréttinni segir:

Talið er að Íslendingar muni á keppnisstað eyða 5-6 milljörðum króna. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, segir að samkvæmt UEFA muni hver stuðningsmaður sem sækir Frakkland heim eyða að meðaltali 93 þúsund krónum.

Við höldum uppi góðu samfélagi hér á landi og þess vegna getum við ferðast út um allan heim og notið flest þess sem lífið býður upp á - svo fremi sem við eigum peninga til eyðslunnar. Þess vegna er ekki úr vegi að íhuga eitt augnablik hvers vegna við eigum yfirleitt kost á þessu.

Ástæðan er einfaldlega sú að þjóðin aflar tekna með því að selja vöru og þjónustu til útlanda. Á móti fáum við gjaldeyri sem nýtist til að greiða laun og annan kostnað við rekstur fyrirtækja. Af honum og launum fólks er greiddur skattur sem nýtist til rekstrar ríkisins; greitt laun, rekið skóla, sjúkrahús og fleira og fleira.

Fólk getur endalaust deilt um íslenskt þjóðfélag, hvort við eigum að ganga í ESB, hverjir eigi að fara á þing, hvaða flokkar eigi að mynda ríkisstjórn eða hver eigi að vera forseti þjóðarinnar. Við getum líka haft margvíslegar skoðanir á krónunni og hvort við eigum að taka upp annan gjaldmiðil.

Þegar upp er staðið lifir þessi þjóð á því að selja meira til útlanda en hún kaupir þaðan. Við getum ekki einu sinni sent fótboltalið í keppni nema við höldum uppi öflugu atvinnulífi. Þar styður hvað við annað og þess vegna getum við haldið uppi góðu og metnaðarfullu samfélagi sem gott er að búa í og njóta.

Höfum þetta hugfast og sættum okkur ekki við það þegar hin neikvæðu öfl reyna með öllum ráðum að tala Ísland niður.

 


mbl.is 8% þjóðarinnar á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband