Leyfilegt að hjóla yfir gangbraut

Á vefmiðlum hefur sú skoðun verið viðruð að ekki megi hjóla yfir gangbraut heldur skuli hjólreiðamaður leiða hjól sitt. Umræða um þetta hefur spunnist upp vegna þess að Ómar Ragnarsson lenti í því að bíll ók á hann þar sem hann hjólaði yfir gangbraut.

Fleirum en mér þykir þetta fráleit túlkun á umferðalögum. Fyrir réttu ári svaraði fræðslustjóri hjá Samgöngustofu hins vegar spurningunni um rétt hjólafólks á sebrabrautum yfir götu. Svarið var þetta:

Gangbraut er skilgreind í umferðarlögum sem „Sérstaklega merktur hluti vegar, sem ætlaður er gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut“.

Annars staðar þar sem fjallað er um gangbraut í lögunum er alltaf gert ráð fyrir að ekki sé aðrir en gangandi vegfarendur sem fara yfir akbrautina á gangbraut.

Í lögunum segir einnig „Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.“

Ekki er gangbraut þar með í upptalningunni og því má ætla að ekki skuli hjólað yfir á gangbraut heldur hjól leitt yfir. [...]

Má þá ætla að hjólreiðamaður fyrirgeri rétti sínum um forgang ef hann hjólar yfir sebramerkta gangbraut.

Þessi lögskýring stenst ekki. Með beinni lögjöfnun má álykta sem svo að gangbraut sé ekkert annað en framlenging á gangstétt eða gangstíg. Þar með ætti að vera leyfilegt að hjóla yfir gagnbraut rétt eins og að hjóla á gangstíg.

Um forgang er fjallað í tilvitnaðri klausu í lögunum þar sem segir að hjólamaður skal víkja fyrir gangandi fólki.

Hins vegar segir ekkert í lögunum aki bíll á hjólamann á gangbraut. Allt bendir til þess að réttur hans sé þá hinn sami og gangandi vegfaranda.

Að þessu sögðu má álíta sem svo að hafi Ómar Ragnarsson sýnt tilskilda varúð er hann hjólaði á rafmagnshjóli sínu út á gagnbrautina sé ökumaðurinn sem ók á hann bótaskyldur. Undir þetta tekur Sigurður M. Grétarsson í athugasemdadálki vegna fyrri pistils um Ómar. Sigurður segir:

Í það minnsta gerir lögregla ekki athugasemd við það og ekkert tryggingafélag hefur reynt að koma sér undan bótaskyldu þegar bílar tryggðir hjá þeim hafa ekið niður hjólreiðamenn sem hafa hjólað yfir gagnbraut. Ég sjálfur hef lent tvisvar í árekstri við bíl við slíkar aðstæður. Í öðru tilfelli gerði viðkomandi ökumaður tilraun til að koma sökinni yfir á mig en niðurstaða tryggingafélaganna var sú að ég væri í rétti. Í hinu tilfellinu vísaði ökumaðurinn einfaldlega á tryggingafélagið sem viðurkenndi bótaskyldu og greiddi mér tjónið. Þeir sem halda því fram að það beri að leiða reiðhjól yfir gangbraut eiga sér fáa fylgismenn meðal sérfræðinga í umferðalögum.

Þetta er enn ein staðfestingin á því að hjólamönnum sé heimilt að hjóla yfir gangbraut. Önnur túlkun á þessu hlýtur að vera tóm vitleysa.

Hjólreiðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og ef ætlunin er að túlka umferðalögin svo þröngt að stíga þurfi af baki og ganga yfir gangbraut þá er það þvert gegn þeirri hagkvæmni sem hjólreiðar vissulega eru.

Svo má alveg íhuga að bæta umferðarlögin hvað varðar hjólreiðar og einnig gangandi umferð. Sérstaklega ber að leggja áherslu á að hjóla- og göngufólk haldi sig hægra megin á göngustíg og gangstéttum. Margir ganga og hjóla vinstra megin og valda þannig vandamálum og hættu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Á móti kemur að orð fræðslustjórans ættu að hafa mikið vægi. Svo er annað, ef gangbraut er skilgrein sem

"Sérstaklega merktur hluti vegar, sem ætlaður er gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut“  

þá á, samkvæmt skigreiningu, að ganga, en ekki hjóla, yfir gangbraut.

Wilhelm Emilsson, 18.4.2016 kl. 11:42

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

"skilgreiningu," vildi ég sagt hafa.

En fyrst menn geta deilt um þetta þarf að fá þetta alveg á hreint.

Wilhelm Emilsson, 18.4.2016 kl. 11:44

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það hlýtur að skipta máli hver hraðinn er á gangbrautinni.
Slæmt þegar ökumaður sér auða gangbraut á gatnamótum, sérstaklega þeim stóru, og þegar hann er kominn að eða inná gangbrautina er þar allt í einu kominn hjólreiðamaður.

Kolbrún Hilmars, 18.4.2016 kl. 13:51

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sammála Wilhelm.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.4.2016 kl. 14:27

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Wilhelm, eins og ég sagði hlýtur að vera hægt að lögjafna þannig að gangbraut sé hið sama og göngustígur og sömu reglur gildi um hvort tveggja. Undarlegt ef gangbraut hefði einhverjar sérreglur umfram gangstétt eða gangstíg. Svo er leyfilegt að hjóla á gangstéttum þrátt fyrir nafnið.

Kolbrún, auðvitað verða allir að sýna tilskilda varúð, hvort sem þeir eru á gangbraut eða gangstíg. Það segir sig sjálft.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.4.2016 kl. 14:35

6 Smámynd: Agla

Er gangbraut mörkuð leið gangstéttarnotenda til að komast yfir götu?

Eru merkingar á gangbrautum?

Er hjólreiðamönnum leyfilegt að hjóla á gangstéttum?

Gilda  sömu reglur um notkun hjólreiðanda  og gangandi á gangbrautum ?

Spyr sá sem ekki veit.

Agla, 18.4.2016 kl. 15:35

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Myndast hefur sá praxis, sem skilar bestu ef hann er rétt framkvæmdur, að hjólreiðamaður kemur af varfærni, innan við gönguhraða, að þeim stað þar sem gangstígur liggur yfir aðrein á borð við þessa.

Að sjálfsögðu gerir hjólreiðamaðurinn ekki tilraun til að fara yfir ef bílstjóri ákveður að aka áfram.

Hins vegar stöðva flestir bílstjórar bíla sína þegar gangandi maður eða hjólreiðamaður hyggst fara áfram, og í þessu tilfelli virtist viðkomandi bílstjóri vera að stöðva bíl sinn, en hann segir að vegna lágrar kvöldsólar sem skein framan í hann á versta augnabliki, hafi hann ekki séð mig og því haldið ákveðið áfram.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2016 kl. 17:00

8 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Þá hefur Sigurður fellt sinn úrskurð um málið.  En er þetta rétt hjá honum?  Skoðum málið aðeins betur.

Reiðhjól er ökutæki skv. umferðarlögum.  

Í lögunum koma fram þrjú heiti á svæðum í þéttbýli, þar sem gangandi vegfarendum er ætlað að ganga:  Gangstétt, göngustígur og gangbraut.

Munurinn á gangbraut annars vegar og og gangstétt og gangstíg hins vegar er með tvennum hætti:  

1) gangbraut er sú eina af þessum þremur gönguleiðum, sem liggur þvert yfir akbraut. Gangstétt þverar ekki akbraut heldur liggur samsíða henni.  Gangstígur liggur oftast fjarri akbraut.  Gangstétt og göngustígur eiga það því sameiginlegt að liggja ekki þvert yfir akbraut. Þar tekur hins vegar gangbrautin við.  

2) Hjólreiðamenn mega almennt ekki hjóla á gangstétt eða gangstíg. Það er meginreglan.  Þeim er þó veitt undanþága til að gera það og hafa þar víkjandi umferðarrétt gagnvart gangandi fólki og ber að tak fullt tillit til forgangsréttar þess.

Sigurður nefnir nokkur rök fyrir áliti sínu.  Fyrst talar hann um hið lögfræðilega hugtak, "lögjöfnun", sem reyndar er allsendis ónothæf í þessu tilliti og út í hött.  Löggjafinn hefur sett umferðarlögin af hyggindum og skv. víðtækri þekkingu.  Hefur löggjafinn gengið út frá þeirri meginreglu, að hjólreiðafólk, eigi almennt ekki að hjóla á svæðum fyrir gangandi vegfarendur.  Í lögunum eru hins vegar gerðar tvær undantekningar frá fyrrnefndri meginreglu, þ.e. að hjóla megi samt á gangstéttum og göngustígum, enda virði þeir þar forgangsrétt hinna gangandi. Hvergi er hins vegar minnst á að undanþágan eigi líka að gilda um gangbrautir.  Þarna má því beita annarri reglu lögfræðinnar um gagnályktun.  Þegar undanþágur frá meginreglu eru tilteknar í lögum, ber að líta svo á að undantekningarnar séu tæmandi taldar, enda á að túlka undantekningareglur þröngt.  Því má gagnálykta frá lögunum um að hjólreiðar á gangbrautum séu óheimilar.  

Þessu næst vitnar Sigurður til skoðana tiltekins starfsmanns Samgöngustofu. Gallinn er hins vegar sá, að Samgöngustofa setur ekki lögin og eru því skoðanir hennar ekki réttarskapandi.  Því miður hefur lagaskilningur þar á bæ ekki verið yfir vafa hafinn.  Ég hlustaði fyrir nokkru á forstjóra Samgöngustofu svara spurningu þáttarstjórnanda í "Reykjavík-Síðdegis" um þetta lögfræðilega mál. Forstjórinn "féll á prófinu" og orðaði það á loðinn hátt.  Hann sagði fólk meg hjóla á gangbrautum, en bætti því við að það yrði að fara varlega.

Þá vitnar Sigurður í lögregluna, sem virðist aldrei hafa áttað sig á muninum á þessum þremur samgöngumöguleikum fyrir gangandi.  Væri athugandi fyrir lögreglustjóra að láta almenna undirmenn sína sækja námskeið um þetta.  Full þörf er á að veita hjólreiðafólki ábendingar og aðhald ekki síður en öðrum vegfarendum.

Loks klykkir Sigurður út með því að vitna til gjörða tryggingafélaganna við bótauppgjör og telur þær til marks um að hjóla megi á gangbrautum.  Þessi röksemd er haldlaus, enda fara bótauppgjörin til hjólreiðafólks eftir allt öðrum lögmálum.  Vélknúin ökutæki eru talin hættuleg umhverfi sínu (v/skriðþungan/hreyfimassans) sem bílar á ferð hafa.  Því er lögbundin hlutlæg ábyrgðarregla bíleigendanna, sem er andhverfan við sakarregluna, sem annars gildir og víðast í samfélaginu.  Því ber skráður eigandi vélknúins skráningarskylds ökutækis nær alltaf ábyrgð á tjóni, sem hlýst af notkun ökutækisins og eigendunum er jafnframt þess vegna gert skylt að kaupa ábyrgðartryggingu til að bæta slík tjón. Við uppgjörs tjóns við árekstur reiðhjóls og bíls, er ávallt byggt á hlutlægu ábyrgðarreglunni gengið í að greiða tjónið úr ábyrgðartryggingunni. Ekki þarf að spyrja um sök.  Því aðeins að það sannist, að hjólreiðamaðurinn hafi vísvitandi reynt að koma sér fyrir kattarnef með því að bruna á gangbraut yfir akbraut, gæti svo farið að tryggingarfélagið neitaði að bæta skaðann.

Í lokin vil ég svo benda á, að allir með sæmilega dómgreind, átta sig á því við íhugun, að ekki er hægt að ætlast til þess að ökumaður bíls fái ráðrúm til að bregðast rétt við og stoppa við gangbraut vegna aðvífandi hjólreiðamanna á miklum hraða, sem stundum eru að koma út úr trjágöngum eins og til hagar t.d. á mótum Suðurlandsbrautar og Álfheima og Skeiðarvogs, þar sem er mikil mikil og augljós slysahætta í boði Reykjavíkurborgar og þeirra sem ekki nenna að íhuga gjörðir sínar. 

Björn Ólafur Hallgrímsson, 18.4.2016 kl. 18:51

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nú fór í verra þegar hinn ágæti lögfræðingur, Björn Ólafur Hallgrímsson, og brýtur niður hinn vel ígrundaða dóm minn. Jæja, við því er nú ekkert að gera, en ég malda í móinn. Tek það samt fram að ég ber mikla virðingu fyrir Birni.

Í 39. grein umferðalaga segir að heimilt sé að hjóla á gagnstétt en hjólamaður skuli sam víkja fyrir gangandi umferð. Af þessu má draga þá ályktun að þetta sé engin undantekningaregla. Annað hvort er leyfilegt að hjóla á gangstétt eða ekki. Sé það undir vissum kringumstæðum leyfilegt,  mætti orða það þannig að hjólreiðar á gangstéttum sé undantekningaregla. Svo er hins vegar ekki.

Að þessu sögðu sé ég ekki neitt rangt við að jafna gangbraut við gangstétt eða göngustíg. Björn Ólafur misnotar hugtakið gagnályktun enda á hún ekki við vegna þess að heimilt er að hjóla á gangstéttum. Punktur. Þar af leiðandi hlýtur að gangbraut að vera ígildi gangstéttar og göngustígs.

Ég vitnaði í Samsgöngustofu, vissi ekki að hún væri alræmd í lögfræðilegri túlkun. Það kemur mér hins vegar ekki við enda var þetta hið eina bitastæða sem ég fann við heimildaleit um málið. Hins vegar er Samgöngustofa og Björn Ólafur sammála um að leiða þurfi reiðhjól yfir gangbraut, ekki hjóla á því. 

Í stuttu máli snýst þetta um eftirfarandi. Ökumanni er óheimilt að aka á þann sem er á gangbraut, skiptir engu hvort sá sé gangandi, á reiðhjóli, vélhjóli, skríðandi eða á handahlaupum.

Þar af leiðandi sé ég ekki að deila um hvort heimilt sé að hjóla yfir gangbraut skipti nokkru einasta máli. Ábyrgðatrygging bílsins greiðir tjónið. Um sök er ekki spurt. Skrýtið, Björn.

Ég hjóla því áfram yfir gangbrautir, en lít auðvitað til beggja handa eins og manni var kennt í æsku.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.4.2016 kl. 19:52

10 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Ég vil bæta þessu við, Sigurður, eftir andsvör þín.  Mér finnst að þú farir núna "eins ok köttur í kringum heitan graut".  Það er ástæðulaust, því þetta eru ágæt skoðanaskipti og þú gefur sífellt færi á þér. Því held ég áfram aðsinni.

Ég held þú vitir það mætavel, að líf og limir eru lögvarðir.  Við megum aldrei meiða neinn, jafnvel þótt þótt hann hagi sér gáleysislega í umferðinni.  Ávallt ber manni að gera allt sem í valdi manns stendur til að afstýra tjóni.  En stundum tekst það ekki þrátt fyrir að maður reyni ekki einungis að gera allt rétt sjálfur, heldur einnig að sjá við öðrum og reyna að bjarga þeim þrátt fyrir heimskulega hegðun.

En umferðarlögin snúast ekki um að segja til um hver má keyra á hvern. Þau snúast fyrst og fremst um að um að skrá háttsemireglur og samskiptareglur til að minnka slysahættu.

Þannig er forgangsreglurnar einungis til að báðum aðilum sé ljóst, hvor hefur forgang í hverju tilviki.  Ef báðir vita það og leitast við að fara eftir reglunum, minnkar slysahættan. Ef aðeinns annar veit en hinn ekki, þá er miklu meiri hætta á slysum, , (hvernig getur sá, sem veit, áttað sig á að hinn veit ekki?).  Ef báðir vita, en annar þeirra er staðráðinn í að fara ekki eftir reglunum, er slysahætta líka verulega aukin, , (hvernig getur sá, sem veit, áttað sig á að hinn ætlar sér ekki að virða reglurnar?).  

Hvers vegna skyldu hjólreiðamenn aldrei virða biðskyldumerkin í malbikinu á "hjólreiðahraðbrautinni" meðfram Suðurlandsbraut á mótum Álfheima og Skeiðarvogs?  Gæti það verið vegna rangrar uppfræðslu frá þér eða öðrum, sem reyna að snúa út úr umferðalögunum?  Þeir sem það gera, axla mikla ábyrgð, sem þeir aldrei geta borið.

Er nokkuð hægt að misskilja 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga, sem hljóðar svo:  

"Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum."

Læt hér staðar numið.

Björn Ólafur Hallgrímsson, 18.4.2016 kl. 20:32

11 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll aftur og bestu þakkir fyrir innlitið. Ferlegt ef þér finnst ég fari „núna eins ok köttur í kringum heitan graut“. Dálítið digurbarkalegt frá manni sem fer margmáll út um víðan völl.

Mér finnst þú afgreiða rök mín um að heimilt sé að hjóla yfir gangbraut með lítilli virðingu. Sætti mig þó við það þó ég hafi hingað til ekki náð ástæðunni. Biðst afsökunar á því, líkleg mér að kenna frekar en þér.

Um siðferðilegar vangaveltur þínar í athugasemdinni get ég vel tekið undir. Þó sé ég ekki hvernig þær koma umfjöllunarefninu við. Í pistlinum tala ég um varúð í umferð, það á ekki síður við um ökumann en hjólamann eða göngumann. Slys verða vegna mistaka annars hvors sem í þeim lenda, oft eru þau báðum að kenna.

Góði besti, ekki kenna mér um að „allir“ hjólamenn virði ekki biðskyldumerki í malbikinu við Suðurlandsbraut.

Svakalegt er ef áhrif mín séu svo mikil að allir sem þarna hjóla skuli ekki fara að lögum vegna þess að ég hef hvatt til annars. Hef raunar aldrei fjallað um „biðskyldumerki í malbiki“ hvað þá að ekki skuli virða umferðalög og fjarri mér að snúa úr þeim ágætu lögum.

Nei, það er rétt sem þú segir, ekki er hægt að misskilja þessa tilvitnuðu grein í umferðalögum.

Hins vegar segir hvergi í umferðalögum að það sé undantekningaregla að leyfilegt sé að hjóla á gangstéttum, eins og þú heldur fram. Þvert á móti segir þarna að heimilt sé að hjóla á gangstétt og gangstíg.

Þar af leiðir að það er hárrétt ályktun, raunar lögjöfnun, að heimilt sé að hjóla á gangbraut. Ekkert í þessum löngu athugasemdum þínum hefur afsannað þá staðreynd.

Svo er það hitt, að hvergi hefur lögregla né aðrir amast við hjólreiðum á gangstéttum, göngustígum eða gangbrautum. Það var ekki fyrr en Ómar varð fyrir bíl á gangbraut að umræðan byrjaði. Sitt sýnist nú hverjum en hvergi hefur lögreglan lagt sama viðhorf til málanna og þú gerir, að minnsta kosti veit ég ekki til þess.

Lifðu heill.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.4.2016 kl. 20:55

12 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Sæll enn og afur.  Þú hefur meira úthald en ég.  Og engu skilar þetta hjá okkur nema e.t.v. svolítilli uppfræðslu fyrir áhugasama og þá sem hafa opinn huga.  

4. mgr. 39. gr. sýnir öllum þeim, sem skilja vilja, að hjólreiðamenn eru á "undanþágu" á gangstéttum og göngustígum, sem gangandi fólki eru ætlaðir, eins og nöfnin gefa einfaldlega til kynni.  Þar á hinn gangandi "umferðarréttinn" en réttur hjólreiðamannsins er víkjandi. Nóg um það.

Þú þyrftir endilega að kynna þér vel hvað réttarheimildin "lögjöfnun" þýðir, fyrst þú byggir stöðugt á því fyrirbrigði.  Það hljómar vissulega vel gagnvart fólki að beita þvílíku galdraorði.   Þér mun koma það óþægilega á óvart, þegar þú áttar þig á, hað það merkir. Eftir það myndir þú aldrei nota orðið í sambæriegum tilvikum.  Ég væri tilbúinn í að útskýra það fyrir þér við tækifæri.

Mér finnst á síðustu athugasemdum þínum, að skoðanaskipti okkar séu orðin þreytt og farin að verða þraskennd.  Mál er þá að linni.  

Það væri þó óskandi að bæði hjólreiðamenn lærðu eitthvað af umræðunni og ekki síst að veghaldarinn í Rvík, umferðar- og skipulagsráð í umboði borgarstjórnar, gerði það og léti af misvísandi hönnun og merkingum umferðarmannvirkja.  Í því efni gætu þeir tekið "stóra bróður" sér til fyrirmyndar, þ.e. veghaldarann Vegagerð ríkisins.  

Kveðjur góðar. 

Björn Ólafur Hallgrímsson, 18.4.2016 kl. 23:12

13 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, nenni ekki lengur að ræða við þig um þetta. Það er gagnslaust.

Ég hef hjólað mikið um Reykjavík síðustu árin og aldrei vitað til þess að bannað væri að hjóla yfir gangbraut. Man ekki heldur til þess að neinn hafi gert það í æsku minni en hún er löngu liðin.

Sé það rétt sem þú heldur fram að það sé bannað er einfaldlega kominn nýr siður sem víkur þessu dæmalausa viðhorfi til hliðar og tímabært að breyta lögunum. Lögreglan framfylgir ekki þessu meinta banni á neinn hátt, hvorki með prédikunum né sektum. Held raunar að lögreglan sé alls ekki á þinni skoðun.

Það man ég þó úr lögfræðitímunum í gamla daga að lög eða lagagreinar úreldast. Þá er kominn tími á breytingar.

Í stuttu máli, það er tóm þvæla að ætlast til þess að hjólamaður leiði hjól yfir gangbraut. Til hvers ætti þetta að vera bannað? Enginn fylgir heimskulegu banni, ekki frekar en biðskyldumerki í malbiki ...

Lifðu svo vel og lengi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.4.2016 kl. 00:17

14 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Blessaður.

það er frétt á síðu 2 í Fréttablaðinu í dag viðkomandi þessu málsefni okkar.  Þar kemur m.a. fram hjá Ómari Smára hjá LRH, að hann hefur sama skilning á 4. mgr. 39. gr. og ég. LHR er því að vitkast. Heyr fyrir því. Nú er það bara von mín að þeir vitkist meira og hætti að rugla gangatéttum og göngustígum saman við gangbrautir.

B. kveðjur

Björn Ólafur Hallgrímsson, 19.4.2016 kl. 10:02

15 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, aftur. Enn og aftur er þér ómögulegt að halda þig við efnið, ferð út og suður eins og þér hentar. Þessi 4. mgr. 39.gr umferðalaga er góð og gild, ég hef ekki deilt við þig um það. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að gangbraut er framhald gangstétta og göngustíga.

Sé heimilt að hjóla á gangstétt er heimilt að hjóla á gangbraut.

Þetta fer nú að verða dálítið hjákátlegt að tuða fram og aftur við þig um það sjálfsagða. Hreinlega kjánalegt að halda því fram að hjólamaður þurfi að fara af baki og leiða hjólið yfir gangbraut.

Ég segi nú bara enn og aftur ... jóla hvað?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.4.2016 kl. 12:27

16 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Jæja, Sigurður.  Þú telur þig greinilega fara með löggjafarvaldið.  Þá væri rétt að þú breyttir þessari skilgreiningu á gangbraut í 2. gr. laganna til að aðlaga það þínum málatilbúnaði:  

Gangbraut:

   Sérstaklega merktur hluti vegar, sem ætlaður er gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut.

Veltu vel fyrir þér hvað "gangandi vegfarandi" þýðir.  Þýðir það kannski að þínu mati hjólreiðamaður!?

Ég held hins vegar að heppilegast sé að allt löggjafarvald sé hjá Alþingi.  Okkar hinna er að fara eftir lögunum en ekki að rangtúlka þau.  Þannig bætum við umferðarmenninguna og minnkum slysahættu.

Kveðjur.

Björn Ólafur Hallgrímsson, 19.4.2016 kl. 13:47

17 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Björn Ólafur. Þú verður nú að fara að gera það upp við þig um hvað þú ert að tala. Fyrst var það gangbraut, svo var það 4. mgr  gr. umferðalaga og nú er það 2. greinin.

Rökræður eru greinilega ekki þín besta hlið. Pistillin minn er um gangbraut.

Staðreyndin er einfaldlega sú að gangbraut er framhald gangstétta og göngustíga.

Sé heimilt að hjóla á gangstétt er heimilt að hjóla á gangbraut.

Punktur. Löggjafarvaldið hefur talað ... Sættu þig nú við þessa niðurstöðu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.4.2016 kl. 16:28

18 Smámynd: Björn Ólafur Hallgrímsson

Blessaður Sigurður.

Þú byrjaðir með þeim "úrskurði" þínum eða fullyrðingu, að leyfilegt sé að hjóla á gangbrautum.  Það eru röng skilaboð til hjólreiðafólks og auka mjög hættu á slysum þeirra, sem ferðast hjólandi.  Sértaklega er þetta háskalegt, þar sem það kemur frá virtum manni, sem menn hingað til hafa tekið mark á.

Síðan hefur þú harkist úr einu víginu í annað með fullyrðinguna. Fyrst var það "lögjöfnunin" góða, - næst var það svo  að sömu reglur giltu annars vegar um gangbrautir og hins vegar um gangstéttir, - síðan féll kenningin um að hjólreiðafólk væru ekki með víkjandi rétt fyrir gangandi á gangstéttum og göngustígum og göngustíga, loks það sjónarmið þitt að hjólreiðafólk félli undir regluna um gangandi vegfarendur á gangbrautum og fl. og fl.  Allt þetta geturðu séð í skrifum okkar.

Eftir því sem afhjúpunin varð meiri, kom það síðasta úr vopnabúrinu, - "að hjóla í manninn", - eins og það er t.d. nefnt í fótboltanum.  Þar sem mér leiðast slík skylmingabrögð, mun ég ekki svara frekar.  Þú þarft næði til að komast í jafnvægi aftur.

Kveðja góð. 

Björn Ólafur Hallgrímsson, 19.4.2016 kl. 19:37

19 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitin. Næði er einmitt sem ég þarf. Held ég fari út að hjóla.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.4.2016 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband