Sumir segja að Icesave málið skipti engu en ...
8.6.2016 | 09:58
Svavars-samningarnir hefðu reynst Íslendingum dýrkeyptir. Sjö ára skjólinu, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði svo mikla áherslu á, hefði lokið síðastliðinn sunnudag - 5. júní. Skuld ríkissjóðs - íslenskra skattgreiðenda - hefði numið 208 milljörðum króna eða 8,8% af áætlaðri landsframleiðslu. Þetta jafngildir að hver fjögurra manna fjölskylda hefði skuldað 2,5 milljónir króna vegna samninga, sem áttu sér enga lagastoð.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður í ágætri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni er farið yfir sögu Svavars-samninganna og ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Upp á síðkastið hefur borið á því að margir fullyrði að Icesave sé liðið og það skipti ekki lengur neinu máli. Þetta er auðvitað blygðunarlaus tilraun til að endurskrifa söguna, nema verið sé að verja einhvern forsetaframbjóðanda fyrir vandræðalegum ummælum um Icesave.
Jú, auðvitað skiptir Icesave máli. Staðreyndin er sú að fjöldi fræðimanna hvötti til þess að þjóðin samþykkti Icesave, að hún tæki á sig skuldir óreiðumanna, annars væri voðinn vís. Sem betur fer tók þjóðin ekki mark á þessu liði og hafnaði samningunum. Margir þeirra eru nú á harðahlaupum frá sínum fyrri skoðunum og reyna að gera sem minnst úr þeim. Að því leyti virðist Icesave vera enn ferskt og langt frá því að gleymast.
Óli Björn segir í grein sinni:
Í janúar 2013 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að engin ríkisábyrgð væri á Icesave-skuldum Landsbankans.
Auðvitað skiptu Icesave samningarnir gríðarlegu máli. Þeir eru hluti af stjórnmálum síðustu ára, rétt eins og sjálft hrunið, og staðreyndin að þjóðin hafi hafnað þeim í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslu mun uppi meðan land byggist. Það varð ekkert svokallað hrun né heldur svokallað Icesave þó margir vilji líta svo á. Icesave samningarnir voru einfaldlega ógn við fjárhagslegt sjálfstæði landsins.
Hrakfarir ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslum vegna þessara vondu samninga höfðu þó engin áhrif á hana, hún sagði ekki af sér. Hins vegar má leiða líkum að því að hún hafi dáið þarna enda bar hún eiginlega aldrei sitt barr síðan þótt hún hafi að forminu séð enst til loka kjörtímabilsins.
í lok greinarinnar segir Óli Björn:
Steingrímur J. Sigfússon hefur aldrei skýrt ástæðu sinnaskipta sinna gagnvart ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans. Ekki frekar en ráðherrar og þingmenn norrænu ríkisstjórnarinnar sem þegja þunnu hljóði um hvað fólst í baktjaldasamkomulagi stjórnarflokkanna um ESB, en liðlega mánuði eftir að Svavars-samningarnir voru undirritaðir var samþykkt að sækja um aðild Íslands að sambandinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Fávís lýðurinn" hafði vit fyrir fávísum stjórnmála- og fræðimönnum. Þakka má forseta vorum fyrir tækifærið sem okkur "fávísum" var veitt til að leiðrétta "fræðimennina" og hafa vit fyrir þeim.
Tómas Ibsen Halldórsson, 8.6.2016 kl. 15:15
Tek undir þessi ágætu orð samherja míns, Tómasar, og þakka þér, Sigurður, snjallan pistilinn, að ógleymdum hinum málsnjalla Óla Birni Kárasyni.
Jón Valur Jensson, 8.6.2016 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.