Ef lærisveinar er réttlætanlegt hvað þá með lærimeyjar?
4.5.2016 | 17:38
Einn af lærisveinum ritstjóra Morgunblaðsins skrifar enn og aftur grein þar sem hann uppnefnir leikmenn í íþróttum lærisvein þjálfara. Þetta er auðvitað Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður/lærisveinn sem engu að síður er reyndur og góður blaðamaður.
Auðvitað er þetta tóm della hjá Gumma. Þjálfari eða stjórnandi Liverpool hefur aungva lærisveina í liði síni, ekki frekar en kollegar hans í öðrum liðum.
Þjálfari er ekki kennari þó svo að hann leggi upp leiki og setji fram leikkerfi, nema kannski í yngstu flokkunum.
Ef við leyfum okkur svona rökræðunnar vegna að segja að leikmenn séu lærisveinar þá kallar það á samræmi, konur þurfa að vera lærimeyjar ... Það er hins vegar aldrei gert.
Og ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta á þeirri útlensku sem ég kann eitthvað hrafl í. Englendingar kalla ekki leikmenn Liverpool sem Klopp's disciples svo reynt sé að þýða þennan óskapnað á ensku. Má vera að þjálfarar á Íslandi séu kennarar en í Englandi eru þeir yfirleitt coaches en í stóru liðunum football managers.
Vissulega geta konur á Íslandi farið í sveinspróf og útskrifast sem sveinar í iðngrein en kyn þeirra breytist ekki enda er prófið í raun kynlaust. Það réttlætir ekki að kalla leikmenn landsliðs kvenna lærisveina þjálfarans. Þannig verður ekkert úr neinu samræmi enda tilraunin tóm vitleysa.
Þó lærimeyjar sé alveg ónothæft orð gefur það stórskemmtilega möguleika á alls kyns útúrsnúningum. Bíð eftir einni tvíræðri frá Ómari Ragnarssyni um þjálfara og lærimeyjar.
Lærisveinar Klopp eru tilbúnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er eiginlega sammála þér Sigurður. Hjá sumum blm. er þetta orðið að lensku, að tala um "lærisveina" bara sí svona. Samt er þetta orð búið að vera notað í þó nokkurn tíma, en hver byrjaði á þessu skrípa orði manst þú það?
Jónas Ómar Snorrason, 4.5.2016 kl. 18:47
Þetta er gamalt en samt ekki svo gamalt, þetta er nýlegt en samt ekki. ... nei ég hef ekki hugmynd. Held þetta sé „íþróttamál“, fundið upp til að lengja texta í fyrirframákveðið hólf í dagblöðum eða tíma í öðrum. Íþróttablaðamenn eiga það til að skreyta mál sitt þó þeir ráði ekki við það. Þeim fer óðum fækkandi sem brúka þetta.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.5.2016 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.