Skítadreifarinn í vinnu en skynsemin í fríi

Sumt fólk er þannig innréttað að það leggst hart gegn ómálefnalegri umræðu annarra en stundar hana engu að síður eins og það fái borgað fyrir. Má vera að svo sé.

Stutt er í kosningar, framboðsfrestur runnin út og því ekkert til fyrirstöðu að fara með skítadreifarana út og bera á. Hópur alzheimerssjúklinga starfa sem sjálfboðaliðar á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar [...]

Þeir voru í óða önn við að dreifa athyglinni frá því hve oft Davíð hefur gert í buxurnar með því að henda skít í alla aðra þegar ljósmyndara fréttastofu bar að garði nú í morgun.

Svona er viðhorf Kvennablaðsins, sjá hér. Auðvitað er þetta andstyggilegur áróður og lýsir þeim sem ritar meir og betur en þeim sem um er rætt.

Að baki álíka skrifum stendur klókt fólk sem veit nákvæmlega hvað það er að gera. Markmiðið er eins og fyrr að hamra stöðugt á því sama, að Davíð Oddsson sé óalandi og óferjandi. Áróðursbrögð af þessu tagi eru ekki ný hér á landi, þau þekkjast víða um lönd og reynst vel við mannorðsmorð.

„Afþvíbara“

Mannlegt eðli er ábyggilega talsvert brogað. Víða í samfélögum út um allan heim á fólk erfitt, ekki vegna eigin gerða eða aðgerðaleysis, heldur vegna annarra. 

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Þegar andstaða byggist ekki á góðum og skýrum forsendum og er endurtekin í sífellu er hún oftast nefnd einelti, og þannig var hún eitt sinn skilgreind. 

Áróður án málefnalegra forsendna gerir þá kröfu að allir taki afstöðu og það nægir yfirleitt að enginn sé til varna. Þannig er það á skólalóðinni þegar stóri sterki strákurinn lemur þann litla eða á samfélagsvefnum þar sem leitast er við að ata einhvern óhróðri. Oftar en ekki er ástæðan fyrir eineltinu „afþvíbara“.

Verstir allra eru þeir sem standa hjá og gera ekkert, meirihutinn sem horfir á andstyggðina en tekur ekki þátt. Í því er fólgin afstaða.

Engu að síður seytlast áróðurinn inn, jafnvel í gott og vandað fólk. Ástæðan er einföld. Fæstir leggja það á sig að grafast fyrir um sannleikann, falla frekar fyrir hálfsagðri vísu eða óhróðri af því að það er svo fyrirhafnarlítið. Þannig fær hálfsannleikurinn eða jafnvel lygin stöðuhækkun og verður óhrekjanlegur sannleikur.

„Fyrirsagnahausar“

Má vera að margir séu „fyrirsagnahausar“, fólk sem lætur sér nægja að lesa fyrirsagnir fjölmiðla eða hlusta á ágrip frétta. Þannig fæst auðvitað aldrei rétt mynd af neinu máli. Engu að síður virðist allt vera svo kunnuglegt, nánast þannig að sannleikurinn sé viðkomandi ljós.

Í grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Einbirni sögð lifa lengur“ segir: 

“Þeir ein­stak­ling­ar sem koma úr stór­um fjöl­skyld­um eign­ast færri börn og lifa skem­ur en þeir sem koma úr litl­um fjöl­skyld­um.“

Sá sem les fyrirsögnina og stutt ágrip af henni á mbl.is og sér vísað til Íslenskrar erfðagreiningar er sannfærður. Síðan kemur í ljós að fréttin er byggð á vafasömu forsendum en „fyrirsagnahausinn“ lætur sér það eflaust litlu skipta. Þetta er nógu sennilegt til að vera satt.

Skynseminni hleypt í frí

„Ef við kjósum Davíð Oddsson forseta Íslands“, segir í fyrirsögn á vefritinu stundin.is. Í greininni eru talin upp tólf atriði sem eiga að vera rök gegn því að kjósa manninn. Þar stendur þetta án nokkurs fyrirvara:

Við munum hafa kosið mann sem tímaritið Time taldi upp sem einn af 25 mönnum sem báru mesta ábyrgð á efnahagskreppunni 2008.

Þó höfundurinn beiti fyrir sig tímaritinu Time verður fullyrðingin ekki sannari enda kunnugt að svo ákaflega auðvelt er að ljúga með heimildum. Önnur atriði í greininni eru álíka sannfærandi og raunar erfitt fyrir lesandann að átta sig leyfi hann sér það yfirleitt. Sumum finnst nefnilega betra að gera eins og þeir sem horfa upp á atvikið á skólalóðinni, láta það bara afskiptalaust. Aðrir gefa skynsemi sinni leyfi til fjarvistar og leggja trúnað á óhróðurinn.

Stórmannlegra er hins vegar að skora eigin skynsemi á hólm og afla sér upplýsinga. Vandamálið er að við ofurefli er stundum að etja sem er stöðugur áróður. Hann birtist ekki aðeins í stríðsfyrirsögnum vafasamra vefrita, heldur hálfsannleikurinn, kvartsannleikurinn og skrökvið sem birtist svo víða. Verst af öllu er þó misnotkunin, fjölmiðill sem þykist vera trúverðugur en er ekkert annað en endurómur einkaskoðana þeirra sem skrifa í hann.

Skítadreifari um skítadreifara um ...

Má vera að rökræða byggist á því að nálgast sannleika eða besta hugsanlega niðurstöðu í hverju máli. Hún stendur hins vegar ekki undir nafni þegar óhróðri, hálfsannleika og lygum er beitt. 

Vandamálið er skítadreifarinn sem notaður er vegna meintrar notkunar annarra á skítadreifara. Þá verður niðurstaðan aldrei önnur en sú að jafnt lag af mykju leggst á umhverfið og óþefurinn veldur samfélaginu miklum vanda.

Lygar og óhróður gengisfellur umræðuna og hún hrapar niður á vafasamt plan, rökræðan gufar upp og krafan um málefnalega afstöðu hverfur. Þannig er verið að réttlæta ranglætið, gefa afslátt af sannleikanum til að koma höggi á mann, málefni eða hópa. Þetta getur aldrei gengið upp til lengdar og má í raun sjá víðar en í aðdraganda forsetakosninga. 

Verst af öllu er þó að sjá gott og heiðarlegt fólk tapa skynseminni og skokka með skítadreifaranum. Það getur ekki verið neinum manni holl lífsstefna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þeir sem þykjast þekkja til stjórnmála sögðu fljótlega að Davíð kynni þá list að láta allt snúast um sig, að kosningabaráttan færi fram á hans forsendum. Þegar umfjöllun um kosningabaráttuna er skoðuð, má sjá að andstæðingar hans hafa spilað svo gjörsamlega upp í hendurnar á honum að það er ekki fyndið.  

Þarna eru ekki á ferðinni varfærin eða lymskuleg skot á pólitískan andstæðing, heldur sleppa menn gjörsamlega fram af sér beislinu og ausa froðufellandi úr sér skammaræðunum (Björn Þorláksson og Jóhann Hauksson).

Dettur einhverjum í hug púkinn á fjósbitanum?

Flosi Kristjánsson, 25.5.2016 kl. 16:31

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

"Að baki álíka skrifum stendur klókt fólk sem veit nákvæmlega hvað það er að gera. Markmiðið er eins og fyrr að hamra stöðugt á því sama, að Davíð Oddsson sé óalandi og óferjandi. Áróðursbrögð af þessu tagi eru ekki ný hér á landi, þau þekkjast víða um lönd og reynst vel við mannorðsmorð".

Sigurður minn ég  hef oft dáðst að skrifum þínum, en nú bregður svo við að ég er að uppgötva að að þú ert því miður fastur í hjólförum, sem þú virðist ekki komast upp úr.  

Þessi setning þin sem ég kvóta í, er nefnilega ær og kýr leiðtoga lífs þíns.  Þessi maður hefur hingað til svífst enskis til að ná sínu fram.  Og þó það sé bara brot af því sannleikur sem kemur fram í Stundinni af manni sem fór á fund til að styðja fraomboð Davíðs og komst að því að þar var bara plott um að fá sjálfboðaliða til að leita og finna eitthvað neikvætt um foringjann og svara því, er nákvæmlega það sem þessi maður gerði þegar Sverrir Hermannson gengdi honum ekki þegar hann var bankastjóri Landsbankann.  Við leitum að einhverju á hann, sagði foringinn og við munum finna það.  Og þú tekur þátt í svona undirróðurstarfssemi. Mér þykir það leitt en hélt að þú væri betri pappír en þetta. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.5.2016 kl. 18:00

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir innlitið, Ásthildur.

Best að taka það fram hér í upphafi að ég tel mig hafa þokkalegt vit til að skilja og draga ályktanir og ekki síður að túlka það sem ég tel réttast. Þarf ekki þína hjálp í því Ég reyni hvað ég get til að vera málefnalegur og vega ekki persónulega að öðrum. Sömu kröfur á raunar að gera til allra sem tjá sig, jafnvel þó þeir séu „virkir í athugasemdum“ á sorpmiðlum eins og þú.

Alltaf skal ég þó verða fyrir vonbrigðum þegar sneitt er að mér persónulega fyrir skoðanir mínar. Það gerist nú sem betur fer ekki oft. Yfirleitt sýnir fólk mér þá háttvísi að gagnrýna það sem ég segi og er ekkert við það að athuga.

Tilgangurinn með pistlinum mínum er fyrst og fremst að benda á hina ljótu og andstyggilegu orðræðu sem margir telja nú orðið vera svo ósköp eðlilega. Nú er svo komið að andstyggilegheitin eru orðið viðtekin venja og skítadreifarinn óspart notaður til að koma höggi á aðra. Nú þykir sumum hallærislegt að vera málefnalegur og hálfsannleikurinn hefur fengið langþráða stöðuhækkun.

Verst þykir mér að sjá fólk sem ég tel skynsamt tapa skynseminni og skokka með skítadreifaranum. Þeir sem það gera lenda óhjákvæmilega sjálfir í mykjunni og skiptir engu hver málstaður þeirra er. 

Allra verst er þó sú tilhneiging hjá þér og mörgum öðrum að ráðst með ónotum að þeim sem eru ekki á sömu skoðun. Greinilegt er að ætlunin er að þagga niður í þannig fólki.

Ég bið hvorki þig né aðra afsökunar á stuðningi mínum við mann sem ég tel heiðarlegan og réttlátann. Um leið flögrar ekki að mér að vega persónulega að þeim sem eru ekki á sömu skoðun. Þar skilur á milli mín og þín. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.5.2016 kl. 21:08

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir góð skrif, Sigurður.

Ásthildur, ég segi það sama um þessa athugasemd þína og þú segir um skrif Sigurðar. Ég er einn af þínum aðdáendum á bloggíðum mbl.is og les hvert einasta blogg sem þú sendir frá þér, oftast af mikilli ánægju.

Því kemur mér á óvart að þú skulir í raun sanna skrif Sigurðar, í athugsemdadálki hans.

Þú segir að DO hafi svifist einskis til að ná sínu fram. Þetta er stór fullyrðing, sérstaklega þegar þessi maður hefur ætíð komist til valda gegnum löglegar og heiðarlegar kosningar og oftast með fylgi að baki sér sem fáir aðrir stjórnmálamenn geta státað sig af. Eina undantekningin er þegar hann var settur bankastjóri Seðlabankans, en sú ráðgerð var þó í fullu samræmi við þau gildi sem réðu þeirri stöðuveitingu á þeim tíma og langan tíma þar fyrir framan. Menn geta síðan deilt um hvort þau gildi hafi verið happasæl, en þar er vart við DO að sakast.

Um samskipti DO við Sverrir Hermannson, þáverandi bankastjóra Landsbankans, þá ættir þú að muna út á hvað þau gengu. Fyrir það fyrsta fékk SH stól bankastjóra út á sömu gildi og DO fékk stól Seðlabankastjóra, en það kemur auðvitað ekki við ágreining þeim sem varð milli þeirra. Sá ágreiningur stafaði af vafasömum veiðitúrum sem SH stundaði í Hrútafjarðará á kostnað bankans. Þetta þótti DO vera full langt gengið og ekki undarlegt. Þetta ofbauð flestu rétthugsandi fólki á þeim tíma.

Nú er það svo að ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi eða áhangandi DO, kaus hann aldrei né hans flokk meðan hann var þar í forsvari. Ekki hef ég gert upp við mig hver fær mitt atkvæði í forsetakosningunum, a.m.k. fer það ekki til Guðna. Kannski skila ég auðu.

Engu að síður vil ég að allir njóti sannmælis og það skítkast, hálfsannleikur og bein lygi, sem andstæðingar DO viðhafa um þessar mundir, ekki síst þeir sem hafa tögl og haldir innan fjölmiðlaklíkunnar, er farinn að trufla mig verulega. Fólk undrast á að einelti skuli þrífast í skólum og á vinnustöðum. Hvernig má annað vera þegar fjölmiðlar haga sér á þennan hátt og mættasta fólk tekur undir, jafnvel þingmenn?!

Hvern dag sem maður þarf að hlusta á þessar svívirðingar og lygar, færist maður nær því að afhenda DO sitt atkvæði í kosningum til forsetans.

Gunnar Heiðarsson, 25.5.2016 kl. 21:15

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir Gunnar. Fjölmörgum misbýður orðræðan í dag. Þakka þér fyrir staðfestinguna og falleg orð í minn garð. Ég hef svo sem ekki þykkan skráp og er því þakklátur þegar gott fólk tekur undir það sem ég skrifa.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.5.2016 kl. 21:26

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mínir ágætu okkur greinir á og það er allt í lagi.  En skítkast er stundum oftúlkar sems slíkt þegar fólk er að benda á óþægilega staðreyndir.  Ég hef ýmsat upplýsingar um fyrrverandi forsætisráðherra út innsta kjarna sjálfstæðisflokksins til dæmis frá fólki sem fór einmitt vegna hans.  

Það eru ekki svívirðingar að benda á það sem þessi annar örugglega ágæti maður hefur staðið fyrir.  Og ég hef persónulega vitneskju um hvernig hann bolaði Sverri út úr Landsbankanum, þau skjöl voru og eru örugglega til.  Það verður einhverntíman upplýst um þau og annað í þeim dúr.  

Það sem ég er að benda á að við þurfum öll að vega og meta það sem okkur er sagt.  Vega og meta hvað er rétt og hvað ekki. 

Mér finnset nefnilega þið báðir tveir hafi sýnt einmitt það, en þegar kamur að þessum einstakling, er eins og allt sofni og þið haldið að ekkert sé rétt af því sem sagt er.  Það veldur mér svo sannarlega vonbrigðum. Eða er það ykkar innsta sannfæring að Davíð Oddsson sér einstakt ljúfmenni og hafi aldrei gert neitt rangt á sínum glæsilega ferli?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.5.2016 kl. 22:12

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ásthildur. Okkur greinir ekkert á annað en það að þú ert gott dæmi um það sem ég vara við.

Má vera að þú hafir eitthvað á Davíð Oddsson, það eru þín orð. Leggðu það bara fram og hættu að vera með hálfkveðnar vísur eins og þær séu stórisannleikur. Ef þú gerir það ekki þá ertu einfaldlega ómerkingur orða þinna.

Hér á undan reynir þú að gera lítið úr mér vegna skoðana minna. Finnst þér það réttlætanlegt?

Þú hefur greinilega ekki skilið pistilinn minn, kýst að halda áfram í þeim dúr sem ég var að gagnrýna. Fyrst svo er það varla ómaksins vert að eyða orðum í að svara.

Davíð Oddsson hefur ábygglega gert mörg mistök á glæsilegum ferli sínum, sama er með Sverri Hermannsson og marga fleiri. Það réttlætir ekki þá ruddalegu orðræðu sem pistillinn fjalla um.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.5.2016 kl. 22:28

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nei égætla ekki að leggja neitt fram, ágæti Sigurður, en ég hélt að það væri málfrelsi.  Ég met bloggvináttu þína meira en að skemma hana með því að segja hvað mér finnst um idolið þítt.  Eigðu góðan dag. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.5.2016 kl. 09:05

9 identicon

en að skemma hana með því að segja hvað mér finnst um idolið þítt

Svona setningar eru eitt einkenna rökþrots. Ef þú ert ekki sammála mér um hvað hann er vondur er hann átrúnaðargoð þitt og þar með ert þú fífl annars vegar af því að þú átt átrúnaðargoð og hins vegar af því að það er hann sem er svona vondur.

(rétt að taka fram að ég mun ekki kjósa DO)

Davíð hefur hins vegar að baki óvenju árangursríkan feril sem stjórnmálamaður. Fyrir það er hann litinn hornauga af þeim sem áttu þar af leiðandi ekki eins árangursríkan feril sem og þeim sem hafa sterkar pólitískar skoðanir aðrar en hann. Stundum gengur þetta svo langt að um er að ræða fullkomið hatur.

Um feril hans sem Borgarstjóra, Forsætisráðherra, Seðlabankastjóra og flokksformann (og örugglega eitthvað fleira) má hins vegar rökræða og kemur þá til að hann eins og aðrir gerði sumt vel en annað illa og svo hafa menn líka mismundandi skoðanir á því hvernig best er að gera hlutina (pólitískar skoðanir). Sú umræða gengur hins vegar oft erfiðlega vegna tilfinninganna sem áður eru nefndar.

Og svo enn önnur umræða hvort hann yrði góður forseti eða betri eða verri en einhverjir aðrir.

ls (IP-tala skráð) 26.5.2016 kl. 10:23

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Er fyllilega sammála þessu.

Hins vegar finnst mér óþægilegt að fá gesti sem skrifa ekki undir nafni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2016 kl. 11:10

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Segjum tvö Sigurður smile En ef til vill hefði ég átt að orða þetta betur, viðurkenni það.  En maður á alltaf að tala kring um sannleikann ekki segja hann beint.  Þar verður mér sem vestfirðingi oft fótaskortur á tungunni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.5.2016 kl. 11:15

12 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég vona að það sé ekki álit þeirra sem lesa pistlana mína að ég komist illa að kjarna máls. Reyni yfirleitt að tala beint út hafi ég á annað borð eitthvað að segja. Annars er betra að þegja. Þetta er nú ástæðan fyrir því að pistlarnir eru frekar langir.

Ég ber mikla virðingu fyrir hreinskilni þinni, Ásthildur, en stundum finnst mér þú missa fótfestuna og fara í fótspor þeirra sem skilgreindir eru sem „virkir í athugasemdum“. Það er ekki farsælt hvorki fyrir Vestfirðing né Reykvíking.

Ein regla í skrifum hefur reynst mér vel. Hún er svona: Hvernig myndi ég tjámig ef vinur eða náinn ættingi ætti hlut að því máli sem um er rætt?

Að sjálfsögðu myndi ég stilla orðum mínum í hóf ef svo væri. Um leið á það ekki að bitna á Steingrími J. Sigfússyni (svo dæmi sé tekið) að hann er hvorki vinur minn né ættingi eða tengdur. Þar með ber mér að sýna honum sömu virðingu og kurteisi og væri hann vinur, annars er væri ég að mismuna fólki. Auðvitað takmarkar þessi regla skrifin, en væntanlega til hins betra.

Pistillinn hér að ofan er skrifaður í þessu ljósi. Þar að auki er ekki hægt að rökræða eða bara spjalla um menn og málefni ef fúkyrðin eru ráðandi. Svo er það einföld staðreynd að flest fólk er gott fólk, skiptir litlu hvaða skoðanir það hefur. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2016 kl. 11:36

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

"Stutt er í kosningar, framboðsfrestur runnin út og því ekkert til fyrirstöðu að fara með skítadreifarana út og bera á. Hópur alzheimerssjúklinga starfa sem sjálfboðaliðar á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar [...]

Þeir voru í óða önn við að dreifa athyglinni frá því hve oft Davíð hefur gert í buxurnar með því að henda skít í alla aðra þegar ljósmyndara fréttastofu bar að garði nú í morgun."

Held ekki að þú hafir séð svona tal frá mér Sigurður.  Og ekki er það til sóma, en ef rýnt er í inntakið, þá markast þetta af þeim upplýsingum sem hafa borist af sjálfboðaliðum Davíðs, þar sem greinilega kom fram frá manni sem var á staðnum að þar er her manna sem hvattir eru til að fylgjast með umræðunni og leggja inn orð ef mönnum finnst hallað á Davíð.  Þetta er gamalt trix úr ykkar herbúðum, sem mér finnst reyndar ekki til sóma.  En gæti ef laust átt rétt á sér sérstaklega þegar orðalagið er notað á þennann hátt.  

Ég er reyndar líka algjörlega sammála því að svona orðaforði skilar nákvæmlega engu öðru en neikvæðum viðbrögðum.  Enda erum við oftast sammála um hluti, þó okkur greini á um gæði Davíðs.  En sem betur fer erum við ólík með ólíkar skoðanir sem betur fer.  því eins og kerlingin sagði, ekki er gaman að guðsplöllunum enginn er  í þeim bardaginn.  Eigðu góðan dag.  smile

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.5.2016 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband