Reykjavíkurborg boðar hryðjuverk

Runni í lúpínuReykjavíkurborg vill stemma stiga við þessu og kallar áhugasama borgarbúa með sér í lið. Stefnt er að því að verja nokkur viðkvæm holt sem eru staðsett inni í grónum hverfum fyrir frekari ágangi. Allir sem vilja hjálpa til eru boðnir velkomnir til að taka þátt á sérstökum átaksdögum. Gott er að koma með skóflur og plastpoka.

Þessi tilvitnun er úr herhvöt Reykjavíkurborgar sem boðar til hryðjuverka gegn gróðri.

Margir muna þá tíð er Reykjavík var svo til trjálaus. Öskjuhlíðin var berangursholt sem og Keldnaholt og svæðin fyrir ofan borgina. Árin hafa liðið og trjágróður gjörbreytt veðráttunni í borginni til hins betra.

Víða á höfuðborgarsvæðinu blómstrar lúpínan á sumrin og hún auðgar um leið jarðveginn með köfnunarefni og býr í haginn fyrir annan gróður. Staðreyndin er nefnilega sú að íslenskur jarðvegur þarf svo sárlega á köfnunarefni að halda svo fjölbreyttur gróður geti þrifist.

Vissulega er lúpínan ágeng en það er líka kostur hennar. Hins vegar er eðli hennar slíkt að hún hörfar þegar annar gróður bætist við og hann gerir það óhjákvæmilega vegna þess hversu stórfengleg köfnunarefnisverksmiðja lúpínan er. Vaxtarskilyrði gróðurs verða miklu betri þar sem lúpínan hefur numið land.

Lúpína ÚlfarsfellMargir sem þekkja ekki til halda að lúpínan sé til óþurftar og hún hörfi ekki. Lítum þá til Heiðmerkur, fyrir ofan byggðina á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa rannsóknir sýnt að lúpínan hörfar og margvíslegur gróður vex og þrífst í staðinn.

Þeir sem ekki skilja hvernig gróðureyðing hefur farið með landið skilja ekki heldur lúpínuna. Þetta fólk vill verja grjót, mela, sanda, örfoka fjöll. Viðhalda því ástandi sem varð til vegna ofbeitar lands, skógarhöggs og annars mannlegs óáran allt frá upphafi landnáms. 

Þetta fólk stjórnar til dæmis Reykjavíkurborg eins og glöggt má lesa út tilvitnuninni hér að ofan sem fengin er af vefnum reykjavik.is. Þetta lið kallar sig „Grænu framvarðsveitina“ sem er auðvitað tóm della nema átt sé við að lúpínan sé blá og henni þurfi þess vegna að útrýma. Hryðjuverkamenn Reykjavíkurborgar segja meðal annars þetta:

Í grónum hverfum í Reykjavík má víða finna faldar perlur sem eru grýtt holt prýdd fjölbreyttum mólendisgróðri. Þessi holt eru leifar af því landslagi sem borgin byggðist á. Veðraðir grágrýtis-hnullungar vaxnir grænum mosa og litskrúðugum skófum einkenna þessi holt og allt um kring vaxa kunnuglegar plöntutegundir eins og beitilyng, birki, blóðberg, gullmura, holtasóley, krækiberjalyng, ljónslappi o. fl. Holtin eru líka heimkynni fyrir marga fugla og smádýr.

HeiðmörkVeistu ágæti lesandi hvers vegna íslensku holtin eru svo fábreytt í gróðurfari? Það er einfaldlega vegna þess að annar gróður hefur ekki áttuppdráttar. Þjóðin hefur markvisst stundað gróðureyðingu, höggið skóg, ofbeitt gróðurlendur. Afleiðingin er fátæklegt gróðursamfélag sem varla má við neinu.

Svo má spyrja hvað orðið holt þýðir. „Oft er í holti heyrandi nær“, er kunnuglegt orðtak.

Veistu ágæti lesandi hvaða vörn við eigum gegn lúpínunni, það er að segja ef við viljum losna við hana?

Jú, ræktum tré og þau spretta upp þar sem lúpínan hefur verið, mun hraðar en annars staðar, miklu hraðar. Allar rannsóknir sýna að lúpínan hörfar þegar tré vaxa vegna þess að henni líður ekkert sérstaklega vel í skugga.

Er þá ekki miklu betra og skynsamlegra að fara í holtin á höfuðborgarsvæðinu og gróðursetja tré frekar en að vopnast skóflum, hrífum og hökum?

Svo er það annað mál að „baráttan“ gegn lúpínu er gjörtöpuð. Hún lætur ekki rífa sig upp, heldur kemur aftur og aftur nema því aðeins að baráttan sé háð með ræktun trjáa. Og hvað er göfugra en að rækta nýjan skóg ...? Hryðjuverk Reykjavíkurborgar er ekkert annað en sýndarmennska fólks sem þykist.

Myndirnar

Efsta myndin er af lúpínubreiðu og upp í gegnum hana birtist trjágróðurinn.

Miðmyndin er tekin í Úlfarsfelli. Værum við einhverju bættari án lúpínunnar?

Neðsta myndin er tekin á holti í Heiðmörk sem eitt sinn var nær gróðurlaust. Hvort eigum við að útrýma lúpínunni þarna með skóflum og hrífum eða gróðursetja tré?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband