Með haustak á Tyrkjum eða hauspoka eftir leik
13.10.2015 | 10:24
Íslendingar hafa haft gott tak á Tyrkjum en þjóðirnar eigast við í 9. sinn í Konya í kvöld. Íslendingar hafa unnið fimm af leikjunum átta, Tyrkir einn og tvívegis hefur jafntefli orðið niðurstaðan. Stærsti sigur Íslands leit dagsins ljós árið 1991. 5:1 urðu lokatölurnar á Laugardalsvellinum þar sem Arnór Guðjohnsen skoraði fjögur mörk.
Þetta segir Mogginn í dag um leik Tyrklands og Íslands í kvöld undir fyrirsögninni: Með gott tak á Tyrkjum.
Er ég einn um þá skoðun að úrslit gamalla landsleikja, meðal annars frá þeim tíma er landsliðsmenn beggja liða voru smástrákar, hafi engin áhrif á leikinn í kvöld? Raunar finnst mér það tóm vitleysa að halda slíku fram nema að um haustak sé að ræða en þá má velta því fyrir sér hver haldi hverjum og hvar.
Þetta er eins og fréttaflutningurinn af Eurovision söngakeppninni. Árlega er gerður afar góður rómur af blaðamannafundi íslensku flytjendanna og fá þeir svo osssssalega mikið klapp frá blaðamönnum ... Fyrir vikið eru allir rosalega bjartsýnir og jafnvel er farið að pæla í stað í Reykjavík til að halda keppnina á næsta ári. Svo er niðurstaðan yfirleitt sextánda sætið eða eitthvað lakara. Hafi enginn áttað sig á staðreynd mála þá ráðast útslitin í söngvakeppninni ráðast nebbbbnilega ekki á blaðamannafundi fyrir keppni.
Sama er með fótboltaleiki. Þeir ráðast ekki af einhverri hefð ... úrslitin í leik Hollands og Íslands í síðasta mánuði er glöggt dæmi um slíkt. Fótboltaleikur byggir á einu einföldu atriði, að koma boltanum oftar í mark andstæðinganna en þeim tekst.
Þrátt fyrir ágæti íslenska landsliðsins verður við ramman reip að draga úti í Tyrklandi, jafnvel skiptir litlu þó þjálfarar okkar og fyrirliði liðsins hafi staðið sig vel á blaðamannafundi.
Vonandi gengur landsliðinu vel í leiknum, þurfi ekki að hverfa af velli með hauspoka af því að góða takið á Tyrkjum hélt ekki, eða þannig.
Teikningin er af vef Sander Bultman.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.