Ögmundar verður minnst fyrir baráttu gegn ESB og Icesave

Ögmundur Jónasson, alþingismaður, ætlar að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Hans verður saknað enda er hann einn af þessum sósíalistum sem sett hafa svip sinn á stjórnmálin. Ögmundur hefur setið á þingi í tuttugu og eitt ár.

Hanns verður meðal annars minnst fyrir skelegga andstöðu við aðildarumsókninni að ESB sem  samflokksmenn hans í Vinstri grænum og Samfylkingunni stóðu að.

Ögmundur lét ekki kaupa sig til setu í ríkisstjórn. Hann stóð fastur fyrir gegn ESB og galt fyrir það dýru verði. Steingrímur flokksformaður og Jóhanna forsætisráðherra sögðu honum upp sem heilbrigðisráðherra, ætluðu að gera út af við hann pólitískt. Það gátu þau ekki gert og sat hann síðar sem innanríkisráðherra. 

Ögmundur er hugsjónamaður og þegar hann sá í gegnum svik Steingríms og Jóhönnu í Icesave slitnuðu vinaböndin við Steingrím og hafa þeir vart talast við síðan.

Um flesta allt er ég ósammála Ögmundi í stjórnmálum en hann er hins vegar ekkert ólíkindatól.

Hann er ekki eins og Steingrímur, Svandís, Katrín og fleiri forystumenn Vinstri grænna sem sjást aldrei fyrir. Þau seldu stefnu flokksins fyrir ráðherraembætti. Hann barðist gegn Icesave samningunum sem þjóðin felldi í tvígang. Fyrir þá baráttu verður nafn Ögmundar skráð stórum stöfum í Íslandssögunni.

Hins vegar er Ögmundur síður en svo saklaus hugsjónamaður. Hann á margt á samviskunni.

  • Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í ágúst 2012 að hann hefði sem innanríkisráðherra brotið lög er hann skipaði karl en ekki konu í embætti sýslumanns á Húsavík.
  • Ögmundur gerði ekkert vegna verðtryggingarinnar meðan hann var ráðherra og alþingismaður í meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.
  • Hann stóð að skattahækkunum á almenning sem átti um sárt að binda vegna hrunsins.
  • Ögmundur stóð að því með ríkisstjórninni að einkavæða íslandsbanka og Arion banka sem hreinlega voru gefnir kröfuhöfum bankanna.
  • Ögmundur gerði enga athugasemd vegna Árna-Páls laganna sem sett voru til höfuðs skuldurum en til hagsbóta fyrir skuldaeigendur.
  • Ögmundur samdi sem heilbrigðisráðherra við einkafyrirtæki í sama heilbrigðismálum en sér rautt vegna svipaðra samninga núverandi ríkisstjórnar.

Ögmundur er málugur maður, segir oft meira en hann getur staðið við. Orðafjöldinn er mikill en efnislega er mál hans oft rýrt en hann er ansi sannfærandi meðan aðrir komast ekki að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband