Norðmenn borga um þrisvar sinnum minna í húsnæðislán
1.4.2016 | 17:44
Í Noregi bjóðast neytendum húsnæðisvextir á 1,9% á meðan okkur bjóðast 7,45% óverðtryggt. Þetta þýðir að af 35 milljóna króna láni hér á landi borga neytendur 2,6 milljónir í vexti á ári en í Noregi borga neytendur af samskonar láni 665 þúsund á ári.
Vaxtabyrðin af slíku láni hér á landi er á mánuði 216 þúsund en í Noregi af sama láni einungis 55 þúsund. Takið eftir, hér munar hvorki meira né minna en 161 þúsundum króna á mánuði eða eins og áður sagði tæplega 300%.
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness í grein á pressan.is. Séu þetta réttar upplýsingar frá Vilhjálmi eru þær algjörleg með ólíkindum.
Um leið hvarflar hugur manns að ótrúlegum hagnaði bankanna á síðasta ári og líklega er það rökrétt niðurstaða að frekar auðvelt sé að reka þá með því að hafa dágóðar tekjur af íbúðalánum. Hins vegar veit ég ekki um hagnað norskra banka, best að taka það fram. Þrátt fyrir dágóða vexti eru vandamál hins íslenska Íbúðalánasjóðs frekar dapurleg en að getur verið af öðrum ástæðum.
Ég hef sagt það áður og endurtek það enn á ný. Eitt mikilvægasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum er að lækka vexti á húsnæðislánum. Með því móti fást möguleikar til að hvetja almenning til að eignast eigið húsnæði og tryggja sér það til langframa. Leigukerfi af margvíslegu tagi geta verið góð en öryggið fæst með eigin húsnæði.
Vilhjálmur Birgisson á þakkir skylda fyrir að benda á hinn sláandi mun á kjörum íslenskra og norskra íbúðalánþega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nöturleg staðreynd, sem legið hefur fyrir árum saman. Engu virðist skipta, hvaða stjórnmálaflokkar fara með völd, það er ekkert gert til að stemma stigu við þessu brjálæðisokri á húsnæðislánum. Meira að segja verðtryggingin er varin með kjafti og klóm af forystumönnum ASÍ, svo það virðist enn langt í land með að einhver breyting verði á þessu, til batnaðar, því miður. Skattleggja ætti hagnað bankanna eins og annara fyrirtækja, til fulls. Þær skatttekjur mætti á einhvern hátt nota til að auðvelda til að mynda fólki að kaupa sína fyrstu fasteign.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 1.4.2016 kl. 18:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.