Bjarni Benediktsson á móti línulögnum yfir Sprengisand

En ég hverf ekki frá þeirri skoðun minni að mér líkar illa og finnst hugmyndin raunar alveg ómöguleg. Ég get ekki séð það fyrir mér í framkvæmd, hugmyndin um háspennulínur yfir miðhálendið.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra á Alþingi í dag samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins.

Yfirlýsingin er afar ánægjuleg og kætir marga. Hún mun ábyggilega hafa taksverðar breytingar í för með sér í stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Margir kunna að segja að háspennulínur yfir Sprengisand sé frekar ómerkilegt en svo er hins vegar ekki. Línulögnin er stórmál, svo stórt að verði skoðun Bjarna ofan á í Sjálfstæðisflokknum mun hún hafa miklar og jákvæðar afleiðingar fyrir umhverfis- og náttúruvernd í landinu.

Landsvirkjun og Landsnet munu einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þau leggja fram tillögur um virkjanir eða línulagnir.

Þessi skoðun Bjarna verður ekki til af ástæðulausu. Staðreyndin er einfaldlega sú að yngri kynslóðir hafa kynnst landinu á allt annan hátt en þær eldri. Þær meta land ekki eftir því hversu það hentar til sauðfjárbúskapar heldur hvernig það er af náttúrunnar hendi og hversu vel það hentar til útiveru. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.

Eldra fólk naut síður útiverunnar, það var alið upp við mikla vinnu og lítinn frítíma. Frítíminn er nú miklu meiri og fjárhagsleg geta til ferðalaga er mikil og fólk nýtur þess.

Bjarni Benediktsson er hluti af þessum kynslóðum sem líta ekki á landið með gagnaugunum einum saman heldur hvernig má njóta þess.

Háspennulínur eru vissulega ekki varanlegar en þær eru mikið lýti á landi og síst af öllu til að fegra það. Ætlum við að njóta landsins án þeirra þurfum við að kosta talsverðu til. Og þá gerum við það.

Eftir þessi orð formanns Sjálfstæðisflokksins verður forvitnilegt að fylgjast með þróun mála. Ég mun örugglega standa þétt við bak formannsins í þessu máli eins og flestum öðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Spurningin er:  Ætlum við að virkja  (friða) Ísland undir tískuskó og afhlaupsbúnað erlendra manna? 

Eða ætlum við að virkja það okkur til gagns og ánægju?  

Hrólfur Þ Hraundal, 3.5.2016 kl. 09:15

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er góð spurning, Hrólfur. Svar mitt þarf að vera langt en ég skal reyna að hafa það örstutt.

Oft lendum við í þeim pytt að vera knúin til að taka afstöðu til álitamála sem lýsa má sem „annað hvort eða ...“ Slíkt er ómögulegt vegna þess að skynsamlegt svar kann að liggja annars staðar en á „öfgafullum endunum“, ef þannig má að orði komst.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þurfum að nýta auðlindir okkar. Fæstir halda því fram að ekki megi virkja eða nýta. 

Spurningin er sú, hvers vegna þarf að virkja? Eigum við að virkja fyrir orkufreka starfsemi eða þurfum við meira af slíkum iðnaði? Eru hugmyndir um atvinnulíf svo einhæfar að ekkert annað komi til greina?

Ég held að við verðum að fara okkur hægt. Og þá má spyrja hvort við viljum fórna stórkostlegum stöðum eins og Hólmsárlóni, Langasjó, Torfajökulssvæðinu og svo framvegis?

Líklega verður ánægja landsmanna frekar lítil ef við freistumst til að rústa öllum fegurstu stöðum landsins vegna virkjana.

Þess vegna er spurningin ekki góð, hvort við ætlum að friða landið undir tískuskó eða virkja.

Hins vegar væri verulega varið í að velta því fyrir sér hvernig hægt er að lifa í landinu án þess að ganga óhóflega á náttúru þess í framtíðinni eins og gert hefur verið á undanförnum áratugum. Út á þetta ganga mínar vangaveltur og eru ástæðan fyrir pistlinum hér fyrir ofan sem og fjölda annarra á þessum vettvangi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.5.2016 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband