Samfylkingin nálgast óðum kjörfylgi Alþýðuflokksins

Er þessum þingmönnum, gömlum og nýgömlum, fyrirmunað að sjá eigin þátt í því að Samfylkingin er nú að niðurlotum komin - og þeirra hlutur gæti varla orðið annar úr þessu en að veita henni nábjargirnar? Varaformaður flokksins virðist einn þingmanna hans fær um að komast að hinni einu rökréttu niðurstöðu: að hætta í pólitík.

Þannig er jafnaðarmönnum óskað til hamingju með 100 ára afmæli Alþýðuflokksins.Sá sem skrifar er Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri. Hann þekkir nokkuð til jafnaðarstefnunnar, sonur Magnúsar H. Magnússonar, eðalkrata eins og sagt er, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, þingmanns og ráðherra.

Pál skrifar greinina í Morgunblað dagsins og fer í henni á kostum en jafnaðarmenn fá háðulega útreið og eiga sér varla viðreisnar von ... í bókstaflegri merkingu rétt eins og yfirfærðri.Og við, andstæðingar jafnaðarmanna skemmtum okkur yfir sannverðugum lýsingum.

Páll segir:

Fyrir nokkrum vikum rakti formaður hans samviskusamlega, en þremur árum of seint, öll þau mistök sem flokkurinn hafði gert í síðustu ríkisstjórn. Sú yfirferð ætlaði engan enda að taka og var þó ekki allt talið. Samfylkingin klúðraði meira að segja sínu helsta hjartans máli; umsókninni um aðild að Evrópusambandinu, sem sumir kölluðu einu eftirlifandi hugsjón hennar af 100 ára sögu.

Þetta er alveg rétt hjá Páli. Aðildarumsóknin var eins og lygasaga með núverandi feldarforsetaframbjóðanda í aðalhlutverki sem endasentist á milli Brussel og Reykjavíkur í erindum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjölráðherra. Sá síðarnefndi seldi stefnu flokks síns í utanríkismálum fyrir ráðherrasæti. Þegar litið er til baka sést hversu skopleg seta þessara flokka varð í ríkisstjórn. Jóhanna og Steingrímur tileinkuðu sér aukinheldur áhrifaríkan fýlusvip í fjölmiðlum, töluðu í véfréttarstíl og smíðuðu slagorð eins og „skjaldborg“ og „norræn velferð“ sem voru bókstaflega orðin tóm.

Allt leiddi til annars hruns, hrikalegs fylgistaps Samfylkingar og Vinstri grænna í síðustu kosningum. Og enn hrynur fylgið.

Páll segir í grein sinni:

Það er svo talandi tákn um séríslenskan húmor að þessi fararstjóri til Brüssel, og einn þeirra sem hafa dregið Samfylkinguna út í mýrina miðja, er nú sagður telja sig best til þess fallinn af öllum mönnum að verða forseti Íslands! Skilst nú betur af hverju þessi fyrrverandi mesti orðhákur íslenskra stjórnmála hefur ekki talað um annað á opinberum vettvangi misserum saman en konu sína, kött og krakka. Hann veit af klókindum sínum að þessi þrenning er miklu fremur, og maklega, til vinsælda fallin en annað sem hann hefur staðið fyrir í áranna rás.

Já, til hamingju með 100 ára afmæli Alþýðuflokksins, kæru jafnaðarmenn.

Óðum nálgast Samfylkingin kjörfylgi hins aldna flokks, sem þó hefur ekki boðið fram í um tuttugu ár. Segir það ekki ýmislegt um þá báða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband