Vegna æsku muna elstu menn ekki verra veður
8.12.2015 | 13:04
Skellur á af þunga í borginni, sagði fyrirsögn á mbl.is í gærkvöldi. Mér var litið út um stofugluggann og sýndist að veðrið væri hið sama í Kópavogi og hér í Reykjavík. Líklega átti blaðamaðurinn við höfuðborgarsvæðið enda var stormurinn álíka mikill um alla þá byggð, þó hugsanlega mestur á Kjalarnesi.
Í morgun hef ég spjallað við fólk víða um höfuðborgarsvæðið og flestir voru á þeirri skoðun að óveðrið hefði verið minna en búist var við. Vissulega er það gott enda tóku allir mikið mark á viðvörunum yfirvalda.
Þó skín í gegn vonbrigði fjölmiðlunga. Þeir bjuggust við miklu meiri látum og skaða. Ég var þó ekki var við að sjónvarpsmenn færu út í veðrið til að tala til áhorfenda eins og svo oft tíðkaðist til að sýna hetjudáð og stormstyrk.
Verra var þó að talsvert tjón var víða um land, rafmangslínur slitnuðu og fjarskipti féllu niður hér og þar. Þannig er nú bara staðan á Íslandi og hefur svo verið frá landnámi. Þó man ég ekki svo langt aftur.
Vart er þó að treysta á minni elstu manna. Sumir þeirra eru svo ungir að þeir hafa ekkert merkilegt upplifað, segja má að vegna æsku hfi þeir ekkert markvert upplifað í veðri. Aðrir eru svo gamlir að þeir hafa gleymt öllu því sem máli skiptir.
Hérna fylgja tvær nærri tuttugu og fimm ára gamlar myndir. Báðar voru teknar á Fimmvörðuhálsi eftir óveðrið mikla veturinn 1991. Fimmvörðuskáli er klakabrynjaður, svo kyrfilega að útilokað var að opna dyr. Tókum við félagar þá til þess ráðs að höggva ísinn í kringum lítinn gaflglugga og þar komumst við inn eins og síðari myndin sýnir. Fyrir neðan gaflgluggan eru tveir stórir gluggar en ekkert sést í þá frekar en annað á skálanum.
Klakabrynjan er einstaklega falleg, hefur líklega byrjað sem slydda og hún hlaðist á þakskegg og síðan frosið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.