Árni Páll Árnason hefur reynst almenningi dýr

Gott að Árni Páll geti borið gerðir núverandi ríkisstjórnar við eitthvað sem honum þykir ógurlegt úr sinni fortíð sem ráðherra. Mig langar hins vegar að benda á tvö mál úr einmitt hans fortíð sem ráðherra, sem hann og þjóðin ættu aldrei að gleyma.

Annað málið er lög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns og hitt eru lögin sem við hann eru kennd, þ.e. Árna Páls-lögin nr. 151/2010.

Þessi tvenn lög hafa kostað almenning og atvinnulífið (utan nokkurra fjármálafyrirtækja) stóran hluta þeirra 485 ma.kr. sem bankarnir þrír hafa hagnast frá hruni. Þar erum við ekki að tala um 170 ma.kr. á 10 árum heldur kannski nær því að vera 350 ma.kr. á 7 árum. Geri aðrir betur.

Já, mér finnst rétt að Árni Páll gagnrýni Sigurð Inga Jónsson og Bjarna Benediktsson fyrir skort á samráði, en hann var bara ekkert skárri sjálfur og þó menn hafi reynt að vara hann við bæði áður en lög nr. 107/2009 voru samþykkt og þegar frumvarp að lögum nr. 151/2010 var í meðförum þingsins.

Þá stakk hann hausnum inn um dyragættina hjá Samtökum fjármálafyrirtækja og bað þau um að koma í veg fyrir að þessir leiðinlegu lántakar næðu eyrum hans. Menn hafa viljað kenna Steingrími J um ofurhagnað bankanna, en reyndin er að Árni Páll á stærsta heiðurinn af honum.

Þessi orð er úr færslu Marinós G. Njálssonar, ráðgjafa, á Facbook í gær (greinaskil og feitletranir eru ritstjóra). Honum er mikið niðri fyrir og var greinilega ofboðið í gær þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, rauk upp á Alþingi og bar saman nýgerða búvörusamninga við Icesave.

Fólk og fjölmiðlar gleyma alltof fljótt en menn eins og Marinó eru með fílsmynni, að minnsta kosti er varðar hrunið og afleiðingar þess fyrir skuldastöðu heimila.

Já, við ættum aldrei að gleyma þeirri árás sem Árni Páll Árnason, ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gerði á almenning og fyrirtækinu á þeim tíma sem fólk þurfti aðstoð til að lifa af. Þess í stað hrundi allt og ótrúlegur fjöldi heimila missti eignir sínar í íbúðum að hluta eða öllu leyti og eftir fylgdu yfirleitt gríðarleg sorg og jafnvel harmleikir. Sama er með fjölda fyrirtækja sem var gert ómögulegt að ráða við skuldir sína rétt eins og „dauðalisti“ bankanna er gott vitni um.

Ávirðingar á Árna Pál Árnason eru gríðarlegar og hann þvær sig ekki af þeim með því að gera sig breiðan vegna búvörusamninganna. Skiptir engu þó gagnrýni hans kunni að einhverju leyti að vera réttmæt. 

Þegar loksins kom leiðrétting á skuldavanda heimilanna vegna hrunsins stóð Árni Páll Árnason fremstur í hópi gagnrýnenda. Vógu þó þessar leiðréttingar dálítið upp þann skaða sem fólk hafði orðið fyrir vegna ÁrnaPálslaganna.

Enn er hann formaður Samfylkingarinnar og enn er hann þingmaður. Hann nýtur hins vegar hvorki trausts almennings né eigin flokksmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband