Við þurfum að takmarka fjölda ferðamanna

Lítil þjóð sem ekki einu sinni hefur innviðina í lagi á ekkert með að taka á móti ferðamönnum sem eru fimm sinnum fleiri en heimamenn. Þetta er einföld staðreynd.

Hingað til lands eru fluttir þúsundir útlendinga til að vinna þau störf sem Íslendingar líta vart við vegna þess hversu illa þau eru borguð. Þetta eru störf á hótelum og veitingahúsum, þrif, uppvask og annað álíka. Oftar en ekki er launin smánarleg og samkvæmt fréttum fylgja þau ekki kjarasamningum og eru því ólögleg og ekkert annað en þrælahald.

Ferðamannastraumurinn er að færast fyrr og fram eftir ágúst er á mörgum stöðum orðið fullbókað. Þetta gerir það að verkum að á öðrum stöðum er laust en þau pláss nýtast ekki því komnir eru flöskuhálsar á mest sóttu stöðunum.

Þetta segir Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða, á forsíðu Fréttablaðs dagsins. Hann hefur rétt fyrir sér.

Í stuttu máli er staðan sú að útlendingum er mokað inn í landið en ekki er hægt að ala önn fyrir þeim vegna þess að húsnæði og aðra aðstöðu vantar, til dæmis á Suðurlandi. Með rökum má segja að landið sé einfaldlega uppselt á háannatímum.

Vegir landsins þola orðið ekki þá umferð sem er á þeim. Þeir eru fljótandi, eins og sagt er, síga og rísa víða eftir árstíðum. Hringvegurinn er einfaldur, ein akrein í hvora átt og ekki sem skilur á milli. Þetta fyrirkomulag býður hættunni heim, svo einfalt er það.

Náttúran á helstu ferðamannastöðum er farin að láta á sjá. Víða eru of margir á sama tíma og upplifun hvers og eins er þeim mun minni og lakari. Átroðningur eykst, göngustígar eru troðnir niður og nýir myndast. Rof verður í jarðveg og skemmdir hafa orðið og þær aukast smám saman.

Vinsælar gönguleiðir eru ofsetnar eins og leiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur, Laugavegurinn. Tilheyrandi átroðningur og skemmdir fylgja. 

Ökuleiðir á hálendinu fyllast af slyddujeppum, ferðafólk fer sér að voða í ám og fljótum. 

Við sem erum utan við ferðaþjónustuna sjáum að við svo búið má ekki standa. Koma verður böndum á gullgrafaraæðið, gera atvinnugreinina ábyrga fyrir því sem hún er að gera sem og nýtingu á landsins gæðum sem hún nýtir án endurgjalds.

Einfaldasta leiðin til að takmarka komu útlendinga til landsins er komugjald. Það ætti að vera 200 til 300 dollarar á mann. Ein og hálf milljón ferðamanna er meira en þjóðin ræður við. Hin lausnin er að flytja inn fólk í stórum stíl til að vinna störfin. Sumum finnst það í lagi og benda á að það hafi verið gert víða um lönd. Vandinn er hins vegar sá að við erum fámenn, miklu fámennari en öll viðmiðunarlönd.

Ég hef hingað til verið á móti takmörkunum í ferðaþjónustu og skattleysi hennar umfram aðrar atvinnugreinar. Það þurfum við hins vegar að taka til gagngerrar athugunar. Of mikið er í húfi. Heilt land og náttúra þess. Við erum komin að þolmörkum, þjóðin getur ekki tekið á móti fleiri ferðamönnum.

 


mbl.is 47% tilbúnir að greiða komugjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband