Fórnarlamb eigin texta eða höfundur hans
10.3.2016 | 13:49
Þeim sem fást við rannsóknir á íslensku máli er það jafnan nokkur ráðgáta hvernig stendur á því að tunga okkar er jafnheildstæð og raunin ber okkur vitni, allt frá elstu heimildum til vorra daga. Við þurfum ekki að fara lengra í samanburði en til frænda okkar í Noregi til að reka okkur á það sem er hið venjulega ástand, mállýskukraðaki, og þetta gengur jafnvel svo langt að á bæjum í sömu sveit talar hver sína mállýsku.
Hér á landi er þessu allt öðru vísi varið eða hefur verið það til þessa að minnsta kosti. Íslenskan er alveg ótrúlega heildstæð, bæði á langveginn og þverveginn ef svo má orða það. Hún er lítt breytileg á hinn landfræðilega þverveg og líka á hinn sögulega langveg.
Mál okkar er afspyrnuíhaldsamt og stundum er sagt að það sé elsta lifandi klassísk bókmenntatunga. Og þetta eru ekki orðin tóm því segja má að íslensk bókmenntasaga sé ein og óslitin frá Snorra Sturlusyni til Halldórs Laxness og Gyrðis Elíassonar.
Þetta skrifar Kristján Árnason, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og flutti sem erindi þann 20. desember 2016 á fundi með dómurum og lögmönnum undir heitinu Hugleiðingar um íslenskt lagamál. Ritgerðin er svo vel skrifuð að ég velti fyrir mér frásagnarhæfileikum fólks. Svo virðist sem æ færri kunni að segja skilmerkilega frá. Það háir ekki bara lögfræðingum heldur líka fjölmiðlafólki og mörgum öðrum þeim sem vinna með texta.
Er þetta annars meðfæddur hæfileiki eða er hægt að tileinka sér hann?
Sagnamenn og konur hafa allt frá örófi alda verið þótt öfundsverðir. Áður en sagnaarfur Íslendinga var ritaður á skinn var til stétt fólks sem sagði sögur, gekk á milli bæja og héraða og sumir voru eftirsóttari en aðrir. Löngu síðar voru sögurnar ritaðar eftir það prentaðar. Bækur voru hins vegar fágætar og því héldu sagnaþulir velli langt frá á nítjándu öld.
Sagnamenn dagsins í dag er fjölbreyttur hópur. Þorri þeirra ritar í fjölmiðla eða kemur fram í útvarpi og sjónvarpi og segir frá.
Sumir segja að sagnagáfan sé meðfædd. Ég tel það rangt. Hún verður meðal annars til fyrir áhrif umhverfis, uppeldis, lestur bóka, félagsskapar og fjölmargs annars. Nokkur munur er á sagnamönnum sem skrifa og þeirra sem mæla sögur sína af munni fram. Sjaldgæft er að einn maður kunni hvort tveggja. Æfingu og tilsögn þarf til að ná tökum á listinni að segja frá. Hlustum bara á ræður þingmanna og um leið skilst að sumir eru betri en aðrir jafnvel þó þeir hafi lítil tök á rituðu máli.
Þetta dettur mér stundum í hug við lestur dagblaða, tímarita, bóka og skýrslna. Í gær las ég nokkrar greinar á íslenskum vefmiðlum og ég var litlu nær um efni máls vegna þess að öllu er grautað saman án upphafs og endis.
Svo er það þetta með skýrslurnar. Um þær má skrifa langt mál enda of margar langar og leiðinlegar. Fyrir kemur að höfundum skýrslna tekst ekki að móta efnið fyrir sér, það mótar hann og frásögnin verður leiðinleg og jafnvel illskiljanleg. Þetta þekki ég eftir að hafa skrifað nokkrar og sífellt lent í sama vandanum, að gera þær leshæfar og áhugverðar. Stundum tekst manni illa upp og þá veltir maður því fyrir sér hvort sagnagáfan sé meðfædd.
Fyrir kemur er ég fenginn til að lesa yfir skýrslur og frásagnir annarra vegna þess að margir halda að ég hafi eitthvað vit á framsögn, textagerð, málfræði og stafsetningu. Um það má deila.
Mér er það minnisstætt að fyrir nokkrum árum bað laganemi mig að lesa yfir ritgerðir sem hann samdi í námi sínu. Eftir stuttan tíma hætti hann að bera í mig ritgerðirnar. Honum fannst leiðréttingarnar ekki nógu lögfræðilegar. Skýringin blasti við mér.
Við upphaf laganáms virðist fólk breytast vegna þess að sá texti sem það les er oft ekki nógu góður. Í þeim mörgum eru málsgreinar óhóflega langar, ofvöxtur hefur hlaupið í aukasetningar og flækjustigið eykst. Nafnorðastíllinn tekur yfir og málskrúðið flæðir eins og arfi yfir kartöflugarð. Er nema skiljanlegt að blessaðir laganemarnir haldi að þannig eigi að skrifa lögfræðilega? Hratt og vel aðlaga þeir sig að þessum ósköpum.
Þegar ég var að leita að heimildum fyrir þessi litlu skrif rakst ég á ofangreint erindi eftir Kristján Árnason, prófessor, og varð óskaplega hrifinn. Kristján segir á einum stað:
Oft er sagt að nafnorðastíllinn sé kominn úr ensku en svo er ekki. Ég hygg að hann sé enskri tungu alveg jafnframandi og íslenskunni. Ég er viss um að allir sannir vinir enskunnar myndu telja það illa meðferð á tungu sinni þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna talaði eitt sinn um að það yrði það sem hann kallaði an increase in our presence in the Gulf sem útleggst aukning á nærveru okkar í Flóanum (þ.e.a.s. Persaflóanum) þegar rétt einu sinni hafði skapast hættuástand þar og átti hann þá væntanlega við að Bandaríkjamenn ætluðu að auka herstyrk sinn á svæðinu vegna hins svokallaða hættuástands.
En hvaðan kemur þá nafnorðastíllinn? Ég hygg að að hluta til megi rekja hann til eins konar misskilinnar trúar á skýrleik hans eða tilfinningar um að nafnorðastíllinn sé á einhvern hátt hlutlægari eða vísindalegri. [...]
Hagfræðingar segja að aukning eða minnkun á kaupgetu fólks hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að segja að verð á húsnæði fylgi kaupgetunni. Þarna er búið til það sem stærðfræðingar kalla fall eða fúnksjón milli kaupgetunnar og íbúðarverðsins og þeir sem tala um samband milli hækkunar og lækkunar á íbúðaverði og hækkunar og lækkunar á kaupgetu ímynda sér kannski að þetta sé eitthvað vísindalegra ef það er sett svona upp. Ég held að það sé misskilningur og það virðist vera alveg jafnskýrt að segja einfaldlega að íbúðarverð fylgi kaupgetunni.
Í lok ritgerðarinnar segir Kristján:
Ef ég ætti að reyna að koma með einhverjar ábendingar þá er það helst að reyna að forðast óþarflega formlegt orðalag og reyna, eftir því sem hægt er, að gera textann skiljanlegan sem flestum. Það er að mínu mati alveg jafnskýrt og gott að segja þess vegna eins og af þeim sökum. Oft má komast af með fornöfn í stað síðastgreindur, fyrrgreindur og ofangreindur o.s.frv.
Mér finnst einhvern veginn að fjölmiðlungar og aðrir sem hnoða texta þekki margir ekki til þessara einföldu reglna og séu þar af leiðandi orðin fórnalömb textans en ekki höfundar hans. Um leið ætti að vera ljóst að nokkur munur er á því að vera bakari eða bakaður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Facebook
Athugasemdir
Þetta var skemmtileg og fræðandi færsla. - Ég fór strax að huga að eigin málfari og hvar ég gæti bætt um betur í stað þess að falla í þá gryfju að enduróma eitthvað sem ég heyri frá öðrum. -
Már Elíson, 10.3.2016 kl. 16:28
Ánægjulegt, Már, en þetta er eilífðarverkefni.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.3.2016 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.