Hugsunarlaus akstur á vinstri akrein
2.3.2016 | 10:40
Umferðin í Reykjavík er óskipulögð og erfið. Að mestu leyti er það vegna þess að ökumenn eru hugsunarlausir og jafnvel kærulausir. Dæmi um það er vinstri akreina akstur á tveggja akreina götum.
Líkur benda til að umferðin gæti verið miklu greiðari ef ökumenn héldu sig almennt á hægri akgrein en nýttu þá vinsti einungis til framúraksturs. Þess í stað virðast ökumenn nota báðar akreinar á sama hátt án tillits til annarra.
Framnúrakstur er því vonlítill og umferðin silast á svipuðum hraða á báðum akreinum og langar raðir myndast. Eða þá að ökumenn taka að stunda stórsvig, þræða sig á milli akreina til að komast framhjá kjánum sem skilja fátt og ætla ef til vill að beygja til vinstri eftir fimm kílómetra, og aka samt yfir fjölda gatnamóta.
Raunar ætti reglurnar að vera þessar og eru það raunar að hluta:
- Ökumenn eiga að halda sig almennt á hægri akrein.
- Vinstri akrein er fyrst og fremst til framúraksturs eða þegar ætlunin er að beygja fljótlega af götunni og til vinstri.
- Sá sem er á vinstri akgrein og ekur jafnhratt eða hægar og bílar á þeirri hægri á að færa sig yfir á þá akrein.
Einfaldara getur þetta ekki verið.
Hér eru tvær myndir. Þær eru teknar á brúnni þar sem Bústaðavegur liggur yfir Hringbraut. Þar geng ég oft yfir á leið í vinnu og sé alltaf það sama. Bílar eru á vinstri akgrein, jafnvel þegar sú hægri er auð, og hraðinn er nákvæmlega hinn sami á báðum akreinum.
Hvernig getur umferðin verið skilvirk þegar ökumenn vanda sig ekki í umferðinni.
Lögreglunni er mikið niðri fyrir vegna þess að ökumenn tala í síma á meðan þeir eiga að vera að stjórna bíl sínum, hún sektar fólk fyrir of hraðan akstur, fyrir að virða ekki umferðaljós eða álíka. Ekki einn einast lögreglumaður gefur vinstri sinnum í umferðinni tiltal. Stundum sér maður jafnvel lögreglubíla silast áfram á vinstri akrein, enginn þorir framúr og langar biðraðir myndast fyrir aftan.
Verst er þó að engin umferðamerki eru til að benda ökumönnum á að nota hægri akrein og sú vinstri sé fyrir frammúrakstur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2016 kl. 12:34 | Facebook
Athugasemdir
Um hvaða hraða ertu að tala Sigurður, þegar þú nefnir silagang? Ef eitthvað er þá er umferðin of hröð hér í borginni óháð akgreinum. Almennt finnst mér ökumenn og konur tillitssamt miðað við ömurlegt gatnakerfi. Helzt að ég setji spurningamerki við þessa sem stunda framúrakstur á milli ljósa!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.3.2016 kl. 11:05
Hraðinn skiptir litlu máli í þessu samhengi. Það gengur ekki að tveir bílar séu hlið við hlið á 30 km/klst. Hraðinn er aukaatriði, skilvirk umferð er aðalatriðið. Stórsvig verður til vegna silaakstur á vinstri akrein. Hélt reyndar að flestir ættu að geta verið sammála þessum pistli.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.3.2016 kl. 11:12
Hraðinn skiptir öllu máli. Til hvers viltu fara fram úr bifreið sem þegar keyrir yfir löglegum hraða? Þessar athugasemdir þínar eiga miklu betur við um akstur utan þéttbýlis. Ótal sinnum hef ég lent á eftir bílstjórum á Suðurlandsvegi, sem ekki gefa kost á framúrakstri.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.3.2016 kl. 11:34
Ef til vill skilur þú ekki efni pistilsins, Jóhannes.
Grundvallarspurningin er þessi: Finnst þér í lagi að aka á vinstri akrein á sama hraða og bíllinn við hliðina sem er á hægri akrein? Báðir undir hámarkshraða.
Svarir þú játandi, erum við ósammála, vegna þess að ég er á þeirri skoðun að þú eigir þá að vera á hægri akrein.
Sé svarið nei, geri ég ráð fyrir að þú áttir þig á því að vinstri akreinin er fyrir frammúrakstur.
Sama á við um Suðurlandsveg þar sem eru tvær akreinar í sömu átt. Þú værir væntanlega ekki sáttur við að vera fyrir aftan tvær rútur sem aka samhliða á 60 km/klst.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.3.2016 kl. 13:08
Ég er fyrst og fremst að benda á að forsendurnar sem þú gefur þér eru ekki réttar. Í Reykjavík annar ekki gatnakerfið allri umferðinni á álagstímum, sem eru nota bene alltaf að lengjast. Hvað kæmust til dæmis margir bílar yfir á ljósunum við Miklubraut-Bústaðaveg, ef allir héldu sig á yztu vinstri akgrein? Það sem ég er að benda á er að reglan sem þú vilt að allir fari eftir alls staðar, á ekki við hér á umferðarþyngstu götunum. Enda beina sérfræðingar í umferðaröryggi þeim ráðleggingum til ökumanna að halda jöfnum hraða og sýna tillitssemi þeim sem þurfa að fara á milli akgreina. Þetta sýnist mér menn gera með örfáum undantekningum. Ástæður þess að menn velja frekar að halda sig á vinstri akgrein gæti svo einfaldlega tengst því hvert menn hyggjast beygja næst. Eða hvað???? En kannski er ég að misskilja þig eins og þú segir. Kannski var tilefnið þitt bara að koma höggi á "vinstri" menn
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.3.2016 kl. 22:13
Ég er alveg sammála Sigurður, þetta þarf að laga. Það er ótrúlega oft sem maður sér bíla á vinstri akrein aka uppi bíl á hægri akrein og hægja svo á sér.
Eins vantar á að menn færi sig yfir á vinstri akrein tímabundið þurfi að liðka fyrir umferð sem kemur frá hægri eftir aðliggjandi aðrein.
Jóhannes, það er ekki okkar hlutverk að stýra hraða annarra vegfarenda með því að meina þeim frammúrakstur. Eiga umferðarreglurnar og tillitsemi að vera misvirk í þéttbýli eða utan þess eða sniðnar eftir afbrigðilegum aðstæðum frekar en heilt yfir?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.3.2016 kl. 07:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.