Úreltar málamyndaviðgerðir á malbiksholum
10.5.2016 | 15:05
Þá hef ég spurnir af því, að borgin hafi um árabil látið í sparnaðarskyni leggja út mjög þunnt malbik á göturnar, sem vitaskuld bitnar á endingunni. Heyrst hefur líka að þunna malbikið skapi vandamál þegar kemur að heilfræsingu gatna með stórvirkum vélum leigðum að utan.
Þetta skrifar Björn Ólafur Hallgrímsson, lögfræðingur, í grein í Morgunblaði dagsins. Fyrr í vor var mikið fjallað um slæmt ástanda á gatnakerfi höfuðborgarinnar í fjölmiðlum.
Björn Ólafur bendir á að borgin hafi merkt víða holur á götum. Hann segir af því tilefni:
Merkingarnar sýna að borgin hyggst enn ráðast í stagbætingu ónýtra gatna fremur en að leggja yfir þær nýtt malbik. Vænta má þess að borgin láti enn um sinn nota við holuviðgerðir löngu úreltar aðferðir sem endast í 1-2 ár í stað þess að fá til þess verktaka sem beitir nokkru dýrari aðferðum, t.d. svokallaðri geislameðferð sem notuð hefur verið í Bandaríkjunum í áratugi, eða láti þétta samskeytin með heitum tjörutaumi, eins og víða er gert á norðlægum slóðum.
Ekki veit ég hvernig á að standa að viðgerðum á malbiki. Hitt er ljóst að það skemmist ekki svo ýkja mikið af dekkjanöglum. Víðast valda naglarnir jöfnu sliti. Holur virðast myndast oftar en ekki þar sem malbiksteppi mætir öðru. Þar verða til samskeyti sem ekki er lokað á fullnægjandi hátt. Breyta og frost skemma samskeytin og smám saman verður til stór sprunga eða hola.
Líklega er það rétt sem Björn Ólafur segir að úteltar aðferðir séu notaðar til viðgerðar í stað þess að nota þær sem hann nefnir.
Oft veltir maður því fyrir sér hvort undirlag malbiks sé nógu gott. Víða virðist malbikið troðast niður í hjólförum. Þá ályktun má draga því ekki koma í ljós undirlög sem gjarnan gerist þegar um slit er að ræða. Þetta má glögglega sjá á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Síðan borgarstjóri fór til starfa á dekkjaverkstæði virðist sem að öll umræða um málið hafi lognast út af. Gott er að Björn Ólafur skuli halda umræðunni vakandi enda hefur eiginleg ekkert gerst í þessum málum. Virðist verkefnin þó næg, jafnvel þó þeim sé sleppt sem slett hefur verið malbiki ofan í og þjappað saman með skóflubaki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.