Þingheimur er ekki lengur neitt úrval þjóðfélagsins

Því miður hefur sú þróun orðið ansi hröð undanfarna tvo áratugi - kannski lengur - að það fólk sem velst til setu á þingi, er alls ekki neitt úrval þjóðfélagsins, síður en svo, hvorki að vitsmunum né yfirsýn.

Þessi ágætu orð skrifar Þorkell Guðbrandsson í athugasemdadálk í bloggi hjá Ómari Ragnarssyni. Sá síðarnefndi skrifar um ökuskírteini en fólk yfir sjötugu þarf að endurnýja það á tveggja ára fresti. Ómar er flugmaður og þarf að fara í læknisskoðun tvisvar á ári til að halda skírteininu. Þorkell er með réttindi til að stýra skipi og til þess þarf ítarlegra vottorð en til að aka bíl.

Þetta er nú bara aukaatriði. Mér fannst Þorkeli mælast afar vel þegar hann talar um þingmenn. Ég er honum fyllilega sammála og finnst hörmulegt að til þingmennsku veljist alltof sjaldan hinir mætustu menn af viti og/eða yfirsýn. Ef til vill hefur það aldrei verið þannig.

Vitsmunir eru líklega meðfæddir en sniðugir menn geta hugsanlega falið gáfnaskortinn með hávaða, kjaftagangi og yfirklóri, sem er hugsanlega bara gáfumerki. Yfirsýnin er þó afar nauðsynleg og það þarf ekki nema meðalmann í gáfum til að rísa upp af láglendinu, tileinka sér víðan sjóndeildarhring og halda um leið stillingu sinni og hafa hemil á masinu. Gáfan byggist þó á því að sá sem í hlut á vilji geri sér grein fyrir þessu og hafi vilja til að bera.

Oft finnst mér að þeir sem setjast á þing tileinki sér nýtt fas og talsmáta, telji sig hafa höndlað alheimsviskuna, viti allt, geti allt og standi okkur almenningi um allt framar. Ég dreg þessa ályktun af því að hafa lengi fylgst með stjórnmálum. Oft sest ég niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með umræðum á þinginu. Og drottinn minn dýri, þvílíkt kjaftæði og bull sem oft má sjá þar en til að vera sanngjarn og fara með rétt mál hefur maður oft orðið vitni af afar góðum umræðum.

Áhorfendur taka eftir að fjöldi þingmanna kemur í ræðustól og talar blaðalaust. Fæstir kunna hins vegar að segja frá, enn færri eru góðir sögumenn og þaðan af síður góðir ræðumenn. Þeir eru til sem bókstaflega gapa í stólnum, vita ekkert hvað þeir eru að gera, fletta í heimildum, tafsa, masa og mala án þess að koma nokkurn tímann að aðalatriði máls og jafnvel er það til að ræðumaður hætti ítrekað að tala í miðri setningu. Þeir sem koma með undirbúna ræðu eða góða punkta til að styðjast við eru margfalt betri.

Svo er það röksemdafærslan, málefnalega umræðan. Hún er varla til. Moldrykinu er þyrlað, hangið í bjánalegum og órökréttum slagorðum sem engu geta skilað enda til þess ekki stofnað.

Reglu þingsins leyfa alls kyns umræður undir ýmis konar formerkjum svo sem athugasemdum sem margir nýta til málþófs eða annarra leiðinda.

Svo er það keppni þingmanna um að koma sér að í fjölmiðlum, vitna í eigin orð; „... eins og ég benti á í ræðu minni á þingi fyrir síðustu jól ...“ eða „... ég bendi bara á það sem ég sagði í blaðagrein/ræðu/bók ...“.

Eina reglu tel ég mig hafa fundið eftir allan þennan tíma. Hún er svona:

Því meir sem þingmaður hækkar röddina því minni vitsmunir búa að baki og að auki tilfinnanlegur skortur á þekkingu og yfirsýn. 

Skynugir lesendur með meðalgreind en þokkalega yfirsýn átta sig án efa á því að reglan er eiginlega algild, á ekki aðeins við um þingmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já Sigurður, við lestur gamalla þingfrétta þá kemur í ljós að á þeirri tíð voru á Alþingi bændur, byggingar iðnaðarmenn og annarskonar iðnaðar menn sem og verkamenn og prestar. 

En í dag eru þingmenn flestir ræktaðir í Háskólanum og hafa fræðinga titla allskonar en lögfræði sem og hagfræði sýnist vera hentugt mjög til að komast á þing.   

Hrólfur Þ Hraundal, 15.10.2015 kl. 20:42

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sammála Hrólfi að nokkru leiti. Þingmenn eru nokkuð einsleitur hópur í dag. það stjórnast mikið af því að til þess að þú komist inn á framboðslista flokkanna þarft þú að hafa fjármagn því það er búið að koma því inn hjá fólki að hversu vel menn geta kynnt sig og þá sérstaklega lookið og höfðinglega framkomu skipti öllu máli hversu góðir fulltrúar þeir séu og það kostar. Nokkuð sem fólk á góðum launum hefur efni á. En fyrri störf virðast skipta fólk minna máli því þau þarf ekki að kynna og það kostar ekkert.

Jósef Smári Ásmundsson, 16.10.2015 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband