Afsögn forsætisráðherra er ekki framhaldssaga

Eftir æsilega atburði gærdagsins var manni nokkuð skemmt en ekki lengur. Hversu oft getur sami maður „sagt af sér“ og „stigið til hliðar“. Ég veit ekki betur en að slíkt sé aðeins gert einu sinni, að minnsta kosti í einu.

Í sannleika sagt er kominn tími til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stigi nú á bremsurnar og segi hingað og ekki lengra. Samskipti forsætisráðuneytisins við fjölmiðla eru orðin að aðhlátursefni út um allan heim og það gengur ekki lengur.

Eitt af þeim grundvallatriðum sem hafa ber í huga í starfsemi stjórnvalds eru samskipti við almenning og fjölmiðla. Þau þurfa að vera í föstum skorðum og með sama yfirbragði og ásýnd frá degi til dags. 

Það er til dæmis ótrúlegt að forsætisráðherra geti þröngvað ráðuneytisstjóra og öðrum til að útbúa þingrofstilskipun og farið á Bessastaði og heimtað undirskrift forseta. Embættismenn ráðuneytisins eiga að vita betur, rétt eins og forsetinn, og fengið ráðherrann ofan af þessari ferð. Nei, þess í stað druslast þau með rétt eins og þau séu sammála ráðherranum í vitleysu sinni.

Nóg er að segja af sér embætti einu sinni. Tilgangurinn á að vera hinn sami hvort sem mælt er á íslensku eða öðrum tungumálum.

Nú er nóg komið. Afsögn forsætisráðherrans á ekki að vera framhaldssaga. Maðurinn á að vera farinn úr ráðuneytinu og annar tekinn við til bráðabirgða. Þegar forsætisráðherra fer til útlanda gegnir annar ráðherra störfum hans á meðan. Þetta er ekkert flóknara en það.

Fyrir alla muni, Bjarni Benediktsson, þessa vitleysu þarf að stöðva. Og þó fyrr hefði verið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband